Mannréttindaþing Mannréttindaskrifstofu Íslands 2022

Mannréttindaþing Mannréttindaskrifstofu Íslands 2022
Panel umræður

Mannréttindaþing Mannréttindaskrifstofu Íslands 20. september 2022-Samantekt

Þingið var haldið á Hótel Reykjavík Nordica og var vel sótt. Hér á eftir fylgir samantekt úr fyrirlestrum sem þar voru haldnir og tillögur um úrbætur og ábendingar.

  1. Anna Lára Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp fjallaði um aðgengi fatlaðra barna að samfélaginu og hét erindi hennar Lykill að lífsgæðum, þátttaka án aðgreiningar. Hjá Þroskahjálp fer fram ungmennastarf og kom m.a. fram að fleiri tækifæri vantar á efri skólastigum fyrir börn og ungmenni með þroskafrávik. Þá bjóðast þeim fá atvinnutækifæri eftir að námi lýkur, það er sárlega þörf fyrir fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri. Einnig þarf fleiri tækifæri og betra aðgengi að frístundastarfi, öll ættum við að eiga kost á að stunda það tómstundastarf sem við höfum áhuga á. Jafnframt var fjallað um ráðstefnu sem Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Íþróttasamband fatlaðra og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið héldu í apríl síðast liðinn og hvernig verið er að nýta þá vinnu sem fram fór á ráðstefnunni til þess að móta tillögur að inngildandi skipulagi íþróttastarfs.  Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafa íslensk stjórnvöld undirgengist þá skyldu að tryggja fötluðu fólki jafnrétti á við aðra, í því felst að sjálfsögðu réttur til menntunar, þátttöku í félags- menningar og listalífi og til þess að þroska hæfileika sína og færni. Samfélagið þarf að takast á við áskoranir margbreytileikans og gera ráð fyrir öllum. Nálgast má fyrirlesturinn hér.

    Sólný Pálsdóttir sagði frá, í máli og myndum, hvernig samfélagið í Grindavík tekur því sem sjálfsögðum hlut að sonur hennar sem er með Downs heilkenni taki þátt í íþróttastarfi til jafns við önnur börn og allir leggja það af mörkum sem þarf til þess að það gangi upp.+
     
  2. Næst tók Elín Hoe frá Öryrkjabandalagi Íslands til máls og hét erindi hennar “Aðgangur fatlaðra barna að samfélaginu”. Minnti hún á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveður m.a. á um að aðildarríki skuli tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál sem þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur og að þeim sé veitt aðstoð þar sem eðlilegt tillit er tekið til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. Sagði Elín frá ungmennaþingi sem haldið var í mars 2019 en markmið þess var að hlusta á raddir barna og ungmenna með fatlanir og systkyni fatlaðra barna. Á þinginu var fjallað um aðgengi, heilbrigðismál, menntamál, íþróttir og tómstundir og félagslega þátttöku. Hvað aðgengi varðar kom m.a. fram að bornin og ungmennin teldu ferðaþjónustu fatlaðra ekki nógu góða, erfitt að treysta á hana og bílarnir kæmu ekki á réttum tíma. Slæmt aðgengi væri að strætó og skortur á aðstoð, upplýsingaskortur og skilningsleysi af hálfu bílstjóra. Þjónusta ætti að vera án endurgjalds. Þá var enn fremur rætt um slæmt aðgengi að tónleikum, kvikmyndahúsum og öðrum viðburðum.

    Almenn ánægja var með heilbrigðiskerfið en þó var bent á að aðgengi að skólahjúkrunarfræðingum væri ábótavant, nokkuð skorti á upplýsingagjöf um virkni lyfja og aðgengi að sálfræðiþjónstu væri takmarkað. Upplifun af skólastarfi var afar ólík en mörg töluðu um langan skóladag og þreytu þess vegna en almenn ánægja var með aukna tækninotkun í kennslu. Nemendur sem þurfa mikla sérkennslu fá oft ekki að taka þátt í félagslífi eða öðrum athöfnum innan skólans. Aukinn mannskap vanti í skólana og kennarar taki oft ekki tillit til allra barna og mismunandi þarfa þeirra og getu. Mismunandi er milli skóla hvort aðbúnaður er góður eða ekki, t.d. vantar stundum rampa fyrir hjólastóla, oft væri aðgengi að lyftum ábótavant, langar vegalengdir milli skólastofa o.fl. Börnin lögðu einnig til að táknmálskennsla færi fram í almennum grunnskólum til að auka kynni við börn sem eiga erfitt með tjáskipti og auka þekkingu á aðstæðum þeirra.

    Þegar kom að íþrótta- og tómstundastarfi var bent á skort á þjónustu í frístundum, stundum þyrftu börn að leita út fyrir sveitarfélagið til að stunda íþróttir þó aðstaða væri til staðar þar og að foreldrar þeirra yrðu að sjá um ferðir milli staða vegna íþróttaiðkunar. Tækifæri til að stunda íþróttir eftir áhugasviði virðast meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Erfiðara að stunda íþróttir eftir því sem bornin verða eldri, æfingar of margar og á óhentugum tímum. Þau ættu að geta stundað íþróttirnar á eigin forsendum, eftir dagsformi og mætingaskylda ætti að vera sveigjanleg. Skortur á liðveislu getur einnig hamlað þátttöku í íþróttastarfi.

    Varðandi félagslega þátttöku var m.a. á það bent að börn með raskanir væru að miklu leyti útskúfuð frá almennu félagsstarfi í skólanum og að í framhaldsskólum sé algengt að það gleymist að láta nemendur á starfsbrautum vita um viðburði á vegum nemendafélagsins. Skipuleggja þarf ferðaþjónustu og liðveislu til að geta tekið þátt í viðburðum og því þátttöku sjálfhætt ef upplýsingar berast sein tog illa. Árshátíðir og aðrir viðburðir eru oft haldnir á óaðgengilegum stöðum. Skólaferðalög og vettvangsferðir eru oft skipulögð án þess að tillit sé tekið til allra nemenda og húsnæði á áfangastað óaðgengilegt. Gott væri ef til væru leiðbeiningar um félagsleg samskipti og mikilvægt að félagsmiðstöðvar væru opnar fyrir alla og sömu möguleikar á tómstundastarfi óháð fötlun. Of löng bið væri eftir liðveislu.

    Af hálfu systkynahópsins var bent á að mikill tími og orka færi í umönnun fatlaða barnsins og að það bitni á allri fjölskyldunni. Þau sögðust líka þurfa að segja eigin langanir og þarfir til hliðar og oft ekki bjóða vinum inn á heimilið vegna hegðunar og atferlis fatlaða systkynisins. Skortur væri á úrræðum utan heimilis fyrir systkyni en að börn sem búa í minna samfélagi njóti meiri skilnings.
    Nálgast má fyrirlesturinn hér.

    Vilhjálmur Hauksson, sem er 13 ára gamall sagði fræðslu um fötlun verulega ábótavant, hún ætti að vera sjálfsagður hluti af fræðslu í skólakerfinu. Honum finnst einnig mjög mikilvægt að fræða fullorðið fólk og að einstaklingar sem þekkja fötlun af eigin raun ættu að sjá um fræðsluna. Vilhjálmur notar hjólastól og hann sagði aðgengismál einnig vera aðkallandi. Þegar fatlað fólk kemst ekki inn í byggingar eða svæði sem er opið öðrum, getur ekki sótt viðburði eða ekki er gert ráð fyrir fötluðu fólki til þátttöku í ýmiss konar tómstundastarfi svo dæmi séu nefnd, þá upplifi einstaklingurinn sig útilokaðan, að enginn vilji hafa hann með. Því sé afskaplega mikilvægt að tryggja fötluði fólki bæði líkamlegt aðgengi alls staðar sem og þátttöku í viðburðum og félags- og tómstundastarfi til jafns við ófatlað fólk.

  3. Þóra Jónsdóttir frá Barnaheillum fjallaði um aðgengi barna að réttarkerfinu, þ.e. að börn eða fulltrúar þeirra geti fengið að kvarta eða kæra til stjórnvalda og dómstóla vegna brota sem þau telji sig hafa orðið fyrir og hvernig börnum verðir gert kleift að njóta mannréttinda sinna þegar þau tengjast málum sem koma fyrir lögreglu, stjórnsýslu eða dómstóla. Benti Þóra m.a. á leiðbeinandi reglur Evrópuráðsins um barnvænt réttarkerfi en í þeim felst að til að börn fái notið réttlátrar málsmeðferðar og allra sinna mannréttinda þýðir ekki að komið sé fram við þau á sama hátt og fullorðna.  Málsgögn og slíkt þarf að þýða á barnvænt tungumál og, eftir atvikum, á önnur tungumál og aðlaga kerfið að þörfum fatlaðra barna. Benti Þóra einnig á nokkur mikilvægustu ákvæða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. um bann við mismunun, að það sem barni er fyrir bestu skuli alltaf haft að leiðarljósi og að allar viðeigandi ráðstafanir skuli gera á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau sem viðurkennd eru í samningnum komi til framkvæmda og börn njóti verndar gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðisofbeldi.

    Þóra benti einnig á rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Þá skal börnum og veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi. Áréttaði Þóra rétt barna til upplýsinga, á barnvænu máli og á tungumáli eða í því formi sem barnið skilur.
    Nálgast má fyrirlesturinn hér.

  4. Tótla Sæmundsdóttir frá Samtökunum 78 fjallaði um stöðu hinsegin barna. Í máli hennar kom m.a. fram að Samtökin sinna fræðslu til starfsfólks skóla og nemenda og  ráðgjafarþjónustu fyrir börn, aðstandendur og fagaðila. Samtökin reka einnig stuðningshópa fyrir börn og aðstandendur og félagsmiðstöð fyrir börn og ungmenni í samstarfi við Reykjavíkurborg. Í netkönnun á líðan hingsegin ungmenna í skólaumhverfi, sem gerð var 2017-2018 og samanstóð af 181 nemanda, á aldrinum 13-20 ára, kom m.a. fram að þriðjungur nemenda hafði fundið fyrir óöryggi í skólanum síðasta árið vegna kynhneigðar sinnar og fimmtungur fann til óöryggis vegna kyntjáningar sinnar. Enn hefur hinseginleikinn ekki verið gerður hluti af venjubundnu skólastarfi og enn er til fólk sem trúir því að börn eigi ekki að heyra um hinsegin fólk fyrr en þau eru orðin hálffullorðin en af því leiðir að hinsegin börn upplifa sig alein í heiminum. En ekki er allt alslæmt, hin seinni ár hafa börn þorað að vera þau sjálf miklu fyrr. Þau hafa ekki verið í felum, stolt og sýnileg.

    Haustið 2021 fóru tilkynningar um ofbeldi að berast í auknum mæli, bæði líkamlegt, andlegt og stafrænt ofbeldi. Hinsegin börn óttast að fara í skóla, strætó, niður í bæ og Kringluna svo dæmi séu nefnd. Það er gelt á þau, kallað að þeim ókvæðisorðum og þeim sagt að drepa sig. Tilgangurinn er sá að afmanneskjuvæða hinsegin börn og fólk. Við erum að upplifa raunverulegt hættuástand. Þrátt fyrir að þetta sé raunveruleikinn þá er það líka raunveruleikinn að við eigum stórann styðjandi hóp í kennurum og nemendum. Það er þessu háværi minnihluti sem fær of mikið pláss og gerir það að verkum að börnin upplifa sig ekki örugg. Við þurfum að virkja meirihlutann með okkur í lið. Stuðningurinn þarf að vera sýnilegri og háværari, sem einstaklingar verðum við að sammælast um að segja alltaf eitthvað þegar við verðum vör við fordóma, og hafa augu og eyru opin. Samtökin 78 hafa gripið til aðgerða gegn þessu bakslagi og hvetja til þátttöku alls samfélagsins. Starfsfólk skóla gegnir lykilhlutverki og jákvætt námsefni gagnvart hinsegin fólki. Enn fremur upplýst og jákvæð fjölmiðlaumfjöllun og almenn fræðsla um hinseginleikann.
    Nálgast má fyrirlesturinn hér.

  5. Natalia Pelypets frá Rauða krossinum fjallaði um úkraínsk börn á flótta. Síðan stríðið hófst hafa tveir þriðju úkraínskra barna þurft að flýja heimili sín og meira en 3 milljónir þeirra eru nú á flótta. Rúmlega 400 úkraínsk börn eru meðal þeirra sem óskað hafa alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Flóttinn hefur umfangsmikil og alvarleg áhrif á framtíð barnanna. Þau þurfa að yfirgefa öryggi heimilisins, missa úr skóla og menntunarmöguleikar þeirra í framtíðinni eru mögulega verulega skertir. Þau sjá af tómstundum og missa félagsleg tengsl.  Þá hefur flóttinn enn  alvarlegri afleiðingar, svo sem óöryggi, kvíða og í mörgum tilvikum áfallastreituröskun. Mörg, ef ekki flest börn á flótta bera þess andleg merki alla ævi. Talað er um týnda kynslóð barna sem hafa þurft að flýja stríð og átök. Þess utan steðja að þeim ýmsar hættur, börn á flótta eiga á hættu að vera rænt, beitt ofbeldi, seld í mansal og misnotuð á ýmsan hátt. Því er afar mikilvægt að tryggja öryggi þeirra, veita þeim stuðning og nauðsynlega þjónustu og neyta allra úrræða til að þau geti sem fyrst komist í skóla og lifað eðlilegu lífi.
    Nálgast má fyrirlesturinn hér.

  6. Dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Ríkislögreglustjóra fjallaði um stafrænar birtingarmyndir kynferðisofbeldis gegn börnum. Fjallaði hún um umfang og eðli stafrænna kynferðisbrota, en það er að aukast. Brotin geta verið liður í stærri brotum, t.d. hótanir um birtingu mynda nema í skiptum fyrir kynlíf o.þ.h. eða hluti af stærra heimilisofbeldismáli. Brotin verða til með mismunandi hætti, t.d. með innbroti eða svikum og tilgangurinn getur verið ýmiss, svo sem illgirni, tjónsásetningur o.fl. Stelpur eru mun líklegri en strákar til að hafa fengið kynferðislegt komment á netinu, hafa fengið sendar nektarmyndir og verið beðnar um að senda nektarmyndir, oftast frá ókunnugum. Mikil aukning er í tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum, um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi. Ungt fólk gerir minni greinarmun á online og offline sjálfi en fullorðnir og notkun stafrænna miðla hjá Íslendingum er gríðarleg og rannsóknir sýna mikið klámáhorf íslenskra drengja og að unglingsstúlkur finna fyrir þrýstingi til að deila af sér nektarmyndum. Stafrænt ofbeldi getur átt sér stað á allskonar vettvangi, það þarf að hugsa um hvernig tæknin er notuð og taka ekki þátt í að fremja brot.

    Eftir lagabreytingar sem gerðar voru 2021 og 2022 er samþykki kjarni alls sem kynlíf og kynferðisleg samskipti. Ef áframsenda á mynd þá þarf samþykki þess sem er á myndinni, annars má ekki áframsenda. Ákvæðin endurspegla nú betur en áður kynferðislega friðhelgi og réttindamiðaða nálgun og komið er til móts við þær áskoranir sem áhrif tækniframfara í samskiptum hafa haft á vernd kynferðislegrar friðhelgi einstaklinga. Mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á ákvæðum um barnaníð og umsáturseinelti.

    Til að fylgja lagasetningunni eftir þarf aldursmiðaðar forvarnir og fræðslu, útbætur innan réttarvörslukerfisins og stuðning við þolendur. Unnið er að samhæfingu forvarna og fræðslu í samstarfi við 112 þar sem aðgengi er að almennum upplýsingum varðandi kynferðisofbeldi. Úrbætur innan réttarvörslukerfisins fela m.a. í sér endurmenntun lögreglu, endurskoðun á verklagi og miðlun upplýsinga. Þegar kemur að stuðningi og úrræðum fyrir brotaþola þarf að nýta fyrirliggjandi úrræði, hafa samstarf við einkageirann og  gera tæknilegar ráðstafanir til þess að takmarka dreifingu efnis. Það á alltaf að tilkynna brot, til 112, lögreglu eða barnaverndaryfirvalda. Sem dæmi um afbrotavarnir má nefna fræðsluherferð fyrir 8. bekk, fræðslupakka fyrir framhaldsskóla og upplýsingar á 112.is.
    Nálgast má fyrirlesturinn hér.

 Tillögur um úrbætur og ábendingar:

  1.  Fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk, einkum fólk með þroskaskerðingu, eftir að námi lýkur,
  2. Betra úrval og betra aðgengi að frístundastarfi fyrir fötluð börn. Þau ættu að eiga möguleika á tómstundastarfi óháð fötlun.
  3. Vitundarvakning í samfélaginu, hægt er að tryggja fötluðum börnum jafnan aðgang að íþróttum og tómstundum ef allir taka sig saman.
  4. Tryggja góða ferðaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni.
  5. Bæta aðgengi almennt, t.d. að að tónleikum, kvikmyndahúsum og öðrum viðburðum.
  6. Betra aðgengi að skólahjúkrunarfræðingum.
  7. Betra aðgengi að sálfræðiþjónstu.
  8. Tryggja að allir nemendur geti tekið þátt í félagslífi innan skólans.
  9.  Starfsfólk skóla taki tillit til allra barna og mismunandi þarfa þeirra og getu.
  10. Bæta aðbúnað og aðgengi í skólum ef þarf.
  11. Táknmálskennsla fari fram í almennum grunnskólum til að auka kynni við börn sem eiga erfitt með tjáskipti og auka þekkingu á aðstæðum þeirra.
  12. Íþróttaiðkun fatlaðra barna á eigin forsendum, eftir dagsformi og sveigjanleg mætingaskylda.
  13. Leiðbeiningar um félagsleg samskipti.
  14. Félagsmiðstöðvar opnar og aðgengilegar fyrir alla.
  15. Stytta bið eftir liðveislu.
  16. Hlúa að systkynum fatlaðra barna, mæta þörfum þeirra á stuðningi.
  17. Fræðsla um fötlun í skólakerfinu.
  18. Fræðsla til fullorðinna af hendi fatlaðra einstaklinga sem þekkja fötlun af eigin raun.
  19. Barnvænt réttarkerfi svo börn fái notið réttlátrar málsmeðferðar og allra sinna mannréttinda (t.d. hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi, barn fái að tjá sig, bann við mismunun).
  20. Málsgögn og slíkt þarf að þýða á barnvænt tungumál og, eftir atvikum, á önnur tungumál.
  21. Börn fái að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.
  22. Börn fái tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.
  23. Fræðsluátak um málefni hinsegin barna, jafningjafræðsla, jákvætt námsefni og fræðsla í skólum, jákvæð og fræðandi fjölmiðlaumfjöllun o.fl.
  24. Skjót og umfangsmikil þjónusta (t.d. skóli, heilbrigðis- og sálfræðiþjónusta, aðgangur að tómstundum).fyrir börn á flótta, vera vakandi fyrir þeim hættum sem að þeim steðja.
  25. Aldursmiðaðar forvarnir og fræðsla vegna kynferðisofbeldis.
  26. Endurmenntun lögreglu um kynferðisofbeldi, þar á meðal stafrænt.
  27. Endurskoða verklag hjá lögreglu og öðrum sem að kynferðisofbeldismálum gegn börnum koma.
  28. Stuðningur og úrræði fyrir börn sem brotaþola kynferðisofbeldis.
  29. Tæknilegar ráðstafanir til þess að takmarka dreifingu efnis sem dreift hefur verið á netinu.



    Mæting var með besta móti á Mannréttindaþingið.

    Anna Lára Steindal flytur erindið um lykilinn að lífsgæðum.


    Sólný Pálsdóttir flutti afar skemmtilegt og áhrifamikið erindi.


    Elín Hoe fjallaði um aðgang fatlaðra barna að samfélaginu.


    Vilhjálmur Hauksson sagði sína skoðun á aðgengi fatlaðra barna.


    Tótla Sæmundsdóttir fjallaði um stöðu hinsegin barna.


    Natalia Pelypets fjallaði um úkraínsk börn á flótta.


    Dr. María Rún er hér að fjalla um stafrænar birtingarmyndir kynferðisofbeldis gegn börnum.

    Líflegar panelumræður áttu sér stað eftir að framsegjendur höfðu lokið sínu máli.

 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16