Mannréttindakerfi Ameríku

Samtök Ameríkuríkja OAS voru stofnsett með undirritun OAS samningsins þann 30. apríl árið 1948, á níundu alþjóðaráðstefnu Ameríkuríkja. Samningurinn gekk í gildi árið 1951. Á ráðstefnunni var einnig skrifað undir amerísku yfirlýsinguna um réttindi og skyldur manna. Mörg ákvæði OAS samningsins fjalla um lýðræði og mannréttindi, eins og réttinn til menntunar, jafnréttis og efnahagslegra réttinda.

Með OAS samningnum voru settar á fót tvær stofnanir sem er sérstaklega ætlað að efla og vernda mannréttindi: Mannréttindadómstóll Ameríkuríkja og Mannréttindanefnd Ameríkuríkja.

Samtök Ameríkuríkja - OAS

Starfsemi OAS nær yfir fimm svið. Í fyrsta lagi vinnur stofnunin að frekara lýðræði með því að stuðla að málfrelsi og frekari þátttöku almennings í stjórnun ríkjanna sem og í samfélaginu öllu. Jafnframt því er unnið að því að uppræta spillingu innan stjórnkerfisins. Í öðru lagi vinnur stofnunin að því að efla mannréttindi, sérstaklega réttindi kvenna, réttindi barna og menningarleg réttindi. Í þriðja lagi vinnur stofnunin að frekari friði í Ameríku sem og í heiminum öllum, með aðgerðum gegn hryðjuverkum og með því að fjarlægja gamlar jarðsprengjur af ófriðarsvæðum. Í fjórða lagi vinnur stofnunin að réttarreglu með því að styrkja lagaþróun innan Ameríku og með því að vinna að upprætingu ólöglegrar fíkniefnaneyslu og mansali, ásamt því að vinna gegn glæpastarfsemi. Í fimmta og síðasta lagi vinnur stofnunin að því að styrkja efnahag svæðisins. Stofnunin styður frjáls viðskipti á milli Ameríkuríkjanna, hún vinnur að uppbyggingu í vísindum, í fjarskiptatækni sem og annarri tækni, ferðaþjónustu og á sviði sjáfbærrar þróunar og umhverfismála.

Jafnframt þessu vinnur stofnunin að því að draga úr fátækt og efla menntun ásamt því að vinna með atvinnumál hverskonar.

Öll Ameríkuríkin 35 hafa fullgilt OAS samningin og eru aðilar að stofnuninni.

OAS samingurinn hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar. Með Buenos Aires viðaukanum árið 1967 var uppbygging stofnunarinnar breytt og í kjölfarið fékk mannréttindanefndin aukið vægi og var gerð að einni meginstofnun OAS. Einnig var árið 1985 samþykktur Cartegena de Indias viðaukinn.

Helstu stofnanir OAS

Allsherjarþingið – The General Assembly

Allsherjarþingið fer með æðsta ákvarðanatökuvald stofnunarinnar. Þingið fundar einu sinni á ári. Eru það utanríkisráðherrar aðildarríkjanna sem skipa þingið. Allsherjarþingið útbýr aðgerðaáætlun stofnunarinnar og fer með stefnumótun. Þingið sér einnig um að kjósa meðlimi mannréttindanefndarinnar, hún sér einnig um að samþykkja fjárlög nefndarinnar og Mannréttindómstóls Ameríkuríkja og fer jafnframt yfir ársskýrslu stofnananna. Allsherjarþingið sér þó ekki um að útnefna dómara við dómstólinn heldur er það á höndum ríkjanna.

Fastaráðið – The Permanent Council

Fastaráðið samanstendur af einum sendiherra frá hverju aðildarríki og skipar ríkisstjórn aðildarríkisins þann fulltrúa. Síðan 1985 hefur fastaráðið farið með það hlutverk að yfirfara ársskýrslur mannréttindanefndarinnar og mannréttindadómstólsins áður en þær eru lagðar fyrir Allsherjarþingið.

Skrifstofa aðalritara – The General Secretariat

Aðalritarinn er skipaður af Allsherjarþinginu til fimm ára. Aðalritarinn má taka þátt í öllum fundum OAS, án þess þó að hafa atkvæðarétt. Honum er þó heimilt að láta skoðanir sínar í ljós. Ritarinn sinnir verkefnum sem honum eru sett af Allsherjarþinginu og koma fram í grein 112 og 113 í OAS sáttmálanum. Undir aðalritarann heyrir 21 undirnefnd sem aðstoða ritarann við þau verkefni sem honum ber að sinna.

Mannréttindastofnanir OAS

Mannréttindanefnd Ameríkuríkjanna

Mannréttindanefnd Ameríkuríkjanna var stofnsett árið 1959 og fór fyrsti fundur hennar fram árið 1960. Buenos Aires viðaukinn hafði í för með sér að stofnunin varð að fastastofnun innan OAS. Viðaukinn kveður á um helsta hlutverk mannréttindanefndarinnar sem er að efla og vernda mannréttindi. Starf nefndarinnar felur einna helst í sér;

  1. Að taka á móti, greina og rannsaka kvartanir einstaklinga um mannréttindabrot samkvæmt 44. og 55. grein sáttmálans.
  2. Að fylgjast með stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum OAS og gefa út sérstakar skýrslur um aðstæður innan ákveðins ríkis, þegar henni finnst nauðsyn vera til.
  3. Að fara í almennar vettvangsferðir til þess að öðlast frekari skilning á hvernig stöðu mannréttindamála er háttað á svæðinu. Einnig fer hún í sérstakar vettvangsferðir þar sem sérstakar aðstæður eru rannsakaðar. Eftir ferðirnar gefur nefndin út skýrslu þar sem hún segir frá athugunum sínum. Skýrslan er síðan lögð fyrir Allsherjarþingið.
  4. Að stuðla að almennri meðvitund almennings á mikilvægi mannréttinda og virðingu þeirra í Ameríku. Til þess að stuðla að vitundarvakningu gefur nefndin út ýmis konar fræðsluefni, t.d fræðsluefni um mikilvægi sjálfstæðra dómstóla, um aðgerðir skæruliða, um mannréttindamál kvenna og minnihlutahópa, sem og mannréttindi innfæddra.
  5. Að skipuleggja og halda ráðstefnur, fræðslufundi og námskeið með ríkisstjórnum aðildarríkjanna og háskólum. Tilgangurinn er að miðla upplýsingum og bæta vitneskju um málefni er tengjast mannréttindakerfi Ameríku.
  6. Að ráðleggja aðildarríkjum OAS um aðgerðir sem stuðlað geta að eflingu og virðingu mannréttinda.
  7. Að fara fram á að ríki tileinki sér varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir alvarlegan misbrest á mannréttindum í sérstökum málum. Nefndin getur líka farið fram á að dómstóllinn beiti sérstökum bráðabirgðaaðgerðum í málum þar sem fólk er í hættu statt, jafnvel þó að málið hafi ekki borist mannréttindadómstólnum.
  8. Að leggja mál fyrir Mannréttindadómstól Ameríkuríkja og vera viðstödd þegar málrekstur á sér stað.
  9. Að biðja um ráðgefandi álit frá dómstólnum um túlkun ákvæða mannréttindasáttmálans.
 Mannréttindadómstóll Ameríkuríkjanna

Mannréttindadómstóllinn var settur á fót í kjölfar fullgildingar mannréttindasáttmála Ameríku árið 1978. Í dómstólnum sitja sjö dómarar, sem hver um sig er tilnefndur og kosinn til sex ára í senn. Er það í höndum aðildarríkja mannréttindasáttmálans að kjósa dómara. Hver dómari má einungis vera endurkjörinn einu sinni.

Lögsaga dómstólsins er takmörkuð. Hann hefur einungis heimild til að hlýða á mál ef;

  1. ríkið sem á í hlut hefur fullgilt Mannréttindasáttmála Ameríku,
  2. ríkið hefur samþykkt valfrjálsa lögsögu dómstólsins,
  3. mannréttindanefndin hefur lokið við rannsókn sína málinu,
  4. málinu var vísað til dómstólsins af mannréttindanefndinni eða ríkinu sjálfu, innan þriggja mánaða frá því að mannréttindanefndin gaf út skýrslu um viðkomandi málefni. Einstaklingar geta ekki upp á eigin spýtur leitað til dómstólsins.

Þegar mannréttindanefndin fer með mál til dómstólsins þá er upprunalegi umsækjandinn látinn vita. Umsækjandinn eða lögfræðingur hans geta á þessum tímapunkti farið fram á að sérstökum aðferðum sé beitt við vissar aðstæður, eins og að beita sérstakri varkárni gagnvart vitnum og að sönnunargögn málsins séu í öruggum höndum.

Málarekstur er bæði munnlegur og skriflegur. Undir venjulegum kringumstæðum eru réttarhöldin opin almenningi en dómstóllinn má loka þeim ef hann sér góða og gilda ástæðu til.

Umræður og umhugsun dómstólsins eru ávallt trúnaðarmál, en dómar hans og álit eru gerð opinber. Ef niðurstaða dómstólsins er sú að brotið hafi verið gegn mannréttindum, dæmir hann svo að slík brot verði leiðrétt. Dómstóllinn má veita fórnarlambi mannréttindabrotanna skaðabætur fyrir líkamlegt eða tilfinningalegt tjón og/eða fyrir lögfræðikostnaði, en hann greiðir ekki bætur fyrir hegningarkostnað.

 

Frekari upplýsingar um mannréttindakerfi Ameríku má finna á vefsíðu OAS og á vefsíðu mannréttindadómstóls Ameríku.

Einnig er hægt að finna gagnlegar upplýsingar á vefsíðu Cejil samtakana.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16