Yfir 100 fórnarlömb mansals hér á landi

Framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands, Margrét Steinarsdóttir, hefur hitt meira en hundrað fórnarlömb mansals á Íslandi á undanförnum árum. Átta manns hafa leitað sér aðstoðar til hennar það sem af er ári. 

Algengasta form mansals hér á landi er kynlífsiðnaður og eru flest fórnarlömbin konur. Karlar lenda þó einnig í klóm einstaklinga sem stunda mansal, en það er frekar tengt illa eða alveg ólaunaðri vinnu. Þeir eru sumir hverjir látnir vinna frá morgni til kvölds, við blaðaútburð, byggingarvinnu eða þjónustustörf. 

Margrét segir þrælahald á Íslandi í dag vera staðreynd. Þó hafi margt breyst síðan lög um nektarstaði voru sett á, en hún hefur aðstoðað fjölda kvenna sem hafa leitað sér hjálpar eftir að hafa unnið á slíkum stöðum og verið neyddar út í vændi.

„Sumar konur giftust mönnum sem gerðu þær svo út í vændi. Margar hverjar voru í ofbeldissamböndum eftir að þær hættu að dansa á stöðunum og gátu ekki náð stjórn yfir eigin lífi," segir hún.

Brýnt sé að gera frekari rannsóknir og tölfræðiúrvinnslu á málaflokknum hér á landi. Þá þurfi að auka eftirlit með þeim löglegu leiðum sem einstaklingar nota til að koma til landsins, eins og fjölskyldusamninga og au pair-leyfi. Hafa verði í huga að mansal verður ekki að fela í sér smygl, blekkingu eða nauðung, heldur koma mörg fórnarlömb þess af fúsum og frjálsum vilja til landsins.


Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/yfir-100-fornarlomb-mansals-her-a-landi/article/2012710269945


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16