Bann við mismunun

Jafnrétti er hornsteinn mannréttinda, sá grunnur sem viðhorf okkar og samfélag byggja á. Allir eru bornir frjálsir og jafnir og eiga kröfu á mannréttindum óháð kynþætti, litarafti, kynferði, trú/lífsskoðun, heilsufari, aldri, fötlun, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð, kyngervi, þjóðernisuppruna, félagslegri stöðu eða öðrum aðstæðum. Þótt þetta hljómi einfalt og sjálfsagt eru réttindi tiltekinna hópa brotin um allan heim; þekkingarleysi og fordómar gera það að verkum að sumum eru veitt forréttindi á meðan tækifæri annarra til að njóta gæða samfélagsins eru takmörkuð, t.d. vegna hefða, trúarlegra kennisetninga og staðalmynda.

Þótt margt hafi áunnist á Íslandi í jafnréttismálum, réttindi kvenna til að mynda aukin og samkynhneigðir hafi náð langt í sinni baráttu, þá eiga ýmsir samfélagshópar enn undir högg að sækja og geta ekki sótt rétt sinn telji þeir á sér brotið. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur um nokkurt skeið vakið athygli á því hversu ófullkomin íslensk jafnréttislöggjöf er þegar um er að tefla annars konar jafnrétti en kynjajafnrétti. Lögin eru afar brotakennd í samanburði við það sem kveðið er á um í Evrópurétti og þá löggjöf sem finna má í löndum sem Ísland ber sig helst saman við. 

Á Norðurlöndum er alls staðar að finna heildstæða jafnréttislöggjöf sem byggir m.a. á tilskipunum ESB um jafnrétti án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna (2000/43/EB), jafnrétti í atvinnulífi og starfi (2000/78/EB). Tilskipanir ESB kveða á um lágmarksréttindi en þær eru mikilvægur grunnur sem jafnréttislöggjöf í mestallri Evrópu byggir á. Í velferðarráðuneytinu fer nú fram vinna við innleiðingu framangreindra tilskipana. Verði þær innleiddar á fullnægjandi hátt má ætla að réttarstaða þeirra sem eiga undir högg að sækja vegna fyrrgreindra þátta batni til muna á Íslandi. 

Eitt þeirra rita um mannréttindi sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gefið út á síðustu árum er ritið Bann við mismunun. Fjallar það einkum um efni áðurnefndra tilskipana Evrópusambandsins og frumvarp að nýrri tilskipun um jafnrétti á víðum grunni. Tilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst að kynna tilskipanir ESB um jafnrétti og þá hugmyndafræði sem liggur þeim að baki. Rit af þessum toga eru nauðsyn því til þess að geta beitt sér í þágu jafnréttis er brýnt að fólk þekki rétt sinn og skyldur og viti hvað felst í banni við mismunun. 

Bann við mismunun er aðgengilegt á heimasíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands: www.humanrights.is og má einnig nálgast prentuð eintök á skrifstofunni að Túngötu 14. Ritið er ókeypis.

Greinin á vísir.is http://www.visir.is/bann-vid-mismunun/article/2012705109997


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16