Valfrjáls bókun við samninginn um réttindi fatlaðs fólks

Ríkin sem eiga aðild að bókun þessari hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

1. Aðildarríki að bókun þessari („aðildarríki“) viðurkennir vald nefndarinnar um réttindi fatlaðra („nefndarinnar“) til þess að taka við og fjalla um orðsendingar frá og fyrir hönd einstaklinga eða hópa einstaklinga sem falla undir lögsögu þess og telja sig þolendur brots þess á ákvæðum samningsins.

2. Nefndin skal ekki taka við orðsendingu sem varðar aðildarríki að samningnum sem ekki er aðili að bókun þessari.

 

2. gr.

Nefndin telur orðsendingu ótæka þegar:

a) orðsendingin er nafnlaus,

b) orðsendingin telst misnotkun á þeim rétti að senda slíkar orðsendingar eða fer í bága við ákvæði samningsins,

c) nefndin hefur þegar kannað sama mál eða það hefur verið eða er viðfangsefni annarrar alþjóðlegrar rannsóknar eða sáttagerðar,

d) öll úrræði, sem viðkomandi stendur til boða innanlands, hafa ekki verið reynd til hlítar. Þessi regla gildir ekki þegar beiting viðkomandi úrræða dregst ótilhlýðilega á langinn eða ólíklegt má telja að hún færi viðkomandi raunverulegar bætur,

e) hún er augljóslega illa grunduð eða ekki nægilega rökstudd eða þegar

f) þeir verknaðir sem eru efni orðsendingarinnar áttu sér stað áður en bókun þessi öðlaðist gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, nema fyrrnefndir verknaðir hafi endurtekið sig eftir þá gildistöku.

 

3. gr.

Nefndin skal, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. bókunar þessarar, vekja athygli hlutaðeigandi aðildarríkis í trúnaði á öllum orðsendingum sem henni berast. Viðtökuríkið skal senda nefndinni skriflegar

útskýringar eða yfirlýsingar innan sex mánaða þar sem málið er reifað og úrbætur kynntar, ef um þær er að ræða, sem hlutaðeigandi ríki kann að hafa gert.

 

4. gr.

1. Nefndin getur, hvenær sem er eftir að henni berst orðsending og áður en ákvörðun um inntak hennar hefur verið tekin, sent hlutaðeigandi aðildarríki beiðni til skjótrar umfjöllunar þess efnis að

aðildarríkið geri bráðabirgðaráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir hugsanlegt óbætanlegt tjón fyrir þolandann eða þolendur ætlaðs brots.

2. Þótt nefndin notfæri sér rétt sinn skv. 1. mgr. þessarar greinar jafngildir slíkt ekki ákvörðun um að orðsending sé tæk eða ákvörðun um inntak hennar.

 

5. gr.

Fundir nefndarinnar skulu vera lokaðir þegar hún fer yfir orðsendingar samkvæmt bókun þessari. Að yfirferð lokinni skal nefndin senda hlutaðeigandi aðildarríki og beiðanda tillögur sínar

og tilmæli, ef um þau er að ræða.

 

6. gr.

1. Berist nefndinni áreiðanlegar upplýsingar, sem gefa til kynna alvarleg og markviss brot aðildarríkis gegn réttindum sem sett eru fram í samningnum, skal hún bjóða aðildarríkinu að vinna með

henni að rannsókn upplýsinganna og senda í því skyni athugasemdir við þær.

2. Nefndin getur, að teknu tilliti til athugasemda sem hlutaðeigandi aðildarríki kann að hafa sent og annarra áreiðanlegra upplýsinga sem hún hefur aðgang að, tilnefnt einn nefndarmann eða fleiri til

þess að rannsaka málið og gefa nefndinni skýrslu hið fyrsta. Sé það réttlætanlegt og gefi aðildarríkið heimild til þess getur rannsóknin falist í heimsókn til yfirráðasvæðis þess.

3. Eftir að hafa yfirfarið niðurstöður fyrrnefndrar rannsóknar skal nefndin senda hlutaðeigandi aðildarríki þær, ásamt athugasemdum og tilmælum.

4. Hlutaðeigandi aðildarríki skal senda nefndinni athugasemdir sínar innan sex mánaða frá því að það móttekur niðurstöðurnar, athugasemdirnar og tilmælin sem nefndin hefur sent því.

5. Ríkja skal fullur trúnaður þegar fyrrnefnd rannsókn fer fram og leita ber samstarfs við aðildarríkið á öllum stigum meðferðar málsins.

 

7. gr.

1. Nefndin getur boðið hlutaðeigandi aðildarríki að fella inn í skýrslu sína skv. 35. gr. samningsins upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið í kjölfar rannsóknar sem er gerð skv. 6. gr. bókunar þessarar.

2. Nefndin getur, ef nauðsyn krefur og eftir að þeir sex mánuðir er um getur í 4. mgr. 6. gr. eru liðnir, boðið hlutaðeigandi aðildarríki að upplýsa hana um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið í kjölfar fyrrnefndrar rannsóknar.

 

8. gr.

Hvert aðildarríki getur, við undirritun bókunar þessarar eða þegar það gerist aðili að henni, lýst því yfir að það viðurkenni ekki valdsvið nefndarinnar sem kveðið er á um í 6. og 7. gr.

 

9. gr.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili bókunar þessarar.

 

10. gr.

Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu ríkja og svæðisstofnana um samvinnu, sem hafa undirritað samninginn, í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 30. mars 2007 að telja.

 

11. gr.

Bókun þessi er með fyrirvara um fullgildingu þeirra ríkja sem hafa undirritað hana og fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum. Bókun þessi er með fyrirvara um formlega staðfestingu þeirra svæðisstofnana um samvinnu sem hafa undirritað hana og staðfest samninginn formlega eða gerst aðilar að honum. Bókunin skal liggja frammi til aðildar af hálfu sérhvers ríkis eða svæðisstofnunar um samvinnu sem hefur fullgilt samninginn, staðfest hann formlega eða gerst aðili að honum og hefur ekki undirritað bókunina.

 

12. gr.

1. „Svæðisstofnun um samvinnu“ merkir stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði koma á fót og hefur vald, sem aðildarríki hennar fela henni, til þess að fara með málefni sem samningurinn og bókun þessi fjalla um. Svæðisstofnanir um samvinnu skulu greina, í skjölum sínum um formlega staðfestingu eða aðild, frá valdmörkum sínum með tilliti til mála sem samningurinn og þessi bókun fjalla um.

Þær skulu síðar meir tilkynna vörsluaðila um hverja þá breytingu sem verða kann á valdmörkum þeirra og skiptir máli.

2. Vísanir til „aðildarríkja“ í bókun þessari eiga við fyrrnefndar stofnanir eins langt og valdsvið þeirra nær.

3. Að því er varðar 1. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 15. gr. bókunar þessarar skal eigi telja með skjöl sem svæðisstofnun um samvinnu afhendir til vörslu.

4. Svæðisstofnanir um samvinnu geta, í málum sem eru á valdsviði þeirra, neytt atkvæðisréttar á fundi aðildarríkja með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að bókun þessari, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.

 

13. gr.

1. Bókun þessi öðlast gildi, með fyrirvara um gildistöku samningsins, á þrítugasta degi eftir að tíunda skjalið um fullgildingu eða aðild hefur verið afhent til vörslu.

2. Gagnvart sérhverju ríki eða svæðisstofnun um samvinnu, sem fullgildir bókun þessa, staðfestir hana formlega eða gerist aðili að henni eftir afhendingu tíunda skjalsins um slíka athöfn til vörslu, skal bókunin öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að hlutaðeigandi ríki eða slík stofnun hefur afhent viðkomandi skjal sitt til vörslu.

 

14. gr.

1. Óheimilt er að gera fyrirvara sem eru í ósamræmi við markmið og tilgang bókunar þessarar.

2. Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.

 

15. gr.

1. Sérhvert aðildarríki getur lagt fram breytingartillögu við bókun þessa og sent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda aðildarríkjunum allar breytingartillögur, ásamt beiðni um að sér verði tilkynnt hvort þau séu því meðmælt að haldinn verði fundur aðildarríkja í því skyni að fjalla um þær og afgreiða. Komi í ljós, innan fjögurra mánaða frá því að aðalframkvæmdastjórinn sendir fyrrnefndar tillögur, að minnst þriðjungur aðildarríkjanna sé meðmæltur því að fundur verði haldinn skal aðalframkvæmdastjórinn boða til fundarins á vegum Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal senda allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sérhverja breytingartillögu, sem er samþykkt með tveimur þriðju hluta atkvæða fulltrúa þeirra aðildarríkja sem eru viðstaddir og greiða atkvæði, til samþykktar og í framhaldi af því öllum aðildarríkjum til staðfestingar.

2. Breyting, sem er tekin upp og samþykkt í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fjöldi skjala um staðfestingu, sem hafa verið afhent til vörslu, jafngildir fjölda samningsríkja að tveimur þriðju þann dag þegar breytingin er samþykkt. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart hvaða aðildarríki sem er á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um staðfestingu til vörslu. Breyting er aðeins bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana.

 

16. gr.

Aðildarríki getur sagt sig frá bókun þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Úrsögnin tekur gildi einu ári eftir þann dag þegar aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.

 

17. gr.

Texti bókunar þessarar skal liggja frammi í aðgengilegu sniði.

 

18. gr.

Textar bókunar þessarar á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað bókun þessa.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16