Samningsviðauki nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis

Strassborg, 22. XI. 1984 - Safn Evrópusamninga/117
Fyrirsögnum greina bætt við og texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155), frá og með gildistöku hans 1. nóvember 1998.
Birtist í lögum nr. 25/1998.




Aðildarríki Evrópuráðs, sem undirritað hafa samningsviðauka þennan, og ákveðið hafa að gera frekari ráðstafanir til að tryggja sameiginlega framkvæmd tiltekinna réttinda og frelsis með tilstuðlan samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem undirritaður var í Róm 4. nóvember 1950 (hér á eftir nefndur samningurinn),

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


1. gr. – Réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga
1. Útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skal ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun, sem tekin hefur verið í samræmi við lög, og skal honum heimilt:
a - að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni,
b - að fá mál sitt tekið upp að nýju, og
c - að fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða manni eða mönnum sem það stjórnvald tilnefnir.
2. Heimilt er að vísa útlendingi brott áður en hann hefur neytt réttinda sinna samkvæmt a-, b- og c-lið 1. tölul. þessarar greinar þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis.

2. gr. – Réttur til áfrýjunar sakamáls
1. Sérhver sá, sem dómstóll finnur sekan um afbrot, skal hafa rétt til að láta æðri dóm fjalla á ný um sakfellinguna eða refsinguna. Um beitingu þessa réttar skal gilda löggjöf, þar á meðal um tilefni þess að beita megi.
2. Réttur þessi getur verið háður undantekningum þegar um er að ræða minni háttar brot, eftir því sem fyrir er mælt í lögum, eða þegar fjallað var um mál viðkomandi manns á frumstigi af æðsta dómi, eða hann var sakfelldur eftir áfrýjun á sýknudómi.

3. gr. – Bætur fyrir ranga sakfellingu
Nú hefur maður verið fundinn sekur um afbrot í lokadómi en síðar verið sýknaður eða náðaður vegna þess að ný eða nýupplýst staðreynd sýnir ótvírætt að réttarspjöll hafa orðið og skal sá sem hefur þolað refsingu vegna slíkrar sakfellingar fá bætur samkvæmt lögum eða réttarvenjum viðkomandi ríkis, nema sannað sé að honum sjálfum var að öllu eða nokkru leyti um að kenna að hin óþekkta staðreynd var ekki látin upp í tíma.

4. gr. – Réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis
1. Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
2. Ákvæði undanfarandi töluliðar skulu ekki vera því til fyrirstöðu að málið sé endurupptekið í samræmi við lög og sakamálaréttarfar viðkomandi ríkis ef fyrir hendi eru nýjar eða nýupplýstar staðreyndir, eða ef megingalli hefur verið á fyrri málsmeðferð sem gæti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
3. Óheimilt er að víkja frá þessari grein með skírskotun til 15. gr. samningsins.

5. gr. – Jafnrétti hjóna
Hjón skulu njóta jafnréttis að því er varðar réttindi og skyldur að einkamálarétti sín í milli og í tengslum sínum við börn sín, við giftingu, í hjónabandi og ef til hjónaskilnaðar kemur. Þessi grein skal ekki vera því til fyrirstöðu að ríki geri ráðstafanir sem nauðsynlegar eru vegna hagsmuna barnanna.

6. gr. – Svæðisbundið gildissvið
1. Sérhverju ríki er heimilt við undirritun eða afhendingu fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjals að tilgreina það eða þau landsvæði sem samningsviðauki þessi skal ná til og taka fram að hve miklu leyti það ábyrgist að ákvæði hans gildi á slíku landsvæði eða landsvæðum.
2. Með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs getur sérhvert ríki hvenær sem er síðar látið samningsviðauka þennan ná til hvaða annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningsviðaukinn öðlast gildi gagnvart slíku landssvæði fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir mánuðir frá því að aðalframkvæmdastjóra berst slík yfirlýsing.
3. Sérhverja yfirlýsingu, sem gefin er samkvæmt undanfarandi tveimur töluliðum má afturkalla eða breyta fyrir hvert það landsvæði sem þar er tilgreint með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Afturköllunin eða breytingin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst slík tilkynning.
4. Yfirlýsing, sem gerð er samkvæmt þessari grein, skal talin gerð í samræmi við 1. tölul. 56. gr. samningsins.
Texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).
5. Heimilt er að skoða landsvæði sérhvers ríkis, sem þessi samningsviðauki tekur til samkvæmt fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki ríkisins, og hvert það landsvæði, sem þessi samningsviðauki tekur til samkvæmt yfirlýsingu ríkisins í samræmi við þessa grein, sem aðgreind landsvæði að því er varðar vísun til landsvæðis ríkis í 1. gr.
6. Hvert það sem gefið hefur yfirlýsingu í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar getur hvenær sem er síðar lýst því yfir vegna eins eða fleiri landsvæða þeirra, sem yfirlýsingin tekur til, að það fallist á að dómstóllinn sé bær um að taka við kærum frá einstaklingum, samtökum eða hópum einstaklinga skv. 34. gr. samningsins varðandi 1.-5. gr. þessa samningsviðauka.
Texta bætt við í samræmi við samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).

7. gr. – Tengsl við samninginn
Texta breytt í samræmi við samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).
Aðildarríkjanna í milli skulu ákvæði 1. til 6. gr. þessa samningsviðauka skoðuð sem viðbótargreinar við samninginn, og skulu öll ákvæði samningsins gilda í samræmi við það.

8. gr. – Undirritun og fullgilding
Samningsviðauki þessi skal liggja frammi til undirritunar aðildarríkjum Evrópuráðs sem undirritað hafa samninginn. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Aðildarríki Evrópuráðs getur ekki fullgilt, viðurkennt eða samþykkt þennan samningsviðauka nema það fullgildi samninginn jafnframt eða á undan. Fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs til vörslu.

9. gr. – Gildistaka
1. Samningsviðauki þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir mánuðir frá því að sjö aðildarríki Evrópuráðs hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af honum í samræmi við ákvæði 8. gr.
2. Gagnvart aðildarríki, sem síðar lýsir samþykki sínu við að vera bundið af samningsviðaukanum, skal hann öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir mánuðir frá afhendingu fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjalsins.

10. gr. – Framlagningar
Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðs skal tilkynna öllum aðildarríkjum Evrópuráðs um:
a - Sérhverja undirritun.
b - Afhendingu sérhvers fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjals.
c - Sérhvern gildistökudag samningsviðauka þessa samkvæmt 6. og 9. gr.
d - Sérhvern gerning, tilkynningu eða yfirlýsingu varðandi samningsviðauka þennan.


Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, ritað undir samningsviðauka þennan.

Gjört í Strassborg, 22. nóvember 1984, á ensku og frönsku – jafngildir textar báðir – í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðs. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðs skal senda staðfest endurrit til allra aðildarríkja Evrópuráðs.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16