Umsögn MRSÍ um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála

Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist framangreint frumvarp til umsagnar. Styður skrifstofan frumvarpið en hefur eftirfarandi athugsemdir fram að færa:

1.
Í 4. gr. frumvarpsins eru verkefni Jafnréttisstofu talin upp í liðum a-l. Mörg þessara verkefna eru afar umfangsmikil og kalla á mikla sérþekkingu, t.d. hvað varðar upplýsingaöflun, fræðslu og forvarna- og eftirlitsstarf.  Í ljósi þess hve mörg verkefni hafa bæst við störf skrifstofunnar með lögum nr. 85/2018 og nr. 86/2018 og nú einnig nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna telur MRSÍ augljóst að auka verði á fjármagn til skrifstofunnar og mannafla með sérþekkingu á málefnum þeirra hópa sem heyra undir þá mismununarlöggjöf sem Jafnréttisstofu er ætlað eftirlit með. Fá kærumál berast Jafnréttisstofu, því vantar peninga og fólk til að kynna löggjöfina, fylgja ábendingum eftir, skoða aðstæður og kalla eftir gögnum svo dæmi séu nefnd. Hvetur MRSÍ því til að til þessa verði litið við ákvörðun fjárframlaga til skrifstofunnar.

2.
Í 7. gr. frumvarpsins segir að ráðherra skipi kærunefnd jafnréttismála samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar og að í nefndinni skuli sitja að minnsta kosti tveir fulltrúar með sérþekkingu á sviði jafnréttismála. MRSÍ fagnar skilyrðum um sérþekkingu og bendir á að ekki nægir að nefndarmenn afli sér sérþekkingar með setu í nefndinni heldur verður sú þekking að vera til staðar þegar skipað er í nefndina.

3.
Í 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir að ef kæra sé bersýnilega tilefnislaus að mati kærunefndar jafnréttismála geti nefndin úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins. MRSÍ veltir fyrir sér þörfinni á þessu ákvæði, í hlutverki kærunefndar hlýtur að felast að meta áður en kæra er tekin til umfjöllunar hvort hún sé tilefnislaus eða ekki. Ákvæði sem þetta veikir jafnvel stöðu þeirra sem telja á sér brotið, hætt er á að þeir veigri sér við því að kæra til nefndarinnar af ótta við fjártjón komist nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran sé tilefnislaus.

4.
Í 9. gr. frumvarpsins segir að erindi skuli berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir og að  málsmeðferð fyrir nefndinni skuli að jafnaði vera skrifleg en þó geti nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund telji nefndin ástæðu til.  MRSÍ veltir í þessu sambandi fyrir sér aðgengi þeirra sem ekki kunna íslensku eða Norðurlandamál að kærunefndinni. Í ljósi þeirrar löggjafar sem undir úrskurðarsvið nefndarinnar falla má jafnvel telja ástæðu til að nefndin taki við kærum á fleiri tungumálum. MRSÍ berast reglulega erindi frá innflytjendum sem kært hafa til ýmissa stjórnsýslunefnda og fengið þau svör að erindi, greinargerðir og gögn þurfi að vera á íslensku.

Mikilvægt að hafa í huga að þeir íbúar landsins sem ekki kunna íslensku hafa veikari stöðu þar sem aðgengi þeirra að upplýsingum og þjónustu er takmarkað. Krafan um skriflega kæru getur verið íþyngjandi og jafnvel útlokað fólk frá því að leita réttar síns ef ekki liggur fyrir með hvaða hætti eigi að tryggja fólki aðgengi að þessari kæruleið.

5.
Í 11. gr. frumvarpsins segir að hvorki nafn kæranda né annarra einstaklinga skuli birt í úrskurðum kærunefndarinnar og að fella skuli út persónuupplýsingar svo sem um launakjör. MRSÍ fagnar þessu en þar sem nafn kærða er birt mætti jafnvel sjá fyrir einhver tilvik þar sem bera mætti kennsl á kæranda. Mikilvægt er að birting úrskurða sé með þeim hætti að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar og því hvetur MRSÍ til þess að skýrt verði kveðið á um að þess sé gætt.

6.
Loks minnir MRSÍ á ákvæði 2. mgr. 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveður á um skyldu aðildarríkja til að koma á fót einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að greiða fyrir, vernda og fylgjast með framkvæmd samningsins. Skulu aðildarríkin við uppsetningu slíks kerfis/slíkra kerfa taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda. Því liggur beinast við að koma á fót sjálfstæðri, innlendri mannréttindastofnun sé slík stofnun ekki þegar fyrir hendi.   Frá stofnun MRSÍ hefur skrifstofan leitast við að starfa samkvæmt Parísarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæðar, innlendar mannréttindastofnanir og hefur ítrekað boðið fram þekkingu sína og reynslu til afnota við stofnun og rekstur slíkrar stofnunar hér á landi. Ítrekar MRSÍ erindi sitt og hvetur til þess að stjórnvöld setji á stofn sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun svo fljótt sem verða má.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16