Samningur um réttarstöðu flóttamanna

Genf, 28. júlí 1951.

Formáli.

Aðildarríkin,
álíta að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Almenna mannréttindayfirlýsingin, sem samþykkt var af Allsherjarþinginu 10. desember 1948, hafi staðfest þá meginreglu, að allir menn skuli njóta mannréttinda og mannfrelsis án manngreinarálits,
álíta að Sameinuðu þjóðirnar hafi við ýmis tækifæri sýnt mikla umhyggju fyrir flóttamönnum og leitazt við að tryggja þeim sem besta möguleika til þess að njóta mannréttinda og mannfrelsis,
álíta að æskilegt sé að endurskoða og sameina fyrri samninga þjóða í milli um stöðu flóttamanna, svo og með nýjum samningi að auka svið þessara samninga og vernd þá, sem þeir veita,
álíta að það geti lagt óhæfilega þungar byrðar á einstök lönd að veita mönnum griðland, og að viðunandi lausn vandamáls, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa viðurkennt að sé alþjóðlegt að eðli og umfangi, fáist því ekki án samvinnu þjóða milli,
láta í ljós þá ósk, að öll ríki, sem viðurkenna hið félagslega og mannúðlega eðli flóttamannavandamálsins, geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir að vandamál þetta verði ágreiningsefni milli ríkja,
taka það fram, að erindreki Sameinuðu þjóðanna í málum flóttamanna hefur það hlutverk, að hafa umsjón með alþjóðasamningum, sem veita flóttamönnum vernd og viðurkenna að raunveruleg samræming þeirra ráðstafana, sem gerðar eru til úrlausnar þessu vandamáli, byggist á samvinnu ríkjanna við erindrekann, og
hafa þau því orðið ásátt um eftirfarandi:

I. KAFLI
Almenn ákvæði.


1. gr.
Skýring orðsins ,,flóttamaður”.
A. Að því er tekið til þessa samnings, skal orðið ,,flóttamaður” eiga við hvern þann mann, sem:
1. hefur verið talinn flóttamaður samkvæmt samkomulagi frá 12. maí 1926 og 30. júní 1928, eða samkvæmt samningum frá 28. október 1933 og 10. febrúar 1938, viðbótarsamningi frá 14. september 1939 eða stofnskrá Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar.
Ákvarðanir, sem Alþjóðaflóttamannastofnunin, hefur tekið meðan hún starfaði, um það, að maður skuli ekki talinn flóttamaður, skulu ekki koma í veg fyrir það, að hann njóti réttar sem flóttamaður, ef hann fullnægir skilyrðum annars töluliðs þessa stafliðs.
2. er utan heimalands síns vegna atburða, sem gerðust fyrir 1. janúar 1951, og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegns slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann, sem er ríkisfangalaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.
Þegar um er að ræða mann, sem hefur fleiri en eitt ríkisfang, skulu orðin ,,heimaland hans” taka til sérhvers þess lands, sem hann á ríkisfang í, og mann skal ekki talið skorta vernd heimalands síns, ef hann hefur ekki fært sér í nyt vernd einhvers þeirra ríkja, sem hann á ríkisfang í, án þess að til þess liggi gildar ástæður, byggðar á ástæðuríkum ótta.
B. 1. Að því er tekur til þessa samnings skulu orðin ,,atburðir, sem gerðust fyrir 1. janúar 1951” í A-lið 1. gr. skilin á þann veg, að þau tákni annaðhvort
a) ,,atburði, sem gerðust í Evrópu fyrir 1. janúar 1951”, eða
b) ,,atburði, er gerðust í Evrópu eða annars staðar fyrir 1. janúar 1951”
og sérhvert aðildarriki skal, um leið og það undirritar, fullgildir eða gerist aðili, tiltaka hvorum skilningum það beitir með tilliti til skuldbindinga þess samkvæmt samningi þessum.
2. Sérhvert aðildarríki, sem hefur tekið kost þann, er í a-lið greinir, getur hvenær sem er aukið skuldbindingar sínar með því að samþykkja þann kost, sem greinir í b-lið, skal það gert með tilkynningu stílaðri til framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
C. Samningur þessi skal hætta að gilda um hvern þann mann, sem heimfæra má undir skilgreiningu stafliðs A, ef:
1. hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns; eða
2. hann hefur sjálfviljugur endurheimt ríkisfang sitt, sem hann hafði glatað; eða
3. hann hefur öðlazt nýtt ríkisfang og nýtur verndar hins nýja heimalands síns; eða
4. hann hefur sjálfviljugur setzt að á ný í landi því, sem hann yfirgaf, eða dvaldi ekki í, vegna ótta við ofsóknir; eða
5. hann getur ekki lengur neitað að hagnýta sér vernd heimalands síns, vegna þess að aðstæður þær, sem höfðu það í för með sér, að hann var viðurkenndur flóttamaður, eru ekki lengur fyrir hendi;
Þó skal þessi töluliður ekki taka til flóttamanns, sem fellur undir A-lið 1 í þessari grein, ef hann getur ekki borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hagnýta sér vernd heimalands síns vegna fyrri ofsókna;
6. hann getur horfið aftur til landsins, sem hann áður hafði reglulegt aðsetur í, vegna þess að aðstæður þær, sem leiddu til þess að hann var viðurkenndur flóttamaður, eru ekki lengur fyrir hendi, ef um ríkisfangslausan mann er að ræða;
Þó skal þessi töluliður ekki taka til flóttamanns, sem fellur undir A-lið 1 í þessari grein, ef hann getur borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur til landsins, sem hann áður hafði fast aðsetur í, vegna fyrri ofsókna.
D. Samningur þessi skal ekki taka til manna, sem nú njóta verndar eða aðstoðar hjá stofnunum eða deildum Sameinuðu þjóðanna öðrum en erindreka Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna.
Þegar slík vernd eða aðstoð hefur fallið niður af einhverri ástæðu, án þess að högum slíks manns hafi verið endanlega ráðið í samræmi við viðeigandi ályktanir gerðar af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, skulu þessir menn ipso facto eiga rétt á að njóta góðs af samningi þessum.
E. Samingur þessi tekur ekki til manns, sem þar til fær stjórnvöld þess lands, sem hann hefur setzt að í , hafa viðurkennt að njóti þeirra réttinda og beri þær skyldur, sem fylgja ríkisfangi í því landi.
F. Ákvæði þessa samnings skulu ekki taka til neins manns, sem ríkar ástæður eru til að ætla að:
a) hafi framið glæp gegn friði, stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu, eins og þetta er skilgreint í alþjóðlegum samningum, sem gerðir eru til þess að setja ákvæði um slíka glæpi;
b) hafi framið alvarlegan ópólitískan glæp utan lands þess, sem hann nýtur hælis í, áður en honum er veitt viðtaka sem flóttamanni í því landi;
c) hafi orðið sekur um athafnir, sem brjóta í bág við tilgang og meginreglur Sameinuðu þjóðanna.

2. gr.
Almennar skuldbindingar.
Sérhver flóttamaður hefur skyldum að gegna gagnvart landi því, sem hann dvelur í, en þær eru fyrst og fremst fólgnar í því, að hann hagi sér samkvæmt lögum þess og reglugerðum, svo og þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að halda uppi allsherjar reglu.

3. gr.
Jafnrétti.
Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessa samnings um alla flóttamenn, án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands.

4. gr.
Trúarbrögð.
Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum, sem í löndum þeirra dvelja, að minnsta kosti eins góða aðstöðu og það veitur sínum eigin borgurum, að því er tekur til frjálsræðis til þess að iðka trú sína og til trúarlegrar uppfræðslu barna sinna.

5. gr.
Réttindi veitt utan þessa samnings.
Ekkert í samningi þessum skal talið skerða nokkur þau réttindi eða hagsbætur, sem samningsríki veitir flóttamönnum utan þessa samnings.

6. gr.
Orðin ,,við sömu aðstæður”
Að því er tekur til þessa samnings, þýða orðin ,,við sömu aðstæður” það, að flóttamaðurinn verður að uppfylla sérhverjar kröfur (þar með taldar kröfur um lengd og skilyrði dvalar eða aðseturs), sem umræddur einstaklingur yrði að uppfylla til þess að njóta réttinda þeirra, sem um er að ræða, ef hann væri ekki flóttamaður, að undanskildum þeim kröfum, sem flóttamanni er ómögulegt að uppfylla vegna eðlis þeirra.

7. gr.
Undanþága frá gagnkvæmni.
1. Aðildarríki skal veita flóttamönnum sömu aðbúð og það veitir útlendingum almennt, nema þegar samningur þessi hefur að geyma hagkvæmari ákvæði.
2. Að loknu þriggja ára aðsetri, skulu allir flóttamenn njóta undanþágu frá gagnkvæmi að lögum í löndum aðildarríkjanna.
3. Þar sem ekki er um gagnkvæmni að ræða, skal sérhvert aðildarríki halda áfram að veita flóttamönnum þau réttindi og hagsbætur, sem þeir áttu þegar rétt til er samningur þessi gekk í gildi fyrir það ríki.
4. Þar sem ekki er um gagnkvæmni að ræða, skulu aðildarríkin athuga með velvilja þann möguleika, að veita flóttamönnum réttindi og hagsbætur fram yfir það, sem þeir eiga rétt til samkvæmt 2. og 3. tölulið, og færa undanþáguna frá gagnkvæmi út þannig að hún taki til flóttamanna, sem ekki uppfylla kröfur þær, sem settar eru í 2. og 3. tölulið.
5. Ákvæði 2. og 3. töluliðs taka bæði til réttinda og hagsbóta, sem nefnd eru í 13., 18., 19., 21. og 22. gr. þessa samnings, svo og réttindi og hagsbóta, sem þessi samningur kveður ekki á um.

8. gr.
Undanþága frá sérstökum ráðstöfunum.
Að því er varðar sérstakar ráðstafanir, sem gerðar kunna að vera gagnvart persónu, eignum eða hagsmunum þegna annars ríkis, skulu aðildarríkin ekki beita slíkum ráðstöfunum við flóttamann, sem er formlega þegn þess ríkis, einungis vegna slíks þegnréttar hans. Þau aðildarríki, sem vegna löggjafar sinnar geta ekki beitt þeirri almennu reglu, sem sett er fram í þessari grein, skulu í þeim tilfellum, sem það á við, veita undanþágur vegna slíkra flóttamanna.

9. gr.
Bráðabirgðaráðstafanir.
Ekkert í þessum samningi skal vera því til fyrirstöðu, að aðildarríki geri, á ófriðartímum eða öðrum óvenjulegum alvarlegum tímum, bráðabirgðaráðstafanir, sem það telur nauðsynlegar vegna öryggis þjóðarinnar, varðandi sérstakan mann, þar til samningsríkið hefur tekið ákvörðun um það, hvort sá maður sé í raun og veru flóttamaður og að áframhald slíkra ráðstafana sé nauðsynlegt, að því er hann snertir, til verndar öryggi þjóðarinnar.

10. gr.
Samfellt aðsetur.
1. Þegar flóttamaður hefur, meðan á annarri heimsstyrjöldinni stóð, verið færður nauðugur úr heimkynnum sínum og fluttur til lands samningsríkis og hefur aðsetur þar, skal slík nauðungardvöl talin ólöglegt aðsetur í því landi.
2. Þegar flóttamaður hefur verið fluttur nauðugur frá landi aðilarríkis meðan á annarri heimstyrjöldinni stóð og hefur, fyrir gildistöku samnings þessa, horfið þangað aftur í þeim tilgangi að setjast þar að, skal litið á aðseturstímann fyrir og eftir slíkan nauðungarflutning sem eitt óslitið tímabil að því er tekur til hvers tilviks, þar sem samfellds aðsetus er krafizt.

11. gr.
Landflótta sjómenn.
Þegar um er að ræða flóttamenn, sem stunda að staðaldri sjómennsku á skipum, sem sigla undir fána aðildarríkis, skal það ríki taka til velviljaðrar athugunar að þeir setjist að í landi þess og að gefa út ferðaskírteini þeim til handa, eða leyfa þeim landvist um stundarsakir, einkum með tilliti til þess, að auðvelda þeim að setjast að í öðru landi.

II. KAFLI
Réttarstaða.


12. gr.
Persónulegur réttur.
1. Persónulegur réttur flóttamanns skal fara eftir lögum þess lands, sem hann á lögheimili í, en eigi hann hvergi lögheimili, þá skal réttur hans fara eftir lögum þess lands, sem hann hefur aðsetur í.
2. Aðildarríki skal virða réttindi þau, sem flóttamaður hefur áður áunnið sér og byggjast á persónulegum rétti, einkum og sér í lagi réttindi, sem tengd eru hjúskap, með því skilyrði, að ef nauðsyn krefur, sé fullnægt formsskilyrðum, sem lög þess ríkis krefjast, enda sé um þau réttindi að ræða, sem hefðu verið viðurkennd af því ríki, ef hann hefði ekki orðið flóttamaður.

13. gr.
Lausafé og fasteignir.
Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er, og að minnsta kosti ekki síðri en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er varðar öflun lausafjár og fasteigna og önnur réttindi í sambandi við það, svo og leigu að aðra samninga varðandi lausafé og fasteignir.

14. gr.
Réttur til hugverka og einkenna.
Að því er tekur til verndar réttar til hugverka og einkenna, svo sem uppfinninga, teikninga eða líkana, vörumerkja, vörunafna, svo og til ritverka, lista- og vísindaverka, skal veita flóttamanni, í landi þar sem hann hefur fast aðsetur, sömu vernd og veitt er borgurum þess lands. Í landi sérhvers annars aðildarríkis skal hann njóta sömu verndar og í því landi er veitt borgurum þess lands, sem hann hefur fast aðsetur í.

15. gr.
Réttur til aðildar í félögum.
Aðilarríki skal veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í landi þess, þá beztu aðstöðu, sem veitt er borgurum annars ríkis, við sömu aðstæður, að því er tekur til félaga, sem ekki starfa á stjórnmálalegum eða fjáröflunar grundvelli, og stéttarfélaga.

16. gr.
Réttur til að leita til dómstóla.
1. Flóttamanni skal frjálst að leita til dómstóla í löndum allra aðildarríkjanna.
2. Í aðildarríki, þar sem flóttamaður hefur fast aðsetur, skal hann njóta sömu aðstöðu og ríkisborgari í þeim efnum, er varða leitun til dómstóla, þar með talin lögfræðileg aðstoð og undanþága frá því að setja tryggingu fyrir væntanlegum málskostnaði (cautio judicatum solvi).
3. Í öðrum löndum en því, sem flóttamaður hefur fast aðsetur í, skal honum veitt sama aðstaða og ríkisborgurum þess lands, sem hann hefur fast aðsetur í, að því er tekur til þeirra atriða, sem um getur í 2. tölulið.


III. KAFLI
Arðbær atvinna.


17. gr.
Launuð atvinna.
1. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, beztu aðstöðu sem þau veita þegnum annars ríkis við sömu aðstæður, að því er varðar réttinn til að stunda launaða atvinnu.
2. Hvað sem öðru líður, skal takmörkunum, sem beint er gegn útlendingum eða atvinnu útlendinga til verndar vinnumarkaði landsins, ekki beitt gegn flóttamanni, sem þegar var undanþeginn þeim er samningur þessi gekk í gildi fyrir hlutaðeigandi ríki, eða fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a) Að hann hafi haft aðsetur í landinu í þrjú ár;
b) Að maki hans eigi ríkisborgararrétt í aðseturslandinu. Flóttamaður getur ekki krafizt að njóta góðs af þessu ákvæði, ef hann hefur yfirgefið maka sinn;
c) Að hann eigi eitt eða fleiri börn, sem eigi ríkisborgararétt í aðseturslandinu.
3. Aðildarríkin skulu taka til velviljaðrar athugunar að samræma réttindi allra flóttamanna, að því er snertir launaða atvinnu, þeim réttindum, sem ríkisborgararnir njóta, og sér í lagi réttindi þeirra flóttamanna, sem hafa komið til landa þeirra samkvæmt áætlunum um ráðningu vinnuafls eða reglum um innflutning fólks.

18. gr.
Sjálfstæð atvinna.
Aðildarríkin skulu veita flóttamanni, sem löglega dvelur í löndum þeirra, eins góða aðstöðu og mögulegt er og alls ekki lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er tekur til réttarins til þess að vinna fyrir eigin reikning að landbúnaði, iðnaði, handiðn og verzlun, og að stofna félög um verzlun og iðnað.

19. gr.
Menntastéttir.
1. Sérhvert aðilarríki skal veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í landi þess, hafa prófskírteini viðurkennd af þar til bærum stjórnvöldum þess ríkis og vilja stunda störf, er menntun þarf til, eins góða aðstöðu og mögulegt er, og aldrei óhagstæðari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður.
2. Aðildarríkin skulu gera það sem í þeirra valdi stendur og samrýmist lögum þeirra og stjórnarskrám, til þess að tryggja það, að slíkir flóttamenn setjist að í löndum, sem þau fara með utanríkismál fyrir, öðrum en aðallandinu.


IV. KAFLI
Velferðarmál.


20. gr.
Skömmtun.
Þar sem skömmtunarkerfi er til almennrar dreifingar vara, sem skortur er á, og það nær til landsmanna yfirleitt, skulu flóttamenn njóta sama réttar og ríkisborgarar.

21. gr.
Húsnæðismál.
Að því er tekur til húsnæðis, skulu aðilarríkin, að svo miklu leyti sem því máli er skipað með lögum eða reglugerðum, eða er háð eftirliti opinberra stjórnvalda, veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, eins góða aðstöðu og mögulegt er, og aldrei lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður.

22. gr.
Almenn menntun.
1. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum sömu aðstöðu og veitt er ríkisborgurum, að því er tekur til barnafræðslu.
2. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er og aldrei lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er snertir menntun aðra en barnafræðslu, einkum að því er varðar aðgang að námi, viðurkenningu vottorða og prófskírteina frá erlendum skólum, eftirgjöf á skólagjöldum og kostnaði og veitingu námsstyrkja,

23. gr.
Opinber aðstoð.
Aðildarríki skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, sama rétt til opinberrar aðstoðar og hjálpar og veittur er ríkisborgurum þeirra.

24. gr.
Vinnulöggjöf og félagslegt öryggi.
1. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, sömu aðstöðu og ríkisborgurum er veitt, að þvi er tekur til eftirtalinna atriða:
a) Laun, þar með taldar fjölskyldubætur þar sem þær eru hluti af launum, vinnutími, eftirvinna, orlof með launum, takmarkanir á heimavinnu, lágmarksaldur við vinnu, iðnnám og þjálfun, vinna kvenna og unglinga, og neyzla hagsbóta af sameiginlegum samningagerðum, að svo miklu leyti sem þessum málum er ráðið með lögum eða reglugerðum eða eru háð eftirliti opinberra stjórnvalda.
b) Félagslegt öryggi (lagaákvæði, sem varða atvinnuslys, atvinnusjúkdóma, meðgöngu og barnsburð, sjúkdóma, örorku, elli, dauða, atvinnuleysi, fjölskylduframfæri og hver þau önnur tilfelli, sem félagslegar tryggingar taka til samkvæmt lögum eða reglugerðum) með eftirtöldum takmörkunum:
i) Það getur verið um að ræða viðeigandi ráðstafanir til viðhalds ráðstafanir til viðhalds áunnum réttindum og réttindum, sem verið er að ávinna.
ii) Lög og reglugerðir aðseturslandsins geta kveðið á um sérstakar ráðstafanir varðandi styrki eða hluta af styrkjum, sem greiða bera algerlega af almannafé, svo og varðandi greiðslur til manna, sem ekki uppfylla iðgjaldaskilyrði, sem sett eru fyrir veitingu venjulegs lífeyris.
2. Rétturinn til bóta fyrir dauða flóttamans, sem leiddi af atvinnuslysi eða atvinnusjúkdómi, skal ekki skertur vegna þess að bótaþeginn hefur aðsetur utan aðildarrikisins.
3. Aðildarríkin skulu láta flóttamenn njóta góðs af samningum, sem þau hafa gert með sér eða kunna síðar að gera með sér, varðandi viðhald áunninna réttinda og réttinda, sem verið er að ávinna, í sambandi við félagslegt öryggi, með þeim skilyrðum einum, sem gilda fyrir borgara þeirra ríkja, sem undirritað hafa samninga þá, sem um er að ræða.
4. Aðildarríkin munu taka til velviljaðrar athugunar, að láta flóttamenn, eftir því sem mögulegt er, njóta góðs af hliðstæðum samningum, sem á hverjum tíma kunna að vera í gildi milli slíkra aðildarríkja og ríkja, sem ekki eru aðilar að samningum.


V. KAFLI
Ráðstafanir framkvæmdavalds.


25. gr.
Aðstoð framkvæmdavalds.
1. Þegar þannig er ástatt, að flóttamaður þarfnast yfirleitt aðstoðar erlendra stjórnvalda, til neyzlu réttar síns, en nær ekki til þeirra, skulu aðildarríkin, sem hann hefur aðsetur í, sjá um að þeirra eigin stjórnvöld eða fjölþjóðleg stjórnvöld veiti honum slíka aðstoð.
2. Stjórnvald það eða stjórnvöld, sem um getur í 1. tölulið, skulu afhenda eða láta undir sínu eftirliti afhenda flóttamönnum þess konar skjöl eða skilríki, sem venjulega mundu látin útlendingum í té af stjórnvöldum heimaríkja þeirra, eða fyrir atbeina þeirra.
3. Skjöl og skilríki, sem þannig eru látin í té, skulu koma í stað opinberra skilríkja, sem látin eru útlendingum í té af stjórnvöldum heimaríkja þeirra, eða fyrir atbeina þeirra, og skulu þau talin gild þar til annað reynist sannara.
4. Með þeim undantekningum, sem gerðar kunna að vera um fátækt fólk, má krefjast gjalds fyrir þá þjónustu, sem hér um getur, en slíkum gjöldum skal í hóf stillt og þau skulu vera sambærileg við þau gjöld, sem krafizt er af ríkisborgurum fyrir sams konar þjónustu.
5. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki skerða ákvæði 27. og 28. greinar.

26. gr.
Ferðafrelsi.
Sérhvert aðildarríki skal veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í landi þess, rétt til að kjósa sér aðsetursstað og vera frjálsir ferða sinna um land þess, að teknu tilliti til hverra þeirra reglugerða, sem beita má um útlendinga almennt við sömu aðstæður.

27. gr.
Nafnskírteini.
Aðildarríkin skulu gefa út nafnskírteini til handa sérhverjum flóttamanni, sem dvelur í löndum þeirra og hefur ekki gilt ferðaskírteini.

28. gr.
Ferðaskírteini.
1. Aðildarríkin skulu láta flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, í té ferðaskírteini til ferða utan landa þeirra, nema ríkar ástæður vegna öryggis landsins eða allsherjar reglu sé því til fyrirstöðu, og skulu ákvæði fylgiskjals þessarar samþykktar gilda um slík skírteini. Aðildarríkin geta látið sérhverjum öðrum flóttamanni í landi sínu slík ferðaskírteini í té. Sérstaklega skulu þau taka til velviljaðrar athugunar að láta slík ferðaskírteini í té flóttamönnum, sem dvelja í löndum þeirra og geta ekki fengið ferðaskírteini frá landi því, sem þeir eiga löglegt aðsetur í.
2. Ferðaskírteini, sem látin hafa verið flóttamönnum í té samkvæmt fyrri fjölþjóðlegum samningum af aðilum slíks samnings, skulu aðildarríkin viðurkenna og með fara á sama hátt og væru þau gefin út eftir þessari grein.

29. gr.
Fjárhagslegar álögur.
1. Aðildarríkin skulu ekki leggja á flóttamenn skyldur, álögur eða skatta hverju nafni sem nefnast aðra eða hærri en lagt er á ríkisborgara þeirra við svipaðar aðstæður.
2. Ekkert í undanfarandi tölulið skal koma í veg fyrir það, að beitt sé gangvart flóttamönnum lögum og reglugerðum um gjöld fyrir útgáfu á opinberum skjölum, þar á meðal nafnskírteinum til handa útlendingum.

30. gr.
Flutningur eigna.
1. Aðildarríki skal í samræmi við lög sín og reglugerðir leyfa flóttamönnum að flytja eignir, sem þeir hafa komið með inn í land þess, til annars lands, þar sem þeim hefur verið veitt leyfi til að taka sér bólfestu að nýju.
2. Samningsríki skal taka til velviljaðrar athugunar umsóknir flóttamanna um leyfi til þess að flytja eignir, sem eru þeim nauðsynlegar, er þeir taka sér bólfestu í öðru ríki, sem hefur leyft þeim landvist, hvar sem þær eiginir kunna að vera.

31. gr.
Ólögleg landvist flóttamanna.
1. Aðildarríkin skulu ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað í merkingu 1. gr., og koma inn í lönd þeirra eða eru þar án heimildar, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöldin og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu sinni eða vist þar.
2. Aðildarríkin skulu ekki setja takmarkanir á ferðir slíkra flóttamanna fram yfir það sem nauðsyn krefur, og slíkum takmörkunum skal einungis beitt þar til staða þeirra í landinu er komin á fastan grundvöll, eða að þeim hefur verið veitt leyfi til þess að koma til annars lands. Samningsríkin skulu veita slíkum flóttamönnum hæfilegan frest og alla nauðsynlega fyrirgreiðslu til þess að afla sér heimildar til þess að koma til annars lands.

32. gr.
Brottvísun.
1. Aðildarríkin skulu ekki víkja úr landi flóttamanni, sem löglega dvelur í löndum þeirra, nema vegna öryggis landsins eða allsherjarreglu.
2. Brottvísun slíks flóttamanns skal einungis framkvæmd eftir úrskurði, sem kveðinn sé upp með lögákveðnum hætti. Þar sem knýjandi ástæður vegna öryggis landsins eru því ekki til fyrirstöðu, skal flóttamanninum leyft að leggja fram sannanir fyrir sakleysi sínu og áfrýja og láta mæta fyrir sig í því skyni fyrir lögbæru stjórnvaldi eða manni eða mönnum, sem sérstaklega eru tilnefndir af lögbæru stjórnvaldi.
3. Aðildarríkin skulu gefa slíkum flóttamanni hæfilegan frest til þess að leita löglegrar landvistar í öðru landi. Aðildarríkin áskilja sér rétt til þess að beita þeim ráðstöfunum innan lands, sem það telur nauðsynlegar, meðan þessi frestur er að líða.

33. gr.
Bann gegn brottvísun eða endursendingu.
1. Ekkert aðildarríki skal vísa flóttamanni brott eða endursenda hann á nokkurn hátt til landamæra ríkis, þar sem lífi hans eða frelsi mundi vera ógnað vegna kynþáttar hans, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana.
2. Þó getur flóttamaður samt sem áður ekki krafizt þess að njóta góðs af þessu ákvæði, ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi landsins, sem hann dvelur í, eða ef hann er talinn hættulegur þjóðfélaginu vegna þess að hann hefur með endanlegum dómi verið dæmdur sekur um mjög alvarlegan glæp.

34. gr.
Veiting ríkisborgararéttar.
Aðildarríkin skulu, eftir því sem mögulegt er, greiða fyrir því, að flóttamenn geti samanlagazt aðstæðum í landinu og öðlazt þar þegnrétt. Einkum skulu þau gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að flýta fyrir veitingu ríkisborgararéttar og lækka svo sem frekast er unnt öll gjöld og kostnað, sem henni eru samfara.


VI. KAFLI
Framkvæmda- og bráðabirgðaákvæði.


35. gr.
Samvinna stjórnvalda einstakra ríka við Sameinuðu þjóðirnar.
1. Samningsríkin skuldbinda sig til þess að hafa samvinnu við Skrifstofu erindreka Sameinuðu þjóðanna í flóttamannamálum, eða hverja þá aðra stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem koma kann í hennar stað, um framkvæmd ætlunarverka hennar og skulu þau sér í lagi auðvelda henni að fullnægja skyldu sinni til að hafa eftirlit með beitingu ákvæða þessa samnings.
2. Í því skyni að gera Skrifstofu erindrekans, eða hverri þeirri annarri stofnun Sameinuðu þjóðanna, er koma kann í hennar stað, mögulegt að gefa skýrslur til hlutaðeigandi aðila hjá Sameinuðu þjóðunum, skuldbinda aðildarríkin sig til þess að láta þeim í té viðeigandi formi upplýsingar og hagskýrslur, sem um er beðið og varða:
a) stöðu flóttamana
b) framkvæmd samnings þessa og
c) lög, reglugerðir og úrskurði, sem í gildi eru eða kunna síðar að ganga í gildi, varðandi flóttamenn.

36. gr.
Upplýsingar um landslög.
Aðildarríkin skulu senda framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna lög þau og reglugerðir, sem þau kunna að setja til þess að tryggja framkvæmd þessa samnings.

37. gr.
Afstaða til fyrri samninga.
Að teknu tilliti til 2. málsgreinar 28. greinar þessa samnings kemur hann, að því er snertir samband milli aðila að honum, í stað samkomulags frá 5. júlí 1922, 31 maí 1924, 12. maí 1926, 30. júní 1928 og 30. júlí 1935, samninganna frá 28. október 1933 og 10. febrúar 1938, viðbótarsamnings frá 14. september 1939 og samningsins frá 15. október 1946.


VII. KAFLI
Lokaákvæði.


38. gr.
Lausn deilumála.
Sérhverri deilu milli aðila þessa samnings varðandi skýringu eða framkvæmd hans, sem ekki er hægt að leysa á annan hátt, skal vísa til Alþjóðadómstólsins að beiðni hvors deiluaðila sem er.

39. gr.
Undirritun, fullgilding og upptaka aðildar.
1. Samningur þessi skal lagður, fram til undirritunar í Genf 28. júí 1951, og skal honum síðan komið til varðveizlu hjá framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann skal vera til undirritunar í Evrópuskrifstofu Sameinuðu þjóðanna frá 28. júlí til 31. ágúst 1951, og skal aftur vera til undirritunar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna frá 17. september 1951 til 31. desember 1952.
2. Samningur þessi skal vera til undirritunar fyrir öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, og einnig fyrir hvert það annað ríki, sem boðin var þátttaka í ráðstefnu sendiherra um stöðu flóttamanna og ríkisfangslausra, eða ríki, sem Allsherjarþingið hefur boðið að undirrita hann. Hann skal fullgiltur og fullgildingarskjölunum komið til varðveizlu hjá framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
3. Frá 28. júlí 1951 skal ríkjum þeim, sem átt er við í 2. tölulið þessarar greinar, heimilt að gerast aðilar að þessum samningi. Upptaka aðilar er framkvæmd þannig, að aðildarskjal er afhent framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.

40. gr.
Ákvæði um beitingu samningsins á sérstökum landsvæðum.
1. Sérhvert ríki getur, um leið og það undirritar, fullgildir eða gerist aðili, lýst yfir að þessi samningur skuli taka til allra eða einhverra landsvæða, sem það fer með umboð fyrir í samskiptum þjóða á milli. Slík yfirlýsing gengur í gildi samtímis gildistöku samningsins fyrir hlutaðeigandi ríki.
2. Hvenær sem er síðar, skal hver slík aukning gildissviðs gerð með tilkynningu gildissviðs gerð með tilkynningu stilaðri til framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna og gilda frá nítugasta degi eftir að framkvæmdarstjórinn tók við þessari tilkynningu, eða frá gildistökudegi samningsins fyrir hlutaðeigandi ríki, hvort þessa sem síðar ber að.
3. Að því er snertir þau landssvæði, sem samningur þessi er ekki látinn taka til við undirskrift, fullgildingu eða upptöku aðilar, skal sérhvert hlutaðeigandi ríki athuga möguleikana á því, að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að láta samning þennan taka til slíkra landsvæða, enda komi samþykki ríkisstjórna slíkra landsvæða til, þar sem það er nauðsynlegt af stjórnarfarslegum ástæðum.

41. gr.
Ákvæði um sambandsríki.
Þegar um sambandsríki er að ræða, skulu eftirfarandi ákvæði gilda:
a) Að því er tekur til þeirra greina samnings þessa, sem falla undir lögsögu löggjafarvalds sambandsríkisins, skulu skyldur ríkisstjórnar sambandsríkisins að þessu marki vera hinar sömu og þeirra aðildarríkja, sem ekki eru sambandsríki.
b) Að því er tekur til þeirra greina samnings þessa, sem falla undir lögsögu einstakra ríkja í sambandsríkinu, fylkja eða kantóna, sem samkvæmt stjórnarskipun sambandsríkisins geta ekki sett lög, skal sambandsríkistjórnin svo fljótt sem mögulegt er vekja athygli viðeigandi stjórnvalda ríkja, fylkja eða kantóna á síkum greinum og senda þeim meðmæli sín með þeim.
c) Sambandsríki, sem er aðili að samningi þessum skal, eftir beiðni einhvers annars aðildarríkis, sem borin er fram fyrir milligöngu framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna, láta í té skýrslu um lög og venjur sambandsríkisins og hinna einstöku hluta þess, varðandi hvert einstakt ákvæði samningsins, þar sem sýnt sé í hve ríkum mæli því ákvæði sé veitt gildi með löggjöf eða öðrum hætti.

42. gr.
Fyrirvarar.
1. Sérhvert ríki getur, um leið og það undirrítar, fullgildir eða gerist aðili, gert fyrirvara um greinar samningsins að undanteknum 1., 3., 4., 16. (1), 33. og 36.-46. gr., að báðum meðtöldum.
2. Sérhvert ríki, sem gert hefur fyrirvara í samræmi við ákvæði 1. töluliðs þessarar greinar, getur hvenær sem er tekið slíkan fyrirvara aftur með tilkynningu þar um, stílaðri til framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.

43. gr.
Gildistaka.
1. Samningur þessi gengur í gildi á nítugasta degi, talið frá þeim degi, er sjötta fullgildingar, eða aðildarskjalið er afhent.
2. Að því er tekur til sérhvers ríkis, sem fullgildir samninginn eða gerist aðili að honum eftir að sjötta fullgildingar- eða aðildarskjalið var afhent, skal samningurinn ganga í gildi á nítugasta degi frá þeim degi að telja, er slíkt ríki afhenti fullgildingar- eða aðildarskjal sitt.

44. gr.
Uppsögn.
1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt samningi þessum upp með tilkynningu stílaðri til framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
2. Slík uppsög skal taka gildi, að því er snertir hlutaðeigandi aðilidarríki, einu ári eftir að framkvæmdarstjóri Sameinuð þjóðanna tók við henni.
3. Hvert það ríki, sem gefið hefur yfirlýsingu eða tilkynningu samkvæmt 40.gr., getur hvenær sem er síðar, með tilkynningu til framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna, lýst því yfir, að samningurinn skuli hætta að taka til slíks landsvæðis þegar eitt ár er liðið frá því að framkvæmdarstjórinn tók við slíkri tilkynningu.

45. gr.
Endurskoðun.
1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er með tilkynningu, stílaðri til framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna, krafizt endurskoðunar á samningi þessum.
2. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna skal mæla með þeim ráðstöfunum, ef nokkrar eru, sem gera ber eftir slíkri beiðni.

46. gr.
Tilkynningar framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
Framkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og þeim ríkjum öðrum, sem nefnd eru í 39. gr.:
a) yfirlýsingar og tilkynningar í samræmi við B-lið 1. greinar;
b) undirskriftir, fullgildingar og upptöku aðildar í samræmi við 39. gr.;
c) yfirlýsingar og tilkynningar í samræmi við 40. gr.;
d) fyrirvara og afturkallanir í samræmi við 42. gr.;
e) gildistökudag samnings þessa í í samræmi við 43. gr.;
f) uppsagnir og tilkynningar í samræmi við 44. gr.;
g) beiðnir um endurskoðun í samræmi við 45. gr.

Þessi til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þessa hafa fengið fullt umboð, undirritað þennan samning, hver fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar.

Gert í Genf í dag, tuttugasta og áttunda dag júlímánaðar, nítján hundruð fimmtíu og eitt, í einu eintaki, en hinn enski og franski texti þess skulu jafngildir, og skal það varðveitt í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og staðfest afrit þess skulu afhent öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og þeim ríkjum öðrum, sem nefnd eru í 39. gr.

Fylgiskjal.
1. gr.
1. Ferðaskírteini það, sem um ræðir í 28. gr. þessa samnings, skal vera áþekkt fyrirmynd þeirri sem fylgir hér með.
2. Skírteinið skal gefið út á að minnsta kosti tveim tungumálum og sé annað þeirra enska eða franska.

2. gr.
Að teknu tilliti til reglugerða útgáfulandsins, má telja börn í ferðaskírteini foreldris eða, í undantekningartilfellum, í ferðaskírteini annars fullorðins flóttamanns.

3. gr.
Gjald það, sem tekið er fyrir útgáfu skírteinis, skal ekki vera hærra en lægsta gjald fyrir vegabréf ríkisborgara landsins.

4. gr.
Þegar ekki er um sérstakar ástæður eða undantekningar-tilfelli að ræða, skal skírteinið látið gilda fyrir eins mörg lönd og mögulegt er.

5. gr.
Skírteinið skal gilda í annaðhvort eitt eða tvö ár, eftir vild þess stjórnvalds, sem gefur það út.

6. gr.
1. Endurnýjun eða framlenging á gildi skírteinis heyrir undir stjórnvaldið, sem gaf það út, á meðan eigandi þess hefur ekki tekið sér löglegt aðsetur í öðru landi og dvelur löglega í landi nefnds stjórnvalds. Útgáfa nýs skírteinis heyrir með sömu skilyrðum undir stjórnvaldið, sem gaf fyrra skírteinið út.
2. Sendiherrum og ræðismönnum, sem til þess hafa sérstaka heimild, skal gefið fullt umboð til þess að framlengja gildi ferðaskírteina, sem ríkisstjórnir þeirra hafa gefið út, þó ekki til lengri tíma en sex mánaða.
3. Aðildarríkin skulu taka til velviljaðra athugunar að endurnýja eða framlengja gildi ferðaskírteina eða að gefa út ný skírteini til handa flóttamönnum, sem ekki hafa lengur löglegt aðsetur í löndum þeirra og geta ekki fengið ferðaskírteini frá landi, þar sem þeir hafa löglegt aðsetur.

7. gr.
Aðildarríkin skulu viðurkenna gildi skírteina, sem gefin er út í samræmi við ákvæði 28. gr. þessa samnings.

8. gr.
Þar til bær stjórnvöld í landi því, sem flóttamaðurinn æskir að fara til, skulu árita skírteini hans, ef þau eru reiðubúin að taka við honum og vegabréfsáritun er nauðsynleg.

9. gr.
1. Aðildarríkin undirgangast að veita flóttamönnum vegabréfsáritun til ferðar yfir lönd þeirra, ef þeir hafa fengið vegabréfsáritun til ákvörðunarlandsins.
2. Synja má um slíkar vegabréfsáritanir af þeim ástæðum, sem myndu réttlæta synjun um vegabréfsáritun fyrir hvaða útlending sem væri.

10. gr.
Gjöld fyrir vegabréfsáritanir, er heimila för úr landi, komu til lands eða för yfir land, skulu eigi vera hærri en lægstu gjöld fyrir áritanir á erlend vegabréf.

11. gr.
Þegar flóttamaður hefur löglega tekið sér aðsetur í landi annars aðildarríkis, skal útgáfa nýs skírteinis samkvæmt skilmálum og skilyrðum 28. gr. hvíla á þar til bæru stjórnvaldi þess lands og er flóttamanni rétt að snúa sér til þess.

12. gr.
Stjórnvald, sem gefur út nýtt skírteini, skal taka aftur eldra skírteinið og endursenda það til útgáfulandsins, ef það er tekið fram í skírteininu að það skuli þannig endursent, ella skal það taka skírteinið og ógilda það.

13. gr.
1. Sérhvert aðildarríki undirgengst, að eigandi ferðaskírteinis, er það hefur gefið út í samræmi við 28. gr. þessa samnings, megi koma inn í land þess hvenær sem er meðan það er í gildi.
2. Að teknu tilliti til ákvæða undanfarandi töluliðs, getur aðildarríki krafizt þess að skírteinishafinn fullnægi þeim formsskilyrðum, sem tiltekin kunna að vera að því er snertir för úr landi þess eða endurkomu þangað. Í undartekningartilfellum eða þegar flóttamanni er leyfð dvöl í ákveðinn tíma þegar skírteinið er gefið út, áskilja samningsríkin sér rétt til þess að takmarka tímann, sem flóttamanninum er heimil endurkoma, við ákveðinn tíma, er eigi sé skemmri en þrír mánuðir.

14.gr.
Að teknu tilliti einungis til ákvæða 13. gr., skulu ákvæði þessa fylgiskjals á engan hátt hafa áhrif á lög og reglugerðir, er gilda um skilyrði fyrir komu til landa aðildarríkjanna, ferðum yfir þau, aðsetri og upptöku bólfestu í þeim, svo og fyrir brottför úr þeim.

15. gr.
Hvorki útgáfa skírteinisins né komur til landsins samkvæmt því ákveða eða hafa áhrif á stöðu eiganda þess, sér í lagi að því er varðar ríkisfang.

16. gr.
Útgáfa skírteinisins veitir eiganda þess á engan hátt vernd sendiherra eða ræðismanns landsins, sem gefur það út, og veitir ekki þessum aðilum rétt til að láta slík vernd í té.


Viðauki.
Fyrirmynd að ferðaskírteini.
Skírteinið skal vera í bæklings formi (nálægt 15 X 10 sentímetrar). Mælt er með því, að það sé þannig prentað, að auðvelt sé að greina útstrikanir og breytingar, sem gerðar eru efnafræðilega eða á annan hátt og að orðin ,, Samningur frá 28. júlí 1951” séu prentuð í samfelldri endurtekningu á sérhverri síðu á tungumáli útgáfulandsins.

(Kápa bæklingsins.)
FERÐASKÍRTEINI
(Samningur frá 28. júlí 1951.)

Nr. .........
(1)
FERÐASKÍRTEINI
(Samningur frá 28. júlí 1951.)
Skírteini þetta gengur úr gildi ...............
nema gildi þess sé framlengt eða endurnýjað.
Nafn..........
Skírnarnöfn............
Í fylgd með skírteinishafa er (u).........
Barn (börn).
1. Skírteini þetta er gefið út einungis með það fyrir augum að veita eiganda þess ferðaskírteini, sem komið geti í stað vegabréfs. Það skerðir ekki og hefur engin áhrif á ríkisborgararétt eiganda þess.
2. Eiganda er heimilt að koma aftur til .........(hér skal nefna land þess stjórnvalds, sem gefur skírteinið út) hinn ............... eða fyrr, nema seinni dagsetning sé tiltekin hér á eftir. (Tími sá, sem eiganda er leyfð endurkoma má ekki vera skemmri en þrír mánuðir.)
3. Ef eigandi sezt að í öðru landi en því sem gaf þetta skírteini út, verður hann, ef hann vill ferðast á ný, að sækja um nýtt skírteini til hlutaðeigandi stjórnvalda aðseturslands síns. (Stjórnvald það, sem gefur hið nýja skírteini út, skal taka aftur hið eldra ferðaskírteini og endursenda það stjórnvaldi því, sem gaf það út.) Ê)

(Skírteini þetta er .. síður utan kápu.)
(2)
Fæðingarstaður og fæðingardagur ....................................
(Ê) Setninguna í hornklofunum skulu ríkistjórnir, þær sem þess óska, færa inn.

Staða ......................
Núverandi aðsetursstaður ........................
*Meyjarnafn og skírnarnöfn eiginkonu ........................
*Nafn og skírnarnöfn eiginmanns ..........................

Lýsing.
Hæð ....................
Háralitur ....................
Augnlitur ....................
Nef .....................
Andlitsfall ....................
Litarháttur ......................
Sérkenni ....................

Börn í fylgd með skírteinishafa:
Nöfn Skírnarnöfn Fæðingarstaður Kyn
og fæðingardagur
............ ................ ........................... ..........
........... ................ ........................... ..........
........... ................ ........................ ..........

*Strikið út það, sem ekki á við.
(Skírteini þetta er . . síður fyrir utan kápu.)
(3)
Mynd skírteinishafa og stimpill stjórnvalds þess, er skírteinið gefur út.
Fingraför skírteinishafa (sér þeirra krafizt).
Undirskrift skírteinishafa ..............
................
(Skírteini þetta er . . fyrir utan kápu).
(4)
1.Skírteini þetta gildir fyrir eftirtalin lönd:
..............................................................
..............................................................
..............................................................
2.Skjal það eða skjöl, sem útgáfa þessa skírteinis byggist á:
.................................................
.................................................
.................................................

Útgefið í ..........................
Dagsetning ........................................................
Undirskrift og stimpill
stjórnvalds, sem gefur skírteinið út:

Gjald greitt:
(Skírteini þetta er . . fyrir utan kápu).
(5)
Framlenging eða endurnýjun.
Gjald greitt: Frá ..................
Til ....................
Gert í ......................... Dagsetning ..........
Undirskrift og stimpill
stjórnvalds, sem framlengir eða endurnýjar skírteinið:

Framlenging eða endurnýjun.
Gjald greitt: Frá .................
Til ...................
Gert í ......................... Dagsetning ..........
Undirskrift og stimpill
stjórnvalds, sem framlengir eða endurnýjar skírteinið:

(Skírteini þetta er . . fyrir utan kápu).
(6)
Framlenging eða endurnýjun.
Gjald greitt: Frá .................
Til ...................
Gert í ......................... Dagsetning ..........
Undirskrift og stimpill
stjórnvalds, sem framlengir eða endurnýjar skírteinið:

Framlenging eða endurnýjun.
Gjald greitt: Frá .................
Til ...................
Gert í ......................... Dagsetning ..........
Undirskrift og stimpill
stjórnvalds, sem framlengir eða endurnýjar skírteinið:

(Skírteini þetta er . . fyrir utan kápu).
(7-32)

Áritanir.
Nafn skírteinishafa verður að endurtaka í sérhverri áritun.
(Skírteini þetta er . . síður fyrir utan kápu.)

Alþingi veitti heimild til að staðfesta ofangreindan samning, með þingsályktun frá 9. febrúar 1955 og var aðalritara Sameinuðu þjóðanna afhent aðildarskrá Íslands hinn 30. nóvember 1955, og gekk samningurinn í gildi, að því er varðar Ísland 1. marz 1956.
Samningurinn ásamt fylgiskjali og viðauka, var birtur sem fylgiskjal við auglýsingu utanríkisráðsins nr. 74, dags. 9. desember 1955.

 

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16