Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 2012

Á ári hverju í kringum 21.mars er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en 21.mars er er alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Í ár var vikan frá 17.-25. mars og var slagorðið að þessu sinni "Opnaðu augun! Fordómar leynast víða." 

OpnaduAugun_Logo

Birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka. Ein birtingarmyndin er hatursræða er orðræða sem miðar að því að hvetja til haturs og fordóma og birtist í ýmsum tilbrigðum. Hatursræðu er hægt að tjá munnlega eða í skriflegu formi af hverjum sem er; stjórnmálamönnum, fjölmiðlum, bloggurum eða jafnvel nánum vinum. Skilaboðunum er síðan hægt að dreifa til almennings í gegnum félagsleg net, veraldarvefinn eða hið hefðbundna fjölmiðlaumhverfi. Hatursræða þarf ekki endilega að vera í munnlegu formi því einnig eru tákn valdamikið tjáningarform. Tákn sem túlka eiga hatur og fordóma er unnt að finna víðast hvar eins og t.d. í formi veggjakrots á húsi, húðflúrs á líkama og límmiða á bíl. Hatursræðu verður að gagnrýna, hvort sem hún birtist í daglegu tali, fjölmiðlum, á bloggum eða á samskiptavefum eins og Facebook.

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti er árlegt samstarfsverkefni sem Mannréttindaskrifstofa Íslands heldur utan um, og samstarfsaðilar í ár voru Þjóðkirkjan, Rauði kross Íslands, ÍTR, Félag ungra jafnréttissinna og Jafnréttisnefnd SHÍ.

Evrópuvikan byrjaði með hönnunarsamkeppni um merki Evrópuvikunnar sem var haldinmargrét og sigríður hulda að þessu sinni í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Fyrsta árs nemar í grafískri hönnun kepptu sín á milli um verðlaunatillöguna sem skipulagsnefnd Evrópuvikunnar valdi svo að lokum. Sigurvegari hönnunarsamkeppninnar var Sigríður Hulda Sigurðardóttir. Margar flottar tillögur bárust en merki Sigríðar þótti bera af og hafa bestu skírskotunina í slagorð Evrópuvikunnar í ár en merkið má sjá hér fyrir ofan. Framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu veitti Sigríði viðurkenningaskjal á skrifstofu okkar á alþjóðadegi gegn kynþáttamisrétti. Myndir frá lokadegi samkeppninnar þar sem meðlimir skipulagsnefndar Evrópuvikunnar tóku sæti í dómnefnd og völdu verðlaunamerkið má finna hér.

Föstudaginn 23. mars hélt jafnréttisnefnd SHÍ í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu hádegistónleika með Retro Stefson á háskólatorgi Háskóla Íslands. Nefndarmeðlimir og starfskonur Mannréttindaskrifstofu dreifðu bæklingum með fræðsluefni um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti til nemenda og gesta Háskólatorgs. Mikil stemning myndaðist þar sem ungir sem aldnir dilluðu sér og dönsuðu kynþáttafordóma í burtu. Það heyrðist á fólki að sjaldan hefðu sést jafn margir á háskólatorgi enda var mjög þétt setið og staðið. Fleiri myndir frá tónleikunum í HÍ finna hér.


retro stefsontónl í hí

Mannréttindaskrifstofa hélt utan um vitundarvakningarviðburð í Smáralind á föstudagseftirmiðdeginu þar sem hundrað ungmenni á aldrinum 13-19 ára frá RKÍ, félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar og Þjóðkirkjunnar dreifðu bæklingum um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti og fræddu fólk um málefnið. Ýmislegt annað var í boði eins og að taka þátt í lukkuhjóli, setja mark sitt á listaverk, leika sér í Mannréttinda-Twisterspili og skoða ljósmyndir frá Pólska Ljósmyndarafélaginu á Íslandi. Rithöfundurinn og grínistinn Sóli Hólm kynnti svo fjögur bráðskemmtileg skemmtiatriði fyrir krökkunum og gestum Smáralindar sem öll voru ánægð með danshópinn ICE Step, Melkorku Rós Hjartardóttur sigurvegara Söngkeppni Samfés 2012, stúlknahljómsveitina Að Eilífu Einar og dansarana Emmanuel og Sudip. Mikill áhugi var á uppákomunni hjá gestum Smáralindar sem mörg hver fengu boli merkta Evrópuvikunni og fræddust um hversu mikilvægt það er að útrýma kynþáttafordómum – og misrétti. Myndir má finna hér.

krakkarnir

Félag ungra jafnréttissinna hélt opinn fræðslufund í tengslum við Evrópuvikuna í Hinu Húsinu. Erla Bolladóttir frá Alþjóðasetri fræddi fólk um stöðu innflytjenda og fólks af erlendum uppruna á Íslandi og sagði einnig frá verkefnum Alþjóðaseturs. Myndir frá fundinum er hægt að sjá hér.


Annað í tengslum við Evrópuvikuna:

·         Ungmennahópurinn Adrenalín gegn rasisma frá Laugarneskirkju fór í helgarferð og heimsótti ungmennahóp á Kirkjubæjarklaustri þar sem þema helgarinnar var að brjóta niður fordóma.

·         Félagsmiðstöðin Fókus í Grafarvogi hélt upp á vikuna með því að hengja upp veggspjöld með fræðslu um kynþáttamisrétti

·         Verkefnastjóri Mannréttindaskrifstofu skrifaði grein í tilefni vikunnar sem lesa má hér.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16