Þróun alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar

Þróun mannréttindalöggjafarinnar sem slíkrar er gjarnan rakin til ensku frelsisskrárinnar frá 17. öld og frelsisyfirlýsinga byltinganna í Frakklandi og Bandaríkjunum undir lok 18. aldar, þar sem kveðið var á um grundvallarfrelsi og réttindi þegnanna. Á 19. öldinni var byrjað að gera fjölþjóðasamninga um afnám þrælaverslunar og þrælahalds og um aðhlynningu sjúkra og særðra hermanna, sem kom til með stofnun Rauða krossins árið 1863. Í kjölfarið fylgdu fleiri samningar í sambandi við hernað, sem varð sífellt mannskæðari og óhugnanlegri með æ öflugri vopnabúnaði.

Stofnun Þjóðabandalagsins með friðarsamningunum í Versölum 1919 var mikilvægur áfangi. Enda þótt þar væri ekki sérstaklega gert ráð fyrir almennri vernd mannréttinda voru gerðar mikilsverðar ráðstafanir í þá átt með uppsetningu nokkurra kerfa, ef svo má kalla, sem áttu að tryggja hag og réttindi tiltekinna þjóða og hópa manna.

Í fyrsta lagi voru gerðar ráðstafanir til verndar ýmsum minnihlutahópum í Evrópu. Kveðið var á um ýmis réttindi þeim til handa í einstökum friðarsamningum og ætlast til að Þjóðabandalagsráðið og Alþjóðadómstóllinn, sem stofnaður var með friðarsamningunum, fjölluðu um brot á þessum réttindum. Þetta kerfi reyndist ekki sem skyldi, en það var þó tilraun í rétta átt.

Þá var sett upp svokallað Verndar- eða Gæslukerfi – Mandate kerfið - fyrir fyrrverandi nýlendur Þjóðverja sem var skipt á milli sigurvegaranna sem verndarsvæðum. Í Stofnsamningi Þjóðabandalagsins var kveðið á um að íbúar þessara landasvæða skyldu njóta réttlátrar meðferðar, tryggja átti þeim trúfrelsi og búa þá undir aukna þátttöku í stjórnun eigin mála. Var sett upp sérstök nefnd til að fylgja þessu eftir og gert ráð fyrir að unnt væri að senda kvartanir til Þjóðabandalagsráðsins. Þetta kerfi dugði heldur ekki - ef ríki voru ákveðin í að hundsa það gerðu þau það (eins og Suður-Afríka í Namibíu, sem þá nefndist Suðvestur-Afríka). Tilraun var það samt.

Þriðja kerfið, sem sett var á laggirnar með Versalasamningunum, var Alþjóðavinnumálastofnunin (International Labour Organization) sem hafði það hlutverk að bæta aðstæður verkafólks og stuðla að frelsi til stofnunar verkalýðsfélaga. Sú stofnun hefur unnið mikið og merkilegt starf á sviði mannréttinda og er mjög öflug.

Skelfingar heimsstyrjaldarinnar síðari urðu svo til þess að við stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945 var ákveðið að þær skyldu láta mannréttindi duglega til sín taka.

Mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna er byggt á stofnsáttmála þeirra, sem hefst með þessum orðum:

Vér, hinar sameinuðu þjóðir, staðráðnar í
*að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið,
*að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem eru stórar eða smáar.


Markmið samtakanna eru rakin í 1. grein sáttmálans:

„að koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðavandamála, fjárhagslegs-, félagslegs-, menningarlegs- og mannúðarlegs eðlis, og að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallar frelsi allra án tillit til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða”.

Kveðið er á um, að Allsherjarþingið skyldi stuðla að framkvæmd mannréttinda og grundvallarfrelsis án tillits til kynþáttar, kyns, tungu og trúarbragða.

Þá segir í 55. gr. sáttmálans að í þeim tilgangi að skapa það jafnvægis- og velmegunarástand, sem væri skilyrði fyrir friðsamlegri og vinsamlegri sambúð þjóða í milli og sem grundvallaðist á virðingu fyrir hugsjónum jafnfréttis og sjálfsákvörðunarrétti þjóða – þá skyldu Sameinuðu þjóðirnar efla og halda í heiðri mannréttindi og grundvallarfrelsi allra án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða.

Aðildarríkin skyldu skuldbinda sig til þess, sameiginlega og hvert í sínu lagi, að starfa í samvinnu við stofnunina til að ná því marki.

Mannréttindamálin (62. gr.) voru sett undir starfsvið Efnahags- og Félagsmálaráðsins, ECOSOC (stendur fyrir the Economic and Social Council). Skyldi ráðið gera tillögur, sem miðuðu að því að efla og halda í heiðri virðingunni fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsishugsjón öllum til handa. Það gæti gert uppkast að samningum og skipað þær nefndir (68.gr) sem nauðsynlegar væru til eflingar mannréttinda.

Efnahags – og Félagsmálaráðið skipaði strax árið 1946 sérstaka mannréttindanefnd, sem kallast „The Human Rights Commission”. Á íslensku er hún oft kölluð Mannréttindaráðið til aðgreiningar frá Mannréttindanefndinni, „The Human Rights Committee” sem starfar á grundvelli alþjóðsamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þetta mannréttindaráð er skipað fulltrúum ríkisstjórna – upphaflega 18 en nú 53, til þriggja ára í senn.

Fyrsta verkefni þessa ráðs var að semja drög að sérstakri mannréttindayfirlýsingu sem síðan skyldi fylgt eftir með bindandi alþjóðasamningi um mannréttindi.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna byggðist síðan upp sterkt mannréttindakerfi nefnda, ráða, stofnana og alþjóðasamninga. En samhliða því urðu til svæðisbundin kerfi fyrst með yfirlýsingum, síðan bindandi samningum og stofnun eftirlitskerfa, mannréttindanefnda og dómstóla til þess að fylgjast með framkvæmd samninga. Slík svæðisbundin kerfi urðu fyrst til í Evrópu og Bandaríkjunum en Afríka hefur einnig eignast sitt kerfi þótt enn sé það harla veikt. Ekkert sameiginlegt kerfi er fyrir Asíu enn sem komið - en þar er nú víða öflugt mannréttindastarf og unnið að undirbúningi svæðisbundinna kerfa.

Flestir hér á landi þekkja best mannréttindakerfi Evrópuráðsins, Mannréttindasáttmála Evrópu, nefndina sem áður var og dómstólinn í Strasbourg. Á síðari árum hafa fleiri stofnanir tekið til við að sinna mannréttindamálum í vaxandi mæli svo sem Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem hafa meðal annars lagt miklu vinnu í að aðstoða ríkin í Austur-Evrópu við uppbyggingu lýðræðis, undirbúning kosninga og eftirlit með þeim.

Til þess að skilja þá þróun sem orðið hefur almennt í mannréttindamálum er hins vegar nauðsynlegt að þekkja til þeirra sjónarmiða sem uppi voru í árdaga uppbyggingar hinnar alþjóðlegu lagaverndar. 

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16