Umsögn MRSÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála (málskot í meiðyrðamálum)

Efni: Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála (málskot í meiðyrðamálum), þskj. 101, 100. mál.

Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist framangreint frumvarp til umsagnar. Styður skrifstofan frumvarpið heils hugar enda er í greinargerð gerð góð grein fyrir hvers vegna ekki þurfi að uppfylla skilyrði 1.-4. mgr. 152. laga um meðferð einkamála um áfrýjunarfjárhæð til þess að tryggja að stefnandi og stefndi hafi í meiðyrðamálum jafnan rétt til að fá úrlausn endurskoðaða af æðra dómstigi. Ganga verði úr skugga um að báðir aðilar hafi jafnan rétt til áfrýjunar án þess að þurfa að sækja um áfrýjunarleyfi, ríkjandi ástand stuðli ekki að jöfnum aðgangi að áfrýjun til æðra dómstigs. Með breytingu þessari verði jafnræði aðila í slíkum málum tryggt fyrir dómstólum enda snerti slík mál ávallt mikilvæg réttindi einstaklinga.

Í greinargerð með frumvarpinu er og vísað til meginreglu íslensks réttarfars um jafnræði málsaðila, sem gerir ráð fyrir að málsaðilar njóti sömu aðstöðu við rekstur máls, án nokkurrar mismununar. Þá er og m.a. vísað til þess að regla þessi endurspeglist í þeim mannréttindaákvæðum sem gilda um réttláta málsmeðferð, s.s. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og hliðstæðu hennar í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Loks er í frumvarpinu vísað til þess að sú staðreynd að auðveldara er að áfrýja úrlausnum dómstóla í meiðyrðamálum þegar sýknað er fyrir ærumeiðingar, frekar en þegar sakfellt er, leiði til ójafnvægis og geti bjagað niðurstöðu dómstóla. Það að einungis annar aðili hafi möguleika á áfrýjun, eftir því hver niðurstaðan sé, búi til skekkju í dómaframkvæmd sem geti haft neikvæð áhrif á tjáningarfrelsið. Afar mikilvægt sé að bregðast við þeirri stöðu og lagfæra þennan ágalla á réttarfarslögum.

MRSÍ tekur undir tilvitnuð orð og hvetur til lögleiðingar frumvarpsins.

Umsögnina í heild má finna hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16