Vill refsa fyrir hatursáróður

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að gera verði úrbætur á núverandi lögum til þess að hægt sé að refsa fyrir hatursáróður. Hún leggur meðal annars til að refsiheimildir verði auknar í nýsamþykktum fjölmiðlalögum.

Margrét hélt erindi á fundi innanríkisráðuneytisins í morgun sem fjallaði um hatursáróður. Þar benti hún á að ákvæði í hegningarlögum sem bannar slíkan áróður gegn ákveðnum hópi fólks hafi ekki virkað sem skyldi. Í það minnsta væru dæmi um að ekki hafi verið brugðist við ýmsum ábendingum um að slíkur áróður væri viðhafður, meðal annars af því að viðkomandi hefði ekki hagsmuni af málinu.

„Hvað sem veldur þá jafnvel þarf að kveða skýrara á um að þetta ákvæði taki til almannahagsmuna, það þurfi ekki einungis að vera á grundvelli kæru frá einstaklingi sem telur á sér brotið,“ segir Margrét. Hún vill líka auka refsiheimildir í fjölmiðlalögunum. Nú má aðeins refsa fyrir að hvetja til refsiverðs athæfis - við því liggja stjórnvaldssektir á fjölmiðla. Margrét bendir á að lagt hafi verið fram lagafrumvarp á Alþingi þess efnis að hægt sé að refsa fyrir hatursáróður. „Og ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að það eru hér fjölmiðlar sem ekki er hægt að ná til í dag eins og lögin eru, en yrði hægt að bregðast við ef þessi lagabreyting næði fram að ganga.“

Margrét vill líka setja sams konar lög yfir bloggsíður og samfélagsmiðla, þar sem fjölmiðlalögin ná aðeins til þeirra miðla sem miðli efni til almennings og lúti ritstjórn. Hún bendir á að almennt hafi hatursáróður á netinu aukist gríðarlega. „Þannig að það er ástæða til að bregðast við og þetta er litið mjög alvarlegum augum í löndunum í kringum okkur. Það er kannski málið að hér ætti líka að setja hatursáróður í forgang, eða viðbrögð við honum, eins og gert er í löndunum í kringum okkur.“

Fréttina má lesa á ruv.is hér; http://ruv.is/frett/vill-refsa-fyrir-hatursarodur


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16