Bókun um breyting á félagsmálasáttmála Evrópu

SES nr. 142

Bókun um breytingu á félagsmálasáttmála Evrópu

Tórínó, 21. X. 1991 - Safn Evrópusamninga/142
Þýðing þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.


Aðildarríki Evrópuráðsins, sem hafa undirritað bókun þessa við félagsmálasáttmála Evrópu, sem var lagður fram til undirritunar í Torino 18. október 1961 (hér á eftir nefndur "sáttmálinn"),

hafa einsett sér að takast á hendur aðgerðir til að auka skilvirkni sáttmálans, einkum eftirlitskerfis hans,

telja af þessum sökum æskilegt að breyta tilteknum ákvæðum sáttmálans,

og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


1. gr.
23. gr. sáttmálans hljóði svo:
"23. gr. – Sending samrita af skýrslum og athugasemdum
1. Hver samningsaðili, sem sendir framkvæmdastjóra skýrslu eins og um getur í 21. og 22. gr., skal senda samrit af henni til þeirra innlendu samtaka, sem eru aðilar að þeim alþjóðlegu samtökum vinnuveitenda og stéttarfélaga, sem bjóða ber samkvæmt 2. mgr. 27. gr. að eiga fulltrúa á fundum stjórnarnefndar. Þessi samtök skulu senda framkvæmdastjóranum allar athugasemdir sínar við skýrslur samningsaðilanna. Framkvæmdastjórinn skal senda samrit af þeim athugasemdum til hlutaðeigandi samningsaðila sem þeir kunna að vilja svara.
2 . Framkvæmdastjórinn skal senda samrit af skýrslum samningsaðila til frjálsra alþjóðasamtaka sem eru Evrópuráðinu til ráðgjafar og sérstaklega til þess bær að fjalla um þau málefni, sem þessi sáttmáli tekur til.
3. Þær skýrslur og athugasemdir, sem um getur í 21. og 22. gr. auk þessarar greinar, skulu vera almenningi aðgengilegar, sé þess óskað."

2. gr.
24. gr. sáttmálans hljóði svo:
"24. gr. – Athugun á skýrslum.
1. Skýrslurnar, sem framkvæmdastjóranum eru sendar í samræmi við 21. og 22. gr., skulu athugaðar af nefnd óháðra sérfræðinga, sem stofnuð er í samræmi við 25. gr. Nefndin skal einnig fá til athugunar þær athugasemdir, sem sendar hafa verið til framkvæmdastjórans í samræmi við 1. mgr. 23. gr. Að athugun lokinni skal nefnd óháðra sérfræðinga semja skýrslu um niðurstöður sínar.
2. Hvað varðar skýrslurnar sem um getur í 21. gr. skal nefnd óháðra sérfræðinga meta frá lagalegu sjónarmiði hvernig lög og venja í landinu samræmast skuldbindingum þeim sem samningsaðilinn tekur á sig með sáttmálanum.
3. Nefnd óháðra sérfræðinga getur beint beiðnum sínum um viðbótarupplýsingar og skýringar milliliðalaust til samningsaðila. Í því sambandi getur nefnd óháðra sérfræðinga einnig, ef þörf krefur, boðað til fundar með fulltrúum samningsaðila, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni hlutaðeigandi samningsaðila. Samtökunum sem um getur í 1. mgr. 3. gr. skal tilkynnt um slíkt.
4. Framkvæmdastjórinn skal birta og kynna niðurstöður nefndar óháðra sérfræðinga ráðherranefndinni, ráðgjafarþinginu og samtökunum sem um getur í 1. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 27. gr."

3. gr.
25. gr. sáttmálans hljóði svo:
"25. gr. – Nefnd óháðra sérfræðinga.
1. Nefnd óháðra sérfræðinga skal skipuð eigi færri en níu mönnum, sem þingið kýs með meirihluta atkvæða úr hópi algerlega vammlausra og viðurkenndra sérfræðinga á sviði félagsmála innanlands og á alþjóðavettvangi og tilnefndir eru af samningsaðilum. Ráðherranefndin ákveður hve margir skuli eiga sæti í nefndinni.
2. Nefndarmenn skulu kjörnir til sex ára í senn. Þeir eru kjörgengir til endurkjörs einu sinni.
3. Ef nefndarmaður er kjörinn í nefnd óháðra sérfræðinga í stað nefndarmanns, sem hefur ekki lokið starfstíma sínum, skal hann gegna störfum það sem eftir er af starfstíma fyrirrennarans.
4. Nefndarmenn skulu sitja í nefnd óháðra sérfræðinga sem einstaklingar. Á starfstíma sínum skulu þeir ekki gegna neinum þeim störfum sem eru ósamrýmanleg þeirri kröfu sem embætti þeirra fylgir, að þeir séu óháðir, hlutlausir og til taks."

4. gr.
27. gr. sáttmálans hljóði svo:
"27. gr. – Stjórnarnefnd
1. Skýrslur samningsaðila, athugasemdir og upplýsingar sem komið er á framfæri í samræmi við 1. mgr. 23. gr. og 3. mgr. 24. gr., og skýrslur nefndar óháðra sérfræðinga, skulu lagðar fyrir stjórnarnefnd.
2. Stjórnarnefndin skal vera skipuð einum fulltrúa frá hverjum samningsaðila. Hún skal bjóða eigi fleiri en tvennum alþjóðlegum vinnuveitendasamtökum og eigi fleiri en tvennum alþjóðlegum stéttarfélagasamtökum að senda áheyrnarfulltrúa til ráðgjafar á fundi nefndarinnar. Enn fremur getur hún ráðfært sig við fulltrúa frjálsra alþjóðlegra samtaka, sem eru Evrópuráðinu til ráðgjafar og sérstaklega til þess bær að fjalla um þau málefni sem þessi sáttmáli tekur til.
3. Stjórnarnefndin undirbýr ákvarðanir ráðherranefndarinnar. Nánar tiltekið skal hún annast, í ljósi skýrslna nefndar óháðra sérfræðinga og samningsaðila og með félagsleg, efnahagsleg og önnur stefnumótandi sjónarmið að leiðarljósi, rökstutt val á þeim aðstæðum sem að mati hennar gefa tilefni til þess að tilmælum sé beint til hvers hlutaðeigandi samningsaðila í samræmi við 28. gr. sáttmálans. Hún skal leggja fyrir ráðherranefndina skýrslu sem skylt er að birta.
4. Á grundvelli þess sem stjórnarnefndin verður vísari um framkvæmd félagsmálasáttmálans almennt getur hún lagt fyrir ráðherranefndina tillögur sem miða að því að gerðar verði rannsóknir á félagslegum málefnum og þeim greinum sáttmálans sem hugsanlega mætti uppfæra."

5. gr.
28. gr. sáttmálans hljóði svo:
"28. gr. – Ráðherranefndin
1. Á grundvelli skýrslu stjórnarnefndarinnar skal ráðherranefndin samþykkja, með tveimur þriðju greiddra atkvæða og er þá atkvæðisréttur takmarkaður við samningsaðila, ályktun um allan eftirlitsferilinn er hefur að geyma sérstök tilmæli til hvers hlutaðeigandi samningsaðila.
2. Hvað varðar tillögur stjórnarnefndarinnar í samræmi við 4. mgr. 27. gr. skal ráðherranefndin taka þær ákvarðanir sem henni þykir hæfa."

6. gr.
29. gr. sáttmálans hljóði svo :
"29. gr. – Þingið
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal koma á framfæri við þingið, með hliðsjón af reglubundnum allsherjarumræðum, skýrslum nefndar óháðra sérfræðinga og stjórnarnefndarinnar, svo og ályktunum ráðherranefndarinnar."

7. gr.
1. Bókun þessi skal lögð fram til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins sem hafa undirritað sáttmála þennan og geta þau lýst sig samþykk því að vera bundin af henni með:
a - undirritun án fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki, eða
b - undirritun með fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki og síðari fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki.
2. Skjöl til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis skulu afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

8. gr.
Bókun þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að allir samningsaðilar sáttmálans hafa lýst sig samþykka því að vera bundnir af henni í samræmi við ákvæði 7. gr.

9. gr.
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins um:
a - hverja undirritun,
b - afhendingu hvers skjals til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis,
c - gildistökudag bókunar þessarar í samræmi við 8. gr.,
d - hverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu varðandi bókun þessa.


Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa.

Gjört í Tórínó 21. október 1991 í einu eintaki á ensku og frönsku sem verður afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textarnir jafngildir. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal láta hverju aðildarríki Evrópuráðsins í té staðfest endurrit.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16