Umboðsmaður Alþingis

Umboðsmaður Alþingis er kosinn af Alþingi og hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga eins og nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Nokkuð er síðan tillögur komu fram á Alþingi um embætti umboðsmanns hér á landi. Árið 1963 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um skipan nefndar til að undirbúa löggjöf um það efni. Tillagan varð ekki útrædd og eins fór um tillögur sama efnis á næstu þingum.

Þann 19. maí 1972 var síðan samþykkt þingsályktunartillaga um undirbúning löggjafar um embætti umboðsmanns Alþingis. Frumvarp til laga um umboðsmann Alþingis var  flutt á þinginu 1973-1974. Frumvarpið varð ekki útrætt en var  endurflutt á þingunum 1985-1986 og 1986-1987. Á síðarnefndu þingi  1986-1987 var einnig flutt stjórnarfrumvarp um umboðsmann Alþingis, var það í grundvallaratriðum byggt á  fyrrgreindu frumvarpi. Fáeinar breytingar voru gerðar á  stjórnarfrumvarpinu í meðferð Alþingis. Frumvarpið var samþykkt  samhljóða á þinginu 1986-1987  og birt sem lög nr.  13/1987 um umboðsmann Alþingis, sem gengu í gildi 1. janúar 1988.

Þann 2. maí 1988 setti Alþingi reglur samkvæmt ofangreindum ákvæðum laga nr. 13/1987. Reglurnar geyma fyrst og  fremst ákvæði, er fela í sér nánari afmörkun á starfssviði  umboðsmanns, fyllri reglur um starfshætti hans og ítarlegri ákvæði  um málsmeðferð alla.

Alþingi kýs umboðsmann Alþingis  til fjögurra ára og hann skal uppfylla skilyrði laga til að gegna  embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður. Ef  umboðsmaður andast eða verður af öðrum ástæðum ófær um að gegna  starfi sínu skal Alþingi kjósa umboðsmann að nýju. Sama  hátt skal hafa á ef umboðsmaður fær að eigin ósk lausn frá  embætti sínu eða tveir þriðju hlutar þingmanna samþykkja að  víkja honum úr embætti. Við tímabundin forföll umboðsmanns setur  forseti Alþingis staðgengil til að gegna embættinu meðan á forföllum stendur.

Starfssvið

Lög nr. 85/1997 segja til um starfssvið umboðsmanns Alþingis og er sett sú meginregla að starfssvið hans taki til allrar opinberrar stjórnsýslu, hvort sem hún er hjá ríki eða sveitarfélögum.

Umboðsmaðurinn á að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal umboðsmaðurinn gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram samkvæmt lögum um stjórnsýsluhætti. Ásamt því að fjalla um ákvarðanir og úrlausnir stjórnvalda þá hefur hann einnig eftirlit með málsmeðferð þeirra og framkomu starfsmanna. Einnig mun ýmiss konar opinber þjónusta vera á starfssviði umboðsmanns. Starfssvið umboðsmannsins tekur einnig til stjórnsýslu þjóðkirkjunnar þrátt fyrir að í lögum sé tekið fram að ákvarðanir og athafnir kirkjunnar er snerta kenningar hennar og trúariðkun, falli utan starfsviðs umboðsmanns.

Starfsreglur umboðsmanns gera ráð fyrir því að hann fari með hlutverk sitt með þrenns konar hætti:

1.     Með athugun máls vegna kvörtunar frá þeim sem hlut eiga að máli,

2.     Umboðsmanni er einnig heimilt að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

3.     Hann getur einnig fjallað um það sem kallað er ,,meinbugir” á gildandi lögum, á almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða á starfsháttum í stjórnsýslu. Slík mál tekur umboðsmaðurinn einnig upp að eigin frumkvæði.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997 og 5. gr. starfsreglna umboðsmanns getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan ranglæti, af hálfu einhvers er hefur á hendi sér stjórnsýslu, kvartað til umboðsmanns. Af þeim málum sem umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um allt frá stofnun embættisins hefur mikill meirihluti þeirra verið byggður á málum einstaklinga.

Frekari upplýsingar um umboðsmann Alþingis er hægt að finna á heimasíðu embættisins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16