Ríkisstjórnin hefur samþykkt að láta gera aðgerðaráætlun gegn mansali (Mbl 11. des. 2007)

Þolendur mansals fái hjálp

AÐGERÐAÁÆTLUN gegn mansali verður unnin á næstunni en ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu félags- og dómsmálaráðherra þess efnis. Um er að ræða fyrstu áætlunina af þessu tagi hér á landi, en hin Norðurlöndin hafa öll útbúið slíkar áætlanir. Að sögn Hrannars B. Arnarssonar, aðstoðarmanns Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, sér sérstakur samráðshópur um gerð áætlunarinnar, en gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin í apríl í vor. Félagsmálaráðuneytið muni halda utan um málaflokkinn sem hafi verið hjá dómsmálaráðuneytinu undanfarið. Þar hafi verið unnið að því að yfirfara lög og alþjóðlega samninga sem Ísland eigi aðild að og tengjast þessum málum. Hann segir að samráðshópurinn muni fara yfir ýmis mál tengd mansali. Skoðað verði hvernig hægt sé að efla aðila sem tengist málaflokknum, svo sem heilsugæsluna, lögregluna, tollgæsluna og fleiri, til þess að bera kennsl á þolendur mansals. „Annar þáttur og sennilega sá viðamesti er að skoða hvernig eigi að aðstoða þolendur mansals,“ segir Hrannar Björn. Hjálpa verði þeim svo þeir treysti sér út úr þeim vítahring sem mansal sé, hvort sem viðkomandi óskar eftir því að setjast að hér á landi eða snúa aftur heim. Fulltrúar 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi, sem lauk í gær, afhentu félags- og dómsmálaráðherra tillögur sem hópurinn hefur sett fram gegn mansali og undirskriftir um 1.700 manna, þar sem farið er fram á að aðgerðaáætlun verði gerð. Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir aðstandendur átaksins mjög ánægða með að ráðast eigi í gerð áætlunarinnar. „Við höfum kallað eftir þessu lengi,“ segir hún.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16