Samningsnefndir Sameinuðu þjóðanna - Treaty bodies

Hinir alþjóðlegu mannréttindasamningar gera flestir ráð fyrir sérstökum nefndum til þess að hafa eftirlit með því hvernig aðildarríkjunum gengur að gegna þeim skyldum, sem þau takast á hendur með aðild að þeim. Það eru 10 samningsnefndir starfandi sem hafa það markmið að hafa eftirlit með framfylgd viðkomandi samningi í aðildarríkjum hans. Þessar nefndir eru Mannréttindanefndin (CCPR - NBSR), nefnd um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (CESCR - NEFMR), nefnd um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD - NAK), nefnd um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW – SAMK), nefnd gegn pyntingum (CAT), undirnefnd um aðgerðir gegn pyntingum (SPT), nefnd um réttindi barnsins (CRC – NRB), nefnd um farandverkamenn (CMW – NFV), nefnd um réttindi fólks með fötlun (CRPD – NRFF) og að lokum nefnd um mannshvörf af mannavöldum (CED – NMM).

Samningarnir kveða yfirleitt svo á, að aðildarríkin skuli með vissu millibili skila inn skýrslum um ástandið hjá þeim í viðkomandi málaflokki. Eftir að hafa fengið skýrslurnar geta nefndirnar kallað fulltrúa ríkisstjórnanna til viðtals við sig til að skýra nánar frá ástandi mála. Efitr yfirferðina gefa nefndirnar umsagnir um skýrslur ríkjanna og setja fram tillögum um það sem þarf að bæta. Sumar nefndirnar geta tekið við kærum frá einstaklingum gegn ríkisstjórnum þeirra, eigi þær á annað borð aðild að samningunum og hafi gengist undir þá tilhögun.

Mannréttindanefndin, the Human Rights Committe, sem starfar á grundvelli alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hefur t.d. fjórþætt hlutverk.

Í fyrsta lagi kallar hún eftir skýrslum frá aðildarríkjum samningsins. Mikill misbrestur er á því að ríkisstjórnir sinni þessari skýrslugerð sem vera skyldi. Oft stafar það af því, að þær hafa einfaldlega ekki nægilega hæfan mannafla til þess. Þegar nefndin fer yfir skýrslur ríkjanna hefur hún jafnframt hliðsjón af skýrslum frá frjálsum félagasamtökum sem geta sent henni svonefndar „skuggaskýrslur”/ viðbótarskýrslur, eða athugasemdir um opinberu skýrslurnar.

Í öðru lagi getur nefndin fjallað um kærur ríkja á hendur öðrum ríkjum (41. gr. inter-state complaints) en þess eru fá dæmi ef nokkur að ríki kæri hvert annað fyrir nefndinni.

Í þriðja lagi fjallar nefndin um kærur einstaklinga á hendur eigin ríkjum (Protocol 1 - individual communications) – en þá hafa ríkin, eins og áður sagði, heimilað það sérstaklega. Í júlí 2004 höfðu 152 ríki staðfest samninginn sjálfan en aðeins 104 þeirra samþykkt kæruheimild einstaklinga. Samkvæmt ársskýrslu nefndarinnar fyrir tímabilið ágúst 2003 til júlí 2004 hafði nefndin móttekið 91 einstaklingskæru og eru nú fyirliggjandi 296 kærur, fleiri en nokkru sinni fyrr. Sérlegur ráðgjafi aðstoðar nefndina með því að vinsa úr þær kærur sem ekki teljast tækar en nefndin kemur einungis saman þrisvar sinnum á ári og hefur því ekki undan.

Fjórða verkefni nefndarinnar er að gefa út svokallaðar „almennar athugasemdir” eða General Comments, en þar er að finna túlkun nefndarinnar á einstökum ákvæðum samningsins.

Nefndirnar sem starfa á grundvelli samninganna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, bann við kynþáttamisrétti, bann við pyndingum, afnám mismununar gagnvart konum og Barnasáttmálanum geta einnig tekið við kærum frá einstaklingum.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16