Réttindi barna

Réttindi barna eru vernduð af víðtæku kerfi alþjóðlegra og svæðisbundinna mannréttinda-, mannúðar- og flóttamannalaga. Fjölmörg þessara laga eru bundin í alþjóðlegum samningum. Að auki hafa margs konar sértæk verkfæri verið útbúin til að veita þeim börnum vernd sem eru í sérstakri hættu á að verða fyrir mannréttindabrotum.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykktur árið 1989, er helsti samningurinn sem gerður hefur verið með barnavernd að markmiði. Jafnframt er hann sá fyrsti sinnar tegundar og markaði vatnaskil þar sem sértæk réttindi barna voru sett fram. Með sáttmálanum var nú litið á börn sem einstaklinga fremur en "eign" foreldra sinna.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er réttindum barna skipt niður í fjögur svið:

Réttur til lífs

Þetta ákvæði felur í sér réttindi barnsins til lífs og þá kröfu um að grundvallarþörfum þess sé mætt. Með því er átt við að barnið fái nóg að borða, eigi sér húsaskjól og hafi aðgang að læknisþjónustu.

Réttur til að þroskast og læra

Hér er átt við réttindi barna til þess að þroska þá hæfileika sem í þeim búa með aðgengi að menntun, möguleikanum á tómstundum og leik, aðgengi að upplýsingum, trúfrelsi og frelsi til sjálfstæðrar hugsunar.

Réttur til þátttöku

Ákvæðið felur í sér rétt barna og unglinga til að taka þátt í því samfélagi sem þau búa í. Þau skulu hafa rétt til að tjá skoðanir sínar, vera aðilar í félögum og hafa rétt til að hafa álit á þeim málefnum sem hafa bein áhrif á þeirra eigið líf.

Réttur til verndar

Hér er átt við réttindi barna sem eru nauðsynleg til að tryggja þeim vernd fyrir hvers konar ofbeldi, vanrækslu og misnotkun.

Sérstök málefni

Barnaþrælkun

Víðs vegar um heiminn má finna börn sem af menningarlegum, félagslegum eða efnahagslegum ástæðum þurfa að vinna. Hvort sú atvinna er skilgreind sem barnaþrælkun er háð mati á atvinnunni sjálfri, vinnuumhverfinu, hvort ávinningur af starfinu sé ótvíræður fyrir barnið og hvernig samskiptum er háttað við yfirmenn. Kyn er einnig mikilvægur þáttur þegar meta á aðstæður, þar sem hvort kynið fyrir sig er í hættu á misnotkun og ofbeldi af ólíkum toga. Það er einnig mikilvægt að meta þau áhrif sem atvinnan hefur á réttindi barnsins til menntunar. Þau tilfelli sem talin eru alvarlegust er varða barnaþrælkun er þegar börn eru þvinguð til þess að gegna herþjónustu eða eru neydd til þess að veita kynlífsþjónustu.

Kynferðisleg misnotkun

Börn og unglingar geta verið í sérstakri hættu á því að verða fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar. Möguleikinn er fyrir hendi sérstaklega ef litið er til þess hversu háð börn eru umhyggju og verndun annarra og hversu ófær þau eru um að vernda sig sjálf. Kynferðislegt ofbeldi tekur á sig margar ólíkar myndir og má þar helst nefna nauðgun, kynferðislega ánauð, og kynferðislegt ofbeldi innan veggja heimilis. Kynferðislegt ofbeldi getur haft gríðarleg áhrif á líkamlegt og andlegt heilbrigði barns og eru þau áhrif oftar en ekki varanleg.

Ofbeldi gagnvart börnum hefur lengi viðgengist vegna þagnar og aðgerðaleysis samfélagsins. Ástæður fyrir því eru margar en helst þær að börn, sérstaklega þau sem eru fórnarlömb misnotkunar og ofbeldis hafa litlar bjargir til að leita réttar síns, oft vegna ótta við refsingu ofbeldismanna sinna. Það er einnig staðreynd að umkvartanir barna eru oft ekki teknar alvarlega.

Börn sem gegna herþjónustu

Börn og unglingar sem eru þátttakendur í vopnuðum átökum eru oft neydd til að framkvæma blóðug ofbeldisverk. Börn sem búa á átakasvæðum hafa rétt til sérstakrar verndar sem miðar að því að koma í veg fyrir að þau séu þvinguð til þátttöku í vopnuðum átökum.

Réttur ungmenna

Börn og unglingar sem sitja í varðhaldi vegna glæps sem þau hafa framið eiga oft á hættu að sæta pyndingum og ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð. Það má vera að þau séu ólöglega í haldi og að þeim sé neitað um sanngjörn réttarhöld. Þau geta átt á hættu að vera dæmd á þann hátt að heilsa þeirra og líf sé í hættu og oft er ekki hugsað um samfélagslega aðlögun eftir að þau hafa lokið afplánun refsingar sinnar. Það er því mikilvægt að það dómskerfi, sem sinnir málum barna og unglinga, sé aðlagað á þann hátt að hagsmunir þeirra séu ávallt hafðir að leiðarljósi.

Þau réttindi sem barninu eru veitt, samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þarf að framkvæma út frá þremur grundvallaratriðum:

Hagsmunir barnsins skulu vera í fyrirrúmi

Í öllu því starfi sem unnið er í þágu barna, hvort sem það er framkvæmt af opinberum aðilum eða einkaaðilum, dómstólum eða stjórnvöldum, skulu hagsmunir barnsins ávallt hafðir í fyrirrúmi.

Starfið skal framkvæma án mismununar

Réttindi barna skulu vera tryggð án tillits til litarháttar, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, efnahagslegrar stöðu, fötlunar eða nokkurra sérkenna, hvaða nafni sem þau nefnast.

Þátttaka

Öll börn sem hæf eru til þess að hafa sínar eigin skoðanir hafa rétt til þess að tjá þær á frjálsan hátt, sérstaklega varðandi málefni sem tengjast réttindum þeirra. Skoðanir barnsins skal taka alvarlega og ber að taka tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska hvers barns.

Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þann 26. janúar árið 1990. Samningurinn var fullgiltur árið 1992 og lögfestur árið 2013.

Réttindi barnsins á Íslandi

Undanfarna áratugi hafa miklar breytingar orðið á uppvaxtarskilyrðum barna á Vesturlöndum. Aukin menntun, frekara aðgengi að heilsugæslu, og almenn velmegun hefur leitt til þess að velferð barna hefur farið vaxandi. Þrátt fyrir það búa mörg börn við óviðunandi félagslegar aðstæður og skert lífsgæði.

Hætturnar sem leynast í samfélögum Vesturlanda eru fjölmargar. Velferð barna er í húfi þegar foreldrar bregðast á einhvern hátt hlutverki sínu sem uppalendur. Börnin sjálf geta einnig átt þátt í að ógna eigin velferð með háttsemi sinni og má nefna fíkniefnanotkun og þátttöku í ofbeldisverkum sem dæmi um slíka háttsemi.

Barnalög og barnaverndarlög

Árið 1995 var nýju ákvæði bætt í 3. mgr. 77. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Í ákvæðinu segir að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Sækir þetta orðalag sérstaklega fyrirmynd til 2. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Er ákvæðinu ætlað að árétta sérstaklega skyldur stjórnvalda til að setja lög og reglur og grípa til annarra aðgerða sem stefna að því að tryggja velferð barna á öllum sviðum.

Í barnalögum er fjallað um forsjá barna og samkvæmt þeim ber foreldrum að annast barn sitt, sýna því umhyggju, virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eftir því sem best verður á kosið. Samkvæmt lögum ber foreldrum skylda til þess að vernda börn sín gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi sem og annarri vanvirðandi meðferð. Foreldrum ber einnig að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Með forsjá er átt við rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns og ákveða bústað þess. Í lögunum er barninu einnig tryggður réttur til forsjár foreldra sinna. Ef foreldri fer eitt með forsjá er því skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt, nema ef umgengnin er andstæð hag og þörfum barnsins samkvæmt ákvörðunum dómstóla eða stjórnvalds.

Barnaverndarlög fjalla um vernd barna og er markmið þeirra að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni eða þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Markmið laganna er einnig að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og til þess að beita úrræðum sem ætluð eru til verndar einstökum börnum þegar við á. Í 4. gr laganna eru nánar raktar þær meginreglur sem barnaverndaryfirvöldum ber að byggja starf sitt á. Eiga barnaverndaryfirvöld að beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu með tilliti til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefa tilefni til, en ávallt skal gæta samræmis og jafnræðis í ákvörðunum þeirra. Í lögunum er einnig áréttað að barnaverndaryfirvöld skuli eins og hægt er gæta þess að almenn og vægari úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt miða við að vægustu ráðstöfunum sé beitt til að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að og byggja þannig á meðalhófsreglu.

Með lögunum voru gerðar grundvallarbreytingar á skipulagi og málsmeðferð barnaverndarmála. Mikilvæg nýjung er að úrskurðarvald í málum vegna forsjársviptingar fluttist frá barnaverndarnefndum til dómstóla. Er markmið þess að tryggja enn frekar vandaða málsmeðferð í þessum viðkvæmu málum.


Hugtakið barn í íslenskum lögum

Með lögræðislögum nr. 71/1997 var sjálfræðisaldur barna hækkaður úr 16 árum í 18 ár.

Eftir lagabreytinguna eru börn á Íslandi skilgreind sem allir einstaklingar undir 18 ára aldri og eiga þau rétt á forsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs. Breytingin var gerð með vísan til þess að réttast væri að Ísland fylgdi skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem allir einstaklingar undir 18 ára aldri eru skilgreindir sem börn. Ásamt því þótti íslenska fyrirkomulagið ekki vera í samræmi við nágrannalönd ríkisins.

Á Íslandi fer félagsmálaráðuneytið með yfirstjórn barnaverndarmála og annast stefnumótun í málaflokknum. Barnaverndarstofa, sem er sérstök undirstofnun ráðuneytisins, annast daglega stjórn barnaverndarmála og vinnur að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs.


Barnaverndarstofa Íslands

Á Íslandi hefur orðið mikil þróun á sviði barnaverndarmála á undanförnum árum og með tilkomu Barnaverndarstofu hófst mikið umbótastarf í þessum málaflokki.

Barnaverndarstofa er stjórnsýslustofnun sem fer með daglega stjórnun barnaverndarmála í umboði félagsmálaráðuneytisins.

Verkefni Barnaverndarstofu eru nánar útfærð í reglugerð nr. 264/1995. Meginhlutverk hennar eru:

  • að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála,
  • að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, þar á meðal heimta frá þeim ársskýrslur,
  • að hafa yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum, sem ríkið rekur og styrkir, fyrir börn sem vistuð eru á grundvelli barnaverndarlaga,
  • að hafa umsjón með vistun barna á stofnunum og heimilum sem ríkið rekur eða styrkir á grundvelli barnaverndarlaga,
  • að hlutast til um að settar verði á fót stofnanir og heimili samkvæmt tilgreindum ákvæðum barnaverndarlaga,
  • að veita barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra,
  • að hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknarstarf á sviði barnaverndar,
  • að annast fræðslu um barnavernd, einkum fyrir barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra. [1]

Barnahús

Barnahús var stofnað þann 1. nóvember árið 1998 og er markmið þess að skapa samstarfsvettvang ásamt þeim opinberu stofnunum sem gegna rannsóknum og meðferð í kynferðisbrotamálum gegn börnum. Tilgangurinn með starfi hússins er að skapa aðstæður sem tryggja að þarfir og hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi við rannsókn slíkra mála. Er lagt upp úr því að barnið þurfi aðeins að leita á einn stað og að skýrslutaka, læknisrannsókn, greining og meðferð fari fram í umhverfi sem er barninu vinveitt. Það er einnig krafa um að rannsókn mála lúti faglegum kröfum og að húsið safni saman reynslu við rannsókn þessara mála og stuðli að heildarsýn yfir umfang málanna sem og að samhæfa starfsemi hinna ólíku stofnana sem koma að málunum.[2]

Á heimasíðu Barnaverndarstofu www.bvs.is má finna frekari upplýsingar um verkefni og starfsemi hennar.


Barnaverndarnefndir

Barnaverndarnefndir sveitarfélaga bera ábyrgð á framkvæmd barnaverndar í eigin umdæmi og hefur Barnaverndarstofa eftirlit með starfsemi þeirra. Er sveitarfélögum heimilt samkvæmt lögum að haga skipan barnaverndarmála með ýmsum hætti. Sveitarfélagið getur skipað sérstaka barnaverndarnefnd, það getur falið félagsmálanefnd að fara með framkvæmd barnaverndarlaga og að lokum getur sveitarfélagið skipað sameiginlega barnaverndarnefnd með öðrum sveitarfélögum eða á héraðsgrundvelli.

Umboðsmaður barna

Embætti umboðsmanns barna var fyrst sett á fót þann 1. janúar 1995. Hlutverk umboðsmannsins er að vinna að því að bæta hag barna og unglinga. Hann á að gæta að því að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa þeirra og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins.

Umboðsmaðurinn er jafnframt talsmaður barna. Í því felst að umboðsmaðurinn kemur réttinda- og hagsmunamálum barna á framfæri við opinbera aðila sem og aðila í einkageiranum. Umboðsmaðurinn vinnur almennt að réttindamálum barna og unglinga. Honum er ekki ætlað að skipta sér af vandamálum einstakra barna þar sem aðrir aðilar hafa yfirumsjón með þeim, t.d. barnaverndarnefndir.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu umboðsmanns www.barn.is

 

Á vef innanríkisráðuneytisins og velferðaráðuneytisins má finna ýmsar upplýsingar um málefni barna s.s. skýrslur og aðgerðaráætlanir.


 

[1] Önnur skýrsla Íslands um framkvæmd samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins. Sótt af http://domsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/til_nefnda/nr/54 þann 6. júní 2006.

[2] Upplýsingar um Barnahús eru fengnar úr skýrslu um starfsemi Barnaverndarstofu frá árinu 2000.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16