Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu

Réttur til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu nær yfir gríðarstórt svið, allt frá ákvæðum um símahlerun til réttinda er varða kynhneigð. Þessi réttindi eiga einnig sérstaklega við um réttindi foreldra til að umgangast börn sín, réttinn til þess að ganga í hjúskap og til ættleiðinga.

Rétturinn um friðhelgi einkalífsins rennur af réttinum til frelsis og sjálfsákvörðunarréttinum, svo lengi sem sá réttur hefur ekki áhrif á frelsi og réttindi annarra. Rétturinn til einkalífs er einnig réttur til sjálfsákvörðunar. Sá réttur er brotinn þegar ríki skipta sér af, refsa fyrir eða banna ákveðna hegðun sem aðeins kemuir þeim einstaklingi sem á í hlut við. Til dæmis þegar einstaklingur ákveður að bera ekki öryggisbúnað við vinnu sína eða ef að hann ákveður að fremja sjálfsvíg. Ríki sem hafa afskipti að slíkum málum, byggja réttlætingu sína á því að of mikill samfélagslegur kostnaður hljótist af hegðun einstaklingsins, t.d aukinn kostnaður við heilbrigðiskerfið.

Rétturinn til friðhelgi einkalífsins á einnig við um réttindi einstaklingsins til náinna kynna við annan einstakling, til auðkennis og sjálfsmyndar, til nafns, heiðurs, reisnar, virðingar og til tilfinninga og kynhneigðar.

Það er ekki leyfilegt að neyða fólk til þess að breyta útliti sínu eða auðkenni, á sama hátt og ekki er hægt að meina þeim frá því að breyta auðkenni sínu, útliti eða kyni. En ef réttindi annarra eru í húfi, eins og t.d í faðernismálum, þá er heimilt að neyða einstakling til þess að gefa frá sér lífsýni svo mögulegt sé að úrskurða um faðerni.

Rétturinn til einkalífs nær yfir heimilið, fjölskyldu, samskiptaaðila og vinnustað.

Hugtakið fjölskylda er oft byggt á blóðtengslum, tengslum af efnahagslegum grunni, hjúskap og ættleiðingu.

Rétturinn til þess að ganga í hjúskap og stofna fjölskyldu

Hjónaband og fjölskylda er forn stofnun sem hefur verið viðurkennd um aldir og er álitin einn af hornsteinum samfélagsins. Hjúskaparlög, nr. 31/1993, eru grundvöllur réttarreglna um hjúskap hér á landi.

Eins og aðrir þættir í samfélögum heimsins hefur fjölskyldan tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Sem dæmi má nefna að ný lög og reglur hafa verið settar fót til þess að tryggja að einstaklingar í hjónabandi njóti sömu réttinda. Mikið hefur t.d áunnist í réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra og hefur það haft töluverð áhrif á fjölskylduna og það fjölskyldumynstur sem áður þekktist. Ný lög og hefðir hafa skapast um ættleiðingar og nú eru til sérstök réttindi barna.

Ríkinu er skylt að viðurkenna hjónabandið og fjölskyldu og eiga þessar stofnanir að njóta réttinda samkvæmt ríkjandi lögum og reglum.

Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og íslensk lög

Á Íslandi er kveðið á um réttindi er varða einkalíf, heimilið og fjölskylduna í 71. gr. stjórnarskrá lýðveldisisn Íslands, nr. 33/1944. Kemur þar fram að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði, eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Í XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem ber yfirskriftina ,,ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs”, er æru og einkalífi veitt sérstök refsivernd. Í lögunum er gert refsivert að hnýsast í bréf og önnur gögn sem varða einkamálefni manna, skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns, ryðjast heimildarlaust inn í hús, raska friði annars manns með því að ofsækja hann með bréfum, símhringingum eða á annan hátt og meiða æru annars manns eða móðgun í orðum eða athöfnum. Í ákvæðum þessum er hægt að finna undirstöðu meiðyrðalöggjafarinnar og þá helst í 229. gr., 234. gr. til 237. gr. svo og 240. gr. almennu hegningarlaganna. Samkvæmt ákvæðum þessum er lögð refsing, sektir eða fangelsi allt að einu ári við því að meiða æru annars manns með móðgun í orði og athöfnum og drótta að öðrum manni svo að virðingu hans verði hnekkt. Einnig er lögð þyngri refsing, fangelsi allt að tveimur árum, við því að bera ærumeiðandi aðdróttanir út gegn betri vitund.

Lög um persónuvernd

Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, eru umfangsmestu lagareglurnar sem stefna að því að vernda einkalíf manna fyrir söfnun og meðferð persónulegra upplýsinga. Lögin eru mjög ítarleg og gilda um rafræna og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða er ætlað að vera hluti að skrá. Samkvæmt lögunum sinnir sérstök stjórnsýslustofnun sem nefnist Persónuvernd eftirliti með framkvæmd laganna. 

Lög sem að gæta að rétti barna og foreldra

Í löggjöfinni er einnig að finna ýmis ákvæði sem eiga að vernda réttindi barna og veita þau stjórnvöldum heimildir til þess að hafa afskipti af fjölskyldulífi og heimili, ef talið er að velferð barns sé í hættu. Stjórnarskráin tryggir í 3. mgr. 76. gr. að börnum sé tryggt með lögum þá vernd og ummönnun sem velferð þeirra krefst.

Verndarákvæði sem þessi er einkum að finna í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og barnalögum, nr. 76/2003.

Rannsóknaraðgerðir lögreglu og annarra stjórnvalda

Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er aðeins heimilt að gera líkamsrannsókn og leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum ef fyrir liggur dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild. Það sama gildir um rannsókn á bréfaskiptum og öðrum tjáskiptum manna sem talin eru í ákvæðinu.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16