Aðild einstaklinga að þjóðarrétti

Kerfi þjóðaréttarins byggist á því að ríkin sjálf, fullvalda ríki, setja þjóðaréttarlögin; þannig mynduðust þjóðaréttarvenjur og alþjóðasamningar eru gerðir ríkja í milli. Ríkin ákveða sjálf hvort þau hlíta þjóðaréttarreglum eða ekki. Því var það lengst af svo, að einungis sjálfstæð fullvalda ríki gátu átt í málarekstri á grundvelli alþjóðalaga, aðeins ríki voru viðurkenndir aðilar að þjóðarétti.

Þetta breyttist þegar Alþjóðadómstóllinn í Haag komst að þeirri niðurstöðu, í ráðgefandi áliti sínu árið 1949, að alþjóðastofnanir gætu átt slíka aðild, í því tilviki Sameinuðu þjóðirnar.

Eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar voru settir á fót sérstakir dómstólar til þess að fjalla um glæpi gegn friði, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Þessir dómstólar voru í Nürnberg og Tókýó. Staðfest var fyrir þessum dómstólum að undir vissum kringumstæðum gætu einstaklingar verið aðilar að þjóðarétti og því slegið föstu að þeir gætu ekki réttlætt gerðir sínar með því, að þeir hefðu einungis verið að hlýða fyrirskipunum yfirboðara sinna. Margir einstaklingar voru fundnir sekir um glæpi gegn mannkyninu og þeir dæmdir til fangelsisrefsingar og jafnvel til dauða.

Sakar- og refsiábyrgð einstaklinga hefur síðan verið áréttuð í hinum sérstöku dómstólum, sem settir hafa verið á laggirnar til þess að fjalla um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu og Rúanda og nú síðast með stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins.. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er staðsettur í Haag og starfar samkvæmt Rómarsamþykkt sem samþykkt var 17. júlí 1998..

Í kjölfar réttarhaldanna eftir seinni heimsstyrjöldina var refsiábyrgð einstaklinga lögleidd með aþjóðasamningi um þjóðarmorð – The Genocide Convention frá 1948 - en hann gerði ráð fyrir, að um slík mál væri fjallað annaðhvort fyrir dómstólum í heimalandi viðkomandi einstaklings eða af sérstökum alþjóðdómstóli.

En hvað þá með réttindi einstaklinga?
Lengi höfðu verið við lýði bæði venjureglur og milliríkjasamningar um meðferð þegna eins ríkis innan landamæra annarra ríkja. Væri brotið á þegni eða hópi þegna frá tilteknu ríki var það stjórn þess ríkis sem ákvað, hvort eitthvað skyldi við því gert. Ríkið var þá fyrst og fremst að leita réttar síns, brotið var talið gegn ríkinu en ekki einstaklingunum. Ef brotlega ríkið féllst á að greiða bætur fyrir brot sitt var ríkisstjórn þolendanna í sjálfvald sett, hvort þær kæmu þeim til góða að einhverju eða öllu leyti. Jafnframt taldi ríkisvaldið sér frjálst að fara með þegna sína eins og því sýndist. Þetta breyttist með tilkomu mannréttindasamninganna; með þeim var byrjað að gera ráðstafanir til þess að einstaklingar gætu leitað réttar síns gegn eigin ríkisvaldi, sem virti mannréttindi þeirra að vettugi.

Með tilkomu Mannréttindanefndar og -dómstóls Evrópu 1953 var brotið blað í þessum efnum. Einstaklingurinn gat, eftir að hafa reynt til þrautar í heimalandi sínu án árangurs, leitað réttar síns í Strassborg gagnvart eigin ríki væri það aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og hefði viðurkennt dómstólinn. Þess má þó geta, að nú er það skylda allra ríkjanna í Evrópuráðinu að gangast undir sáttmálann og viðurkenna dómstólinn. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var þetta einnig viðurkennt, þótt í veikari mynd væri, með því að setja upp nefnd á grundvelli alþjóðsamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem gat tekið við kærum frá einstaklingum. Varð einstaklingurinn sömuleiðis að hafa tæmt allar mögulegar leiðir heima fyrir og ríki þeirra urðu að eiga aðild að samningnum og hafa samþykkt kæruheimild einstaklinga. Mannréttindanefndin getur hinsvegar ekki kveðið upp dóma aðeins álit en þau álit hafa haft talsverð áhrif. Bætt hefur verið við kæruheimild einstaklinga við aðra samninga og nýrri samningar hafa einnig að geyma slíka heimild. Vert er að minnast á það að ríki hafa verið treg til að samþykkja þessar kæruheimildir einstaklinga m.a. Ísland..

Þá geta einstaklingar í aðildarríkjum Evrópusambandsins leitað réttar síns fyrir dómstóli þess, Evrópudómstólnum, með mál á þeim sviðum sem regluverk ESB nær yfir.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16