Stofnanir Evrópuráðsins

Mannréttindadómstóll Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu starfar á grundvelli Mannréttindasáttmálans. Er dómstóllinn staðsettur í Strassborg í Frakklandi og þangað geta borgarar í aðildarríkjum Evrópuráðsins leitað, ef þeir telja að stjórnvöld hafi beitt þá órétti.

Hvert aðildarríkja Evrópuráðsins útnefnir einn dómara. Í nóvember árið 1998 tók til starfa „nýr” Mannréttindadómstóll Evrópu, en með viðauka nr. 11 við Mannréttindasáttmála Evrópu var Mannréttindanefnd Evrópu og Mannréttindadómstóllinn sameinuð í eina stofnun. Tilgangur sameiningarinnar var að málsmeðferðin yrði hraðari og skilvirkari.

Er það í höndum Ráðherranefndar Evrópuráðsins að fylgjast með að dómum dómstólsins sé framfylgt. Ráðherranefndin getur þó ekki beitt þvingunarúrræðum gagnvart þeim aðildarríkjum sem ekki fara eftir úrskurði dómstólsins.

Hlutverk dómstólsins er að tryggja að aðildarríki virði þau réttindi sem kveðið er á um í Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn framkvæmir þetta hlutverk sitt með því að rannsaka kvartanir sem honum hafa borist frá einstaklingum eða ríkjum. Ef dómstóllinn telur að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum sáttmálans þá dæmir hann í málinu. Dómurinn er bindandi fyrir það ríki sem á í hlut og er því skylt að fara eftir dómnum.

Evrópuráðsþingið

Evrópuráðsþingið er þingræðislegur vettvangur 45 aðildarríkja Evrópuráðsins. Oft er talað um Evrópuráðsþingið sem hugmyndabanka Evrópuráðsins og gegnir þingið mikilvægu hlutverki í starfsemi stofnunarinnar. Á þinginu sitja 626 fulltrúar og skiptast þeir til helminga í aðalmenn og varamenn. Ólíkt því sem tíðkast í ráðherranefndinni, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðarinnar. Tíu málefnanefndir eru starfræktar í þinginu. Formenn landsdeilda sitja í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni. Að auki sitja 20 þingmenn í forsætisnefnd þingsins. Á þinginu starfa einnig fimm flokkahópar.

Þingið kemur saman fjórum sinnum á ári og felst mikilvægi þingsins helst í því að;

  • eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
  • hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir,
  • vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.

Hér ber að minnast á að þing Evrópuráðsins er ekki það sama og Evrópuþingið.

Ráðherranefnd Evrópuráðsins

Í ráðherranefnd Evrópuráðsins sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna og fastafulltrúar þeirra. Ráðherranefndin fer með ákvörðunarvald Evrópuráðsins.

Hlutverk ráðherranefndarinnar er þríþætt;

  • að koma á framfæri afstöðu þess ríkis sem ráðherrarnir eru talsmenn fyrir gagnvart þeim vandamálum sem steðja að Evrópu,
  • að komast að samkomulagi um viðbrögð við vandamálum,
  • að vernda og viðhalda þeim gildum sem Evrópuráðið byggir á ásamt Evrópuráðsþinginu.

Ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur einnig eftirlit með því að dómum Evrópudómstólsins sé framfylgt. Til þess að sinna þessu hlutverki eru haldnir sex sérstakir fundir á ári hverju. Fundargerðir eru síðan gerðar opinberar.

Eftirlitshlutverk ráðherranefndarinnar er mikilvægasta verkefni hennar.

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins (Commissioner for human rights).

Embætti mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins var stofnsett þann 7. maí árið 1999 út frá ályktun ráðherranefndarinnar.

Fer kosning mannréttindafulltrúans fram á þann hátt, að ráðherranefndin velur þrjá frambjóðendur. Evrópuráðsþingið kýs síðan einn úr hópi þessara þriggja. Kjörtímabil mannréttindafulltrúans eru sex ár. Ekki er gefinn kostur á endurkjöri.

Frambjóðendur verða að vera frá ríki sem hefur aðild að Evrópuráðinu ásamt því að hafa mikla, viðurkennda þekkingu á sviði mannréttinda.

Hlutverk mannréttindafulltrúans er eftirfarandi;

  • að hlúa að virðingu og virkni mannréttinda,
  • að gefa álit sitt á mögulegum annmörkum í lögum sem gætu haft slæmar afleiðingar á mannréttindi,
  • að veita aðildarríkjum aðstoð við að koma gildum og stöðlum Evrópuráðsins á sviði mannréttinda í framkvæmd,
  • að láta í té ráðleggingar um verndun mannréttinda,
  • að efla menntun á sviði mannréttinda og auka skilning og meðvitund á mikilvægi þeirra,
  • að kynna mannréttindakerfi ríkja.

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins hefur ekki ákvörðunar- eða dómsvald og honum er ekki heimilt að taka að sér einstaklingsbundin mál.

Á vefsíðu Evrópuráðsins er hægt að finna frekari upplýsingar um stofnanir og starfsemi ráðsins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16