Umsögn MRSÍ um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál

Efni: Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál, þskj. 86, 85. mál.

Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist framangreind þingsályktunartillaga til umsagnar.  Með tillögunni er dómsmálaráðherra falið að setja á fót starfshóp sem skuli móta tillögur um bætt verklag um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði falið m.a. að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga og koma á fót samstarfsvettvangi stjómvalda.

MRSÍ styður tillöguna heils hugar enda telur skrifstofan upplýsingamiðlun milli kerfa með samþykki þolenda eða út frá hagsmunum barna sé mjög til bóta, því þannig fái brotaþolar heimilisofbeldis markvissari aðstoð og jafnvel fyrr og frekar en ella.

MRSÍ telur framangreint ekki síst mikilvægt með tilliti til kvenna í viðkvæmri stöðu. Til dæmis sýna rannsóknir svo ekki er um villst að fatlaðar konur eru berskjaldaðri fyrir heimilisofbeldi og annars konar ofbeldi en ófatlaðar og því er mikilvægt að horfa sérstaklega til þarfa þeirra. Stuðningsaðilar sem vinna með þolendum ofbeldis svo sem Stígamót og Kvennaathvarf og aðrir samstarfsaðilar að baki Bjarkarhlíð, móttökumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, styðja jafnt við fatlaðar konur sem búa við ofbeldi og ófatlaðar en nauðsynlegt er að tryggja aðgengi og fullnægjandi þekkingu á aðstæðum fatlaðs fólks og þörfum. Fatlaðar konur eru t.d. oft háðar þeim sem beitir þær ofbeldi um stuðning við margar athafnir daglegs lífs og því mjög erfitt fyrir þær að sporna við ofbeldinu eða leita sér aðstoðar. Þá á fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu oft erfitt með að greina hvenær um ofbeldi er að ræða, hvað er eðlilegt og hvað óeðlilegt í nánum samböndum. Oft þarf að beita sérstakri nálgun þegar fatlaðar konur eiga í hlut, og mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hafa tiltæka ferla til að gera það. 

Þá bendir MRSÍ á stöðu erlendra kvenna. Félagsleg einangrun, skortur á tengslaneti, röng upplýsingagjöf og vanþekking þeirra á íslensku samfélagi og lagaumhverfi gerir stöðu þeirra í flestum tilvikum mun veikari en stöðu innlendra kvenna. Þá eru þær oft háðar þeim sem beitir þær ofbeldi á einhvern hátt, s.s. fjárhagslega og varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu o.fl.

Loks skal minnt á lög nr. 19/2013, um Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem mæla m.a. fyrir um það að ætíð skuli hafa það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi. Börn sem upplifa heimilisofbeldi, hvort sem þau verða fyrir því sjálf eða ekki, verða fyrir alvarlegum og oftast varanlegum áhrifum þess vegna. Aukin upplýsingamiðlun, samræmdar aðgerðir, snemmtæk íhlutun og samvinna leiða án vafa til betri niðurstöðu í heimilisofbeldismálum og verður þar með til að bæta hag allra sem við slíkt ofbeldi búa.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16