Umsögn um drög að sjöttu skýrslu Íslands um alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Á dögunum skiluðu MRSÍ og Landssamtökin Þoskahjálp saman umsögn um drög að sjöttu skýrslu Íslands um alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda.

Umsögnina má finna hér að neðan og í pdf formi hér:

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Mannréttindaskrifstofu Íslands um drög að sjöttu skýrslu Íslands um alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Meðfylgjandi er umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) og Landssamtakanna Þroskahjálpar um efni skýrsludraganna. Munu samtökin og skila viðbótarskýrslu til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með framkvæmd framangreinds alþjóðasamnings.

Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ vilja koma eftirfarandi á framfæri:

1. Réttarstaða brotaþola og kynbundið ofbeldi.

Þrátt fyrir jákvæðar lagabreytingar hvað viðvíkur réttarstöðu brotaþola má enn bæta stöðuna, t.d. með því að brotaþola fái aðild að sakamáli í stað þess að gegna einungis stöðu vitnis. Enn eru sakfellingar í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum fáar, gerendur geta notað réttarkerfið gegn brotaþolum t.d. með því að höfða meiðyrðamál og málsmeðferð tekur langan tíma. Niðurstöður rannsóknarinnar “Áfallasaga kvenna[1], sem 32.811 konur tóku þátt í sýndu að 40% allra kvenna á Íslandi eru brotaþolar kynferðis- og/eða líkamlegs ofbeldis. Þrátt fyrir breytingu á 194. gr. hegningarlaga, sem skilgreinir það sem nauðgun ef samþykki til kynmaka liggur ekki fyrir af fúsum og frjálsum vilja, hefur sakfellingum ekki fjölgað og enn virðist fyrst og fremst einblínt á verknaðaraðferðir. Hér þarf að bæta úr.

2. Mansal.

Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar aðgerðir í mansalsmálum skortir enn á heildstæða nálgun og skilvirkt kerfi. Veita þarf auknu fjármagni til málaflokksins, marka stefnu og vinna tímasetta aðgerðaáætlun í mansalsmálum, auka þekkingu þeirra sem að slíkum málum koma og auka vitund almennings og skilning á mansali.

3. Ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra frá ágúst 2020[2], er mun líklegra að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi en ófatlað og sakfellingar í ofbeldisbrotum gegn fötluðu fólki eru hlutfallslega færri en gegn ófötluðu.  Þrátt fyrir jákvæðar breytingar á lögum um meðferð sakamála er frekari aðgerða þörf, svo sem hvað varðar menntun rannsakenda, ákæruvalds og dómsvalds.

4. Landsáætlun í mannréttindamálum.

Megintilgangur með gerð og framkvæmd landsáætlana í mannréttindamálum er að auka þekkingu og vernd mannréttinda í sérhverju ríki. Alhliða og skipuleg nálgun í mannréttindamálum er líklegri til að tryggja að tilteknir viðkvæmir hópar eins og, börn, fatlað fólk, innflytjendur og jaðarsettir hópar njóti virkari mannréttindaverndar. Landsáætlarnir í mannréttindamálum hvetja m.a. til skilvirkni stjórnvalda í að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðasamningum um mannréttindi. Þær stuðla jafnframt að því að innlend löggjöf sé í fullu samræmi við alþjóðasamninga sem fullgiltir hafa verið og víðtækari skilningi og þekkingu á eðli og framkvæmd mannréttindasamninga. Mannréttindi ættu að vera samofin inn í allar aðgerðaáætlanir stjórnvalda, alla lagasetningu (t.d. með tilliti til kynjasjónarmiða í víðum skilningi, stöðu fatlaðs fólks og innflytjenda). Eru stjórnvöld hvött til þess að innleiða landsáætlun í mannréttindamálum.

5. Sjálfstæð, innlend mannréttindastofnun.

Nú stendur yfir vinna að grænbók um þar sem mat á stöðu mannréttinda á Íslandi og valkostir, með sérstakri hliðsjón af mannréttindaeftirliti, verða lögð fram. Er þessi vinna nauðsynleg jafnhliða undirbúningi að stofnun sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar því ljóst er að mannréttindasáttmálar og löggjöf nægja ekki ein og sér til að tryggja mannréttindi. Afar jákvætt er að vinna þessi sé hafin og að fyrirhugað er að leggja fram frumvarp um slíka stofnun á næsta ári. Hingað til hefur samráð við jafnt hagsmunaaðila sem almenning verið með ágætum og hvatt er til þess að því verði fram haldið. Einnig er hvatt til þess að mannréttindastofnun verði vel fjármögnuð og þess sé gætt að stofnunin sé vel í stakk búin til að sinna eftirliti með mannréttindum ólíkra hópa. Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ ítreka mikilvægi samráðs við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, enda ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að stjórnvöldum beri að sjá til þess að til þess bær aðili hafi eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks.

6. Endursendingar barnafjölskyldna til Grikklands.

Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ telja fyrirhugaðar endursendingar barnafjölskyldna á flótta til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd, skapi börnum hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á. Vísað er í ákall fjölda samtaka til stjórnvalda sem birt var þann 27. september sl.[3]

7. Endurskoðun lögræðislaga.

Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ telja mikla þörf á endurskoðun lögræðislaga. Setja þarf nánari og skýrari reglur, t.d. hvað varðar nauðungarvistun, svo sem málsmeðferð sýslumanna, kynningu á réttarstöðu nauðungarvistaðra og ráðgjöf og stuðning í kjölfar nauðungarvistunar. [4]

8. Friðhelgi einkalífs.

Þrátt fyrir að settar hafi verið reglur um birtingu dóma á netinu má enn á heimasíðum dómstóla finna dóma sem birtir eru með persónugreinanlegum upplýsingum jafnt málsaðila sem og einstaklinga sem ekki eru aðilar málsins. Þar á meðal má nefna upplýsingar úr sjúkraskrám og jafnvel undir nafni. Allir eiga að njóta friðhelgi einkalífs og eiga rétt á gleymast á internetinu. Að auki eru dómar birtir í gegnum síðu Fons Juris EHF, tugi ára aftur í tímann. Fons Juris er einkarekið fyrirtæki sem birtir dóma í hagnaðarskyni og geta allir keypt aðgang að dómasafni þeirra. Helstu áskrifendur eru stjórnvöld og fyrirtæki. Þessi framkvæmd dómstóla og Fons Juris er í andstöðu við lög og alþjóðlegar skuldbindingar, en árið 2017 gerði Persónuvernd dómstólum að afmá upplýsingar úr sjúkraskrá einstaklings í dómi sem birtur var heimasíðu Hæstaréttar. Nýverið voru settar reglur um dómabirtingar sem eiga að taka á þessu engu að síður hefur ekki verið nóg aðhafst til að stöðva dreifingu og afmá dóma sem innihalda viðkvæmar persónugreinanlegar uppýsingar. Núverandi framkvæmd er að héraðsdómar þurrka alla jafna út persónugreinanlegar upplýsingar áður en dómar eru birtir, en svo virðist sem Landsréttur og Hæstiréttur hafi ekki tekið upp sambærilegt verklag.

9. Aðgangur fatlaðs fólks að réttindum.

Fatlað fólk er langoftast efnalítið og tekjulágt af þeirri einföldu ástæðu að flestir eru mjög háðir örorkubótum, sem eru mjög lágar og hafa lítil eða engin tækifæri þess til að afla sér annarra tekna vegna fötlunar og/eða mjög takmarkaðra tækifæra á ósveigjanlegum vinnumarkaði. Það þýðir að allur kostnaður sem því fylgir að sækja réttindi sín er fötluðu fólki sérstaklega þungbær og mjög alvarleg og afdrifarík hindrun í vegi þess að það eigi raunhæfan möguleika til þess þegar það þarf aðstoð lögfræðinga, s.s. við að leggja mál sín fyrir úrskurðaðila í stjórnkerfinu, umboðsmann Alþingis og/eða dómstóla. Lög og reglur sem á reynir eru oft flókin og/eða óljós og því nauðsynlegt fyrir fatlað fólk, sem ekki er löglært, að fá aðstoð lögfræðinga til að greina mál og leggja þau fyrir til úrskurðar og/eða fyrir dómstól. Þörf fyrir slíkan lögfræðistuðning verður eðli máls samkvæmt enn meiri þegar um andlegar skerðingar er að ræða.

Afleiðing þess sem að framan er rakið er mjög einföld og mjög alvarleg: Fötluðu fólki er á grundvelli fötlunar og efnahags mismunað um aðgang að réttarkerfinu og þeim réttindum og vernd sem það veitir og á að veita öllum í réttarríki, án mismununar.

Með vísan til þess sem að framan segir telja Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ brýnt að ríkið geri án tafar breytingar á lögum og tryggi nauðsynlegar fjárveitingar svo að fatlað fólk eigi raunhæfa möguleika til að sækja réttindi sín innan réttarkerfisins og fái til þess þann fjárhagslega stuðning sem er forsenda þess að sá réttur verði því aðgengilegur og raunhæfur.

10. Fullgilding valkvæðs viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Alþingi samþykkti árið 2016 þingsályktunartillögu um að valkvæður viðauki við samning SÞ skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017. Það hefur ekki enn verið gert. Fullgilding viðaukans myndi veita fötluðu fólki og hópum, sem hafa fullreynt innlendar leiðir til að ná rétti sem samningurinn mælir fyrir um, rétt til að leita með mál sín til nefndar samkvæmt samningnum. Sá réttur veitir mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ skora á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka því mikilvæga verkefni á árinu 2023 að fullgilda valkvæða viðaukann við samning SÞ, sem Alþingi samþykkti að gera skyldi fyrir lok árs 2017 og tryggja að í fjárlögum árið 2023 verði nægilegar fjárveitingar til þess.

11. Aðgengismál almennt og sérstaklega m.t.t. upplýsinga, stafrænnar þjónustu ríkis, sveitarfélaga og einkageirans.

Margt hefur unnist í aðgengismálum á Íslandi undanfarin ár og áratugi þegar kemur að aðgengi hreyfihamlaðs fólks og líkamlegu aðgengi en enn er skilningur allt of lítill á samfélagslegu aðgengi fatlaðs fólks, svo sem að upplýsingum og stuðningi til margvíslegrar þátttöku í leik, námi og starfi. Fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir mætir víða hindrunum og skilningsleysi á þörfum sínum, bæði í raunheimum og í stafrænum heimi. Má þar nefna aðgang að auðlesnu efni um réttindi, þjónustu og samfélagsleg mál, en einnig að rafrænni auðkenningu og stafrænum réttindum.

Fatlað fólk hefur rétt á upplýsingum á máli sem það skilur samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þar er einnig kveðið á um skyldur stjórnvalda vegna tækniþróunar og að við þróun slíkrar tækni eigi að tryggja að hún gagnist fötluðu fólki. Mikil hætta er á, og fjölmörg dæmi um, að tækniframfarir og stafrænar lausnir sem eigi að einfalda líf borgaranna séu beinlínis hindrun í lífi fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Þar má sem dæmi nefna rafræn skilríki til þess að komast inn á “Mínar síður” opinberra aðila, nota bankaþjónustu og auðkenna sig.

Stjórnvöld og Alþingi verða að tryggja nægilegt fjármagn til nauðsynlegra verkefna á þessu sviði til að fatlað fólk fái notið ávinnings af þessari tækniþróun og sjálfvirknivæðingu, til jafns við aðra en verði ekki vegna þessarar tækniþróunar og nýtingar hennar enn jaðarsettara en það nú er. Í þessu sambandi minna Landssamtökin Þroskahjálp og MRSÍ á að meginmarkmið heimsmarkmiðanna, sem íslensk stjórnvöld vísa mjög gjarnan til, er þetta: “Skiljum engan eftir!”.

11. Kynning á breytingum á mismununarlöggjöf.

MRSÍ og Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeirri breytingu sem gerð var síðastliðið vor á lögum nr. 85/2018, með lögum nr. 63/2022, þar sem gildissvið laganna var víkkað og tekur nú, auk kynþáttar og þjóðernisuppruna, til trúar, lífsskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar. Hins vegar er mikil þörf á að kynna þessa lagabreytingu og hvatt er til þess að í það verði ráðist sem fyrst. Jafnframt er mikilvægt að kynna mannréttindasamninga sem Ísland hefur undirgengist og hvernig þeir tala inn í mismununarlöggjöfina.

12. Aðstæður fanga í afplánun.

Samkvæmt upplýsingum frá verkefnisstjórum Rauða Krossins á Íslandi í verkefninu Aðstoð eftir afplánun er ekki algilt að föngum sé boðið upp á störf og upplýsingar um þau úrræði sem tiltekin eru í skýrslunni. Til að mynda er ekki boðið upp á störf þar sem einstaklingar fá greidd laun eða þóknun í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem konur afplána að mestu sína dóma. Einnig mætti gera betur hvað varðar vinnu í opnum fangelsis úrræðum. Þá er brýnt að auka framboð á námi, einkum starfsnámi eða námi sem hægt er að nýta sem inngöngu í starf eftir að afplánun lýkur.

Vert er að benda á að fötluðum einstaklingum í afplánun býðst ekki sérstakur stuðningur eða mótttaka sem tekur mið af fötlun. Fötluðu fólki í afplánun er því ekki tryggð sú þjónusta og stuðningur sem það á rétt á og hefur þörf fyrir í þessum krefjandi aðstæðum t.d fylgja stuðningsaðilar í teymum einstaklinga og réttargæslumenn þeim ekki inn í fangelsin.

Þá eru gerðar athugasemdir við orðanotkunina “eiturlyfjanotkun” sem er stimplandi og réttara er að tala um vímuefni. Ekki eru öll vímuefni eitur og má þá sem dæmi nefna lyf sem skrifuð eru út af læknum.

Að lokum ítreka Landssamtökin Þroskahjálp og Mannréttindaskrifstofa Íslands samráðsskylduna sem áréttuð er í samningi Sameinuð þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar segir í 4. grein sem ber yfirskriftina Almennar skuldbindingar.

“Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálp.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16