Umsögn MRSÍ um frumvörp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði og breytingu á lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði

Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) hvetur til lögleiðingar framangreindra frumvarpa. Gerir skrifstofan engar athugasemdir við 20.  og 21. mál en hefur eftirfarandi fram að færa varðandi mál nr. 22:

Með frumvarpi þessu er í fyrsta sinn lagður grunnur að lagaramma varðandi málefni barna með ódæmigerð kyneinkenni auk eflingar eftirlits og kæruheimild vegna vanefnda.

MRSÍ minnir á ákvæði 7. og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Íslandi fullgilti á árinu 2016. Fyrrnefnda ákvæðið fjallar um fötluð börn og hið síðarnefnda um réttarstöðu til jafns við aðra. Því hvetur MRSÍ til þess að tryggt verði fullt tillit til réttar fatlaðra barna til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn. Loks skal þeim veitt aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að þau geti nýtt sér þennan rétt. 

Þá hvetur MRSÍ til þess að tekið verði tillit til ólíks menningarbakgrunns og menningarmunar í tilviki innflytjendabarna með ódæmigerð kyneinkenni og þeim að sama skapi veitt sú aðstoð sem þarf til að þau geti nýtt sér rétt sinn sbr. framangreint. Fagnar skrifstofan ákvæði 7. gr. frumvarpsins varðandi stofnun teymis um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og treystir því að slíkt teymi muni skipa einstaklinga með þverfaglega þekkingu.

MRSÍ gerir athugasemd við að tveir hópar barna með ódæmigerð kyneinkenni skuli undanskildir þeirri lagalegu vernd sem frumvarpið áskilur, þ.e. börn með hypospadias og micro-penis. Þrátt fyrir almennan áskilnað í frumvarpinu að inngrip sem séu eingöngu útlitsleg, félagsleg og sálfélagsleg,  ekki gerð í samræmi við vilja barnsins eða þróun kynvitundar þess og hafi ekki endilega hagsmuni barnsins að leiðarljósi verði óheimil, eru slík inngrip þó leyfð ef um sé að ræða ung börn með framangreind ódæmigerð kyneinkenni.

MRSÍ hvetur til þess að undantekning þessi verði felld burt. Intersex Ísland hefur bent á að til eru meðferðir sem geta normgert kynfæri barna með hypospadias og micro-penis þegar þau hafa náð aldri til að tjá sig um vilja sinn til inngripsins, kynvitund þeirra hefur verið staðfest og ljóst er að það þjóni hagsmunum barnsins að framkvæma inngripið. Því ætti almennt ekki að vera ástæða til að grípa inn á fyrri stigum, ef skilyrði þau er að framan greinir eru ekki uppfyllt.

Loks fagnar skrifstofan ákvæði til bráðabirgða í 11. gr. frumvarps um málefni barna með ódæmigerð kyneinkenni varðandi endurskoðun ákvæðis 11. gr. a innan þriggja ára. Vænta má að sú reynsla og þekking sem þá hefur safnast gefi tilefni til breytinga og mikilvægt að nýta þá vinnu sem þá hefur fram farið sem best. Telur skrifstofan ákvæði þetta einkum brýnt verði engar breytingar gerðar á frumvarpinu hvað börn með hypospadias og micro-penis varðar.

Umsögnina í heild sinni má finna hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16