Kína og mannréttindi: Alþjóðlegar aðgerðir og tvíhliða viðræður. Fyrirlestur í Lögbergi, stofu 201, Háskóla Íslands 28. október kl: 12:00.

Umræður um Kína og mannréttindi hafa verið mjög í deiglunni síðan sumarið 1989, er kínversk stjórnvöld brugðust harkalega við mótmælaöldum sem gengið höfðu yfir landið. Fjölmörg ríki heims brugðust ókvæða við og staða mannréttinda innan Kína var tekin fyrir innan ramma Sameinuðu Þjóðanna. Í fyrirlestri sínum fer Helga Björk Jónsdóttir yfir sögu mannréttindaaðgerða gagnvart Kína síðan 1989 með áherslu á á aðgerðir einstakra ríkja og mannréttindaráðs SÞ. Einkum verður fjallað um reynslu Noregs og Bandaríkjanna af tvíhliða mannréttindaviðræðum við kínversk stjórnvöld síðan 1997 og ólík nálgun þessara tveggja ríkja borin saman. Markmiðið er að skoða hvað ríki geta gert til að bæta líkur þess að þau hafi jákvæð áhrif á mannréttindaþróun innan Kína.

Helga Björk Jónsdóttir lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið 2006. Þaðan hélt hún til Árósa til frekara náms. Hún var búsett í Kína árið 2008 þar sem hún var starfsnemi við Sendiráð Íslands í Peking. Hún lauk MA-gráðu í stjórnmálafræði með áherslu á málefni Asíu frá Háskólanum í Árósum sumarið 2009. Meistararitgerð hennar fjallaði um tilraunir smárra og stórra ríkja til að hafa jákvæð áhrif á þróun mannréttinda í Kína.

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós, í samvinnu við Kínversk íslenska menningarfélagið og Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, stendur fyrir fyrirlestraröð í tilefni 60 ára afmælis Kínverska alþýðulýðveldisins 1. október sl.

Þetta er fyrirlestur númer fjögur.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16