Ferðafrelsi

Rétturinn til þess að ferðast telst til grundvallarmannréttinda sem viðurkennd eru af mannréttindahefðum alþjóðasamfélagsins. Lagalega viðurkenningu á ferðafrelsi má rekja allt til Magna Carta, frá árinu 1215.

Á tímum kalda stríðsins olli ferðafrelsi ýmsum deilum á milli Austur–Evrópu og Vesturlandanna. Eftir 1989 hefur ferðafrelsi fengið nýja merkingu. Alþjóðakerfið hefur breyst mikið og för manna heimshorna á milli hefur aukist gríðarlega. Víða um heim má sjá fólk á ferðalögum á ókunnum slóðum. Jafnframt því hefur fólk í auknum mæli flust búferlum á milli ríkja, jafnvel heimshluta. Þessi aukni hreyfanleiki fólks hefur haft í för með sér fjölmörg vandamál; má sem dæmi nefna útlendingahræðslu sem og hert innflytjenda- og útlendingalög.

Aukið streymi flóttamanna, farandverkamanna og innflytjenda hefur aukið mikilvægi þess að ferðafrelsi sé í heiðri haft, á sama tíma og óteljandi vandamál hafa í kjölfarið sprottið upp.

Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum skiptist ferðafrelsi í fjögur meginsvið;

  1. Rétt til þess að ferðast að vild innan ákveðins svæðis. Allir einstaklingar sem löglega eru innan ríkis, mega ferðast að vild innan þess svæðis sem ríkið hefur lögsögu yfir.
  2. Rétt til þess að ákveða dvalarstað innan svæðis. Allir einstaklingar sem löglega eru innan ríkis hafa rétt til að velja að vild þann stað/landsvæði sem þeir vilja dvelja á innan ríkisins.
  3. Rétt til þess að yfirgefa hvaða landsvæði sem er, jafnvel eigið land. Rétturinn felur í sér rétt einstaklings til að flytja frá landi sínu til frambúðar, eða til styttri eða lengri tíma. Réttur þessi er upprunninn af þeirri staðreynd að ríkið á ekki þá einstaklinga sem innan landsvæðis þess búa.
  4. Rétt til þess að koma inn í sitt eigið land. Réttur þessi felur í sér viðurkenningu á að sérstakt samband ríki á milli ríkis og einstaklinga sem eiga uppruna sinn að rekja til ríkisins. Réttur þessi nær yfir þrjá þætti: a) réttinn til þess að dvelja í eigin landi; b) réttinn til þess að snúa aftur til eigin lands, eftir að hafa yfirgefið það; c) réttinn til þess að koma til upprunalands síns, ef einstaklingur hefur fæðst utan ríkisins, til dæmis ef einstaklingur rekur þjóðerni sitt til ríkisins. Rétturinn til þess að snúa heim er sérstaklega mikilvægur flóttamönnum sem sjálfviljugir vilja snúa aftur til síns heimalands.

Ferðafrelsi og íslenskur réttur

Í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar er landvistarréttur íslensks ríkisborgara fortakslaus. Íslenskum ríkisborgara verður því ekki meinað að koma til Íslands og hann verður ekki gerður brottrækur frá landinu. Regla þessi var þó ekki bundin í stjórnarskrá fyrr en árið 1995 þegar mannréttindakafli hennar var endurskoðaður. Þó að svo hafi verið og hennar hafi ekki verið getið í almennri löggjöf þá hefur ávallt verið litið á hana sem óskráða grundvallarreglu. Þó að íslenskum ríkisborgurum verði ekki meinaður aðgangur að landinu verða þeir að hlýta þeim lagareglum sem gilda um komu og brottför.

Landvistarréttur íslenskra ríkisborgara útilokar ekki að hann verði framseldur til annarra ríkja til að svara þar til saka vegna gruns um refsiverða háttsemi. Í 3. og 4. mgr. 66. gr. eru settar fram nokkrar meginreglur um ferðafrelsi innanlands og rétt til að ferðast úr landi ásamt réttinum til þess að velja sér sinn dvalarstað. Þó er fjallað um leyfilegar takmarkanir á þessum rétti.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16