Skýrslugerð

Starfsemi skrifstofunnar hefur til þessa fyrst og fremst byggst á öflun og miðlun upplýsinga. Meðal fastra verkefna hennar er að vinna skýrslur um stöðu mannréttindi hér á landi fyrir eftirlitsstofnanir Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna. Þessar eftirlitsstofnanir starfa á grundvelli alþjóðlegra mannréttindasamninga og taka fyrir og fjalla um skýrslur aðildarríkja um efndir þeirra skyldna, sem þau hafa gengist undir með staðfestingu viðkomandi samninga - og framvindu mannréttinda á sviði þeirra hvers fyrir sig.

MRSÍ hefur unnið eða látið vinna svonefndar “skuggaskýrslur” um hinar opinberu skýrslur íslenskra stjórnvalda, en þær eru gagnrýnar athugasemdir við opinberu skýrslurnar. Eftirlitsstofnanirnar styðjast við skuggaskýrslur ásamt öðrum gögnum sem þeim berast þegar þær fara yfir framvindu mála í viðkomandi landi og gera þar um sínar athugasemdir.

Fulltrúar skrifstofunnar hafa nokkrum sinnum setið fundi eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna þegar skýrslur Íslands hafa verið teknar fyrir en þá eru einnig kallaðir til fulltrúar stjórnvalda sem gera grein fyrir opinberu skýrslunum og ástandi þeirra mála sem þar er getið um. 

Íslensk stjórnvöld hafa fengið hrós fyrir heiðarlegar skýrslur og góðar og heiðarlegar samræður við fyrirtöku eftirlitsstofnananna.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16