Birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga á vefsíðum dómstólanna

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur sent dómsmálaráðherra og Dómstólasýslunni samhljóða bréf þar sem bent er á að enn eru viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar birtar á vefsíðum dómstólanna. Skrifstofan skorar á Dómstólasýsluna að bæta úr svo að takmarka með það tjón sem þegar er nú orðið, fyrirbyggja frekara tjón og endurvekja traust einstaklinga sem til dómstóla þurfa að leita.

Hér á eftir er áskorunin í heild sinni:

Reykjavík, 22. október 2020.

 

Efni: Birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga á vefsíðum dómstólanna.

 

Á heimasíðum dómstóla má enn finna viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga, t.d. þolendur ofbeldis, heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám, börn í forsjármálum eða einstaklinga í skaðabótamálum o.fl. Að auki eru dómar birtir jafnóðum í gegnum síðu Fons Juris ehf., tugi ára aftur í tímann. Þá birtast enn dómar með afar viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum s.s. í málum brotaþola í kynferðisbrotamálum þ.á m. barna og fatlaðra.

Allir eiga að njóta friðhelgi einkalífs og eiga rétt á að gleymast á internetinu. Sömuleiðis er aðgangur að dómstólum stjórnarskrárvarinn og vanvirðandi meðferð bönnuð. Árið 2017 gerði Persónuvernd bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti að afmá viðkvæmar upplýsingar um einstakling í dómi sem birtur var á heimasíðu þeirra. Nýverið voru settar reglur um dómabirtingar sem eiga að taka á þessu, engu að síður hefur ekkert verið aðhafst til að stöðva dreifingu og afmá dóma sem innihalda viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar. Oft er um að ræða einstaklinga sem ekki eru aðilar mála, t.d. börn, og geta ekki vitað af þessum birtingum og því ekki brugðist við. Þá tilheyra þessir einstaklingar oft jaðarsettum hópum, sem þegar eiga á hættu að vera mismunað eða sæta aðkasti. Nefna má fatlað fólk og veikt, samkynhneigða, börn sem beitt hafa verið ofbeldi og búa við erfiðar félagslegar aðstæður, fólk af erlendum uppruna og sem tilheyrir ólíkum menningarheimum. Slíkar birtingar geta sett þá í enn erfiðari stöðu en áður, alið á fordómum og jafnvel stefnt réttindum þeirra og frelsi í hættu.

Nýleg dæmi eru um birtingu dóma þar sem, þrátt fyrir nafnleynd, mátti auðveldlega persónugreina brotaþola vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í dóminum. Slík persónugreining getur, auk þess að valda brotaþola óþarfa þjáningu og jafnvel hneisu, beinlínis verið honum hættuleg. Sem dæmi má nefna einstakling, sem kemur frá ólíku menningarsvæði og lifir lífi sínu á þann hátt sem fordæmdur er af hans samfélagi og menningarbakgrunni. Slíkur einstaklingur getur jafnvel í versta falli verið í lífshættu fái hans menningarumhverfi upplýsingar honum tengdar og því broti sem hann varð fyrir í hendur. Auk framangreindra grundvallarréttinda þarf hér sömuleiðis að horfa til sérstakra skuldbindinga íslenska ríkisins, til að mynda samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (Sþ), sem lögfestur hefur verið hér á landi, samningi Sþ um réttindi fatlaðs fólks og Samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl samningnum) og þeirra réttinda sem þessum skuldbindingum er ætlað að vernda.

Enginn á að þurfa að óttast það að fara með mál fyrir dómstóla af ótta við opinbera smánun. Mikilvægt er að fólk geti treyst dómstólum fyrir sínum málum og ekki síst málum þar sem það er berskjaldað þannig að aðgengi þess að dómstólum sé í raun öruggt. Þrátt fyrir úrskurði Persónuverndar, eins og áður greinir, og ítrekuð tilmæli stofnunarinnar þar að lútandi til dómstólanna hefur enn ekki verið bætt úr.

Mannréttindaskrifstofa Íslands skorar á Dómstólasýsluna að hlutast til um úrbætur sem allra fyrst svo að takmarka megi það tjón sem þegar er orðið, fyrirbyggja að frekara tjón verði og endurvekja traust einstaklinga sem til dómstóla þurfa að leita, svo þeir þurfi ekki að óttast að viðkvæmar upplýsingar um þá og þeirra hagi verði almenningi opinberar á internetinu.

 

Virðingarfyllst,

F.h. Mannréttindaskrifstofu Íslands

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16