Önnur valfrjáls bókun við samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um afnám dauðarefsingar

Stjórnartíðindi C 11/1991.

Samþykkt á allsherjarþingi Sþ 15. desember 1989 með samþykkt 44/128. Ísland fullgilti bókun 2. apríl 1991, öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 11. júlí 1991.

 

Önnur valfrjáls bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Ríki þau sem aðilar eru að bókun þessari telja að afnám dauðarefsingar stuðli að eflingu göfgi

mannsins og framþróun mannréttinda,

minna á 3. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948 og 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem samþykkt var 16. desember 1966,

minna á að í 6. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sé vísað til afnáms dauðarefsingar á þann hátt að sérstaklega sé gefið til kynna að afnám dauðarefsingar sé æskilegt,

eru sannfærð um að allar ráðstafanir til afnáms dauðarefsingar skuli teljast auka möguleikana á að njóta réttar til lífs,

æskja að takast hér með á hendur alþjóðlega skuldbindingu um afnám dauðarefsingar,

hafa komið sér saman um eftirfarandi:

1. gr. 1. Enginn sem búsettur er innan lögsögu ríkis sem aðili er að bókun þessari skal tekinn af lífi.

2. Aðildarríki skal beita öllum nauðsynlegum ráðum til að afnema dauðarefsingu innan lögsögu sinnar.

2. gr. 1. Enginn fyrirvari er leyfilegur samkvæmt samningi þessum að undanskildum fyrirvara sem gerður er við fullgildingu eða aðild og gerir ráð fyrir beitingu dauðarefsingar á stríðstímum, við sakfellingu fyrir alvarlegustu afbrot hernaðarlegs eðlis framin á stríðstímum.

2. Aðildarríki sem gerir slíkan fyrirvara skal við fullgildingu eða aðild tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ákvæði í lögum sem eiga við á stríðstímum.

3. Aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara skal tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna upphaf eða endi stríðsástands sem nær til landsvæðis þess.

3. gr. Ríki þau sem aðilar eru að bókun þessari skulu í skýrslum sem þau leggja fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í samræmi við 40. gr. samningsins tilgreina þær

ráðstafanir sem þau hafa gert til þess að veita bókun þessari gildi.

4. gr. Að því er varðar ríki, sem aðilar eru að samningnum og gefið hafa yfirlýsingu samkvæmt 41. gr., skal lögbærni mannréttindanefndarinnar til þess að taka við og athuga orðsendingar þess efnis að aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum einnig ná til ákvæða þessarar bókunar, nema því aðeins að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið gagnstæða yfirlýsingu við fullgildingu eða aðild.

5. gr. Að því er varðar ríki, sem aðilar eru að fyrstu valfrjálsri bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem gerð var 16. desember 1966, skal lögbærni mannréttindanefndarinnar til þess að taka við og athuga erindi frá einstaklingum, sem falla undir lögsögu þess, einnig ná til ákvæða bókunar þessarar, nema því aðeins að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið gagnstæða yfirlýsingu við fullgildingu eða aðild.

6. gr. 1. Ákvæði bókunar þessarar skulu gilda sem viðbótarákvæði samningsins.

2. Að áskildum möguleika á að gera fyrirvara samkvæmt 2. gr. bókunar þessarar skal ekki heimilt að víkja samkvæmt 4. gr. samningsins frá rétti þeim sem tryggður er í 1. tölul. 1. gr. bókunar þessarar.

7. gr. 1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir hvert það ríki sem undirritað hefur samninginn.

2. Sérhverju ríki sem hefur fullgilt eða gerst aðili að samningnum er heimilt að fullgilda þessa bókun. Fullgildingarskjöl skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.

3. Bókun þessi skal liggja frammi til aðildar fyrir hvert það ríki sem fullgilt hefur eða gerst aðili að samningnum.

4. Aðild skal öðlast gildi með því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.

5. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum sem undirritað hafa þessa bókun eða gerst aðilar að henni um afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals.

8. gr. 1. Bókun þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag sem tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.

2. Nú fullgildir ríki þessa bókun eða gerist aðili að henni eftir afhendingu tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalsins til varðveislu og skal þá þessi bókun öðlast gildi gagnvart því ríki þremur mánuðum eftir þann dag sem það afhendir sitt eigið fullgildingar- eða aðildarskjal til varðveislu.

9. gr. Ákvæði þessarar bókunar skulu ná til allra hluta sambandsríkja án nokkurra takmarkana eða undantekninga.

10. gr. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 1. tölul. 48. gr. samningsins um eftirfarandi atriði:

(a) fyrirvara og tilkynningar samkvæmt 2. gr. bókunar þessarar,

(b) yfirlýsingar samkvæmt 4. eða 5. gr.,

(c) undirritanir, fullgildingar og aðildir samkvæmt 7. gr.,

(d) gildistökudag bókunar þessarar samkvæmt 8. gr.

11. gr. 1. Bókun þessari skal komið til varðveislu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og eru textarnir á arabísku, kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spönsku jafngildir.

2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 48. gr. samningsins staðfest afrit bókunar þessarar.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16