París, 20. III. 1952 - Safn Evrópusamninga/9
Fyrirsögnum greina bætt við og texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155) frá og með gildistöku hans 1. nóvember 1998.
Birtist í lögum nr. 25/1998
Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa bókun þessa, eru aðilar að Evrópuráðinu og hafa ákveðið að bindast samtökum um að fullnægja tilteknum réttindum og frelsi umfram það sem þegar er greint í I. kafla samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem gerður var í Róm hinn 4. nóvember 1950 (hér á eftir nefndur "samningurinn").
Hafa þær því komið sér saman um það, sem hér segir:
1. gr. – Friðhelgi eignarréttar
Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.
Eigi skulu þó ákvæði undanfarandi málsgreinar á nokkurn hátt rýra réttindi ríkis til þess að fullnægja þeim lögum sem það telur nauðsynleg til þess að geta haft hönd í bagga um notkun eigna í samræmi við hag almennings eða til þess að tryggja greiðslu skatta eða annarra opinberra gjalda eða viðurlaga.
2. gr. – Réttur til menntunar
Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.
3. gr. – Réttur til frjálsra kosninga
Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að halda frjálsar kosningar með hæfilegu millibili, og sé atkvæðagreiðsla leynileg og fari fram við aðstæður er tryggi það að í ljós komi álit almennings með frjálsum hætti í kjöri til löggjafarþings.
4. gr. – Svæðisbundið gildissvið
Texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).
Hver samningsaðili um sig má við undirskrift, við fullgildingu eða síðar afhenda aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs yfirlýsingu um, að hve miklu leyti hann ábyrgist að ákvæði samningsviðauka þessa nái til landsvæða þeirra sem hann gegnir fyrir á alþjóðavettvangi og upp eru talin í yfirlýsingunni.
Hver samningsaðili, sem afhent hefur yfirlýsingu samkvæmt undanfarandi málsgrein, getur hvenær sem er afhent aðra yfirlýsingu þar sem breytt er ákvæðum fyrri yfirlýsinga eða tilkynnt er að ákvæði samningsviðauka þessa gildi ekki um tiltekið landsvæði.
Yfirlýsingu, sem gefin er í samræmi við grein þessa, skal skoða svo sem hún sé gerð í samræmi við 1. mgr. 56. gr. samningsins.
5. gr. – Tengsl við samninginn
Samningsaðilum ber að líta á 1., 2., 3. og 4. gr. hér að ofan sem viðbótargreinar við samninginn, og skulu öll ákvæði hans gilda samkvæmt því.
6. gr. – Undirritun og fullgilding
Samningsviðauka þennan er öllum aðildarríkjum Evrópuráðs, sem undirritað hafa samninginn, heimilt að undirrita. Skal fullgilda hann jafnframt samningnum eða síðar. Gengur hann í gildi þegar tíu fullgildingarskjöl hafa verið afhent. Að því er snertir undirskriftir, er síðar verða fullgiltar, skal samningsviðaukinn ganga í gildi frá þeim degi, er fullgildingarskjalið er afhent.
Afhenda skal fullgildingarskjölin aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs, og skal hann tilkynna öllum aðildarríkjum nöfn þeirra, er fullgilt hafa.
Gjört í París hinn 20. mars 1952, á ensku og frönsku – jafngildir textar báðir – í einu eintaki er varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðs. Aðalframkvæmdastjóri skal senda staðfest endurrit hverju ríki sem undirritað hefur.