Hugtakið mannréttindi

Oft er deilt um mannréttindi, hver þau séu í raun og veru og hvers eðlis, hvort þau séu öll jafn mikilvæg, hvort þau séu algild, þ.e. taki til heimsbyggðarinnar allrar, hversu langt skuli ganga í að tryggja þau með landslögum og alþjóðalögum og með hverjum hætti það skuli gert, hvort einstaklingum og ríkisstjórnum sé heimilt að skipta sér af mannréttindabrotum í öðrum löndum eða hvort það sé óhæfileg íhlutun í innanríkismál þeirra og svo framvegis.

Þar sem mannréttindi hafa verið fest í alþjóðasamninga - og víðast hvar einnig í landslög að einhverju marki - verður tilveru þeirra ekki neitað, en það kemur ekki í veg fyrir að menn deili um eðli þeirra og hlutverk. Þetta er eðlilegt því að þau eru svo víðtæk, þróun þeirra hefur verið ör og ótalmargt í þeim fremur óljóst. Sum er ætluð einstaklingum, önnur hópum manna. Sumum er hægt að fylgja eftir fyrir dómstólum og öðrum ekki. Sumum er ætlað að framfylgja þegar í stað, öðrum í áföngum eftir efnahagsástandi og þróun. Sum eru nánast stefnuyfirlýsingar eingöngu. Og þannig mætti áfram telja ýmislegt sem ýtir undir ágreining um mannréttindi og framkvæmd þeirra.

Enda þótt hugtakið mannréttindi sé ekki ýkja gamalt – það kom fyrst upp á 18. öld að talið er í skrifum breska rithöfundarins Thomasar Paine - á það sér eldfornar rætur í hugmyndum og vangaveltum spekinga víða um heim um eðli manna og samfélags, allt austur í Kína og Indlandi auk Grikklands, löngu fyrir Krist ( á 3. öld f. kr.). Rætur þess má finna í öllum helstu trúarbrögðum heims og kenningum um siðfræði og stjórnmál, allt frá Plato og Cicero fram til okkar tíma.

Hugtakið hefur frá öndverðu verið tengt skylduhugtakinu, hugmyndum um skyldur manna hver við annan sem kristallast kannski best í orðum Kains í Biblíunni: „Á ég að gæta bróður míns.“ Sumir hafa litið svo á að réttarhugtakið sé beint afsprengi skylduhugtaksins: „hin sannasta uppspretta réttinda er skyldan“, sagði Gandhi til dæmis. Með því að viðurkenna að menn hafi skyldur hver við annan er jafnframt viðurkennt að þeir eigi rétt á aðstoð hver annars. Við getum sagt sem svo, að þar sem réttur minn nær aðeins að nefi næsta manns, ber mér að virða hann og sjá til þess að hann njóti síns réttar engu síður en ég míns réttar.

Fræg er setning höfð eftir Voltaire sem sagði: „Ég fyrirlít skoðanir þínar en er reiðubúinn til að láta höfuðið fyrir rétt þinn til þess að hafa þær og halda þeim fram”. Lengra er líklega ekki hægt að ganga í skyldunni við náungann!

Í 1. mgr. 29. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um ákveðnar skyldur: „Hver maður hefur skyldur við samfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins”. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar fjallað er um mannréttindi, því einstaklingar geta ekki endalaust gert kröfur án þess að gera sér ljóst að þeir hafa líka skyldur.

En víkjum aðeins aftur að fortíðinni:
Ein af meginkenningunum um uppruna þjóðaréttarins var hin svokallaða náttúrulagakenning, sem gekk út á það í stuttu máli, að til væru viss réttindi sem ættu sér upphaf í æðri lögum en þeim sem mennirnir sjálfir settu. Þessi réttindi voru talin sameiginleg öllum mönnum hvar og hvenær sem væri, óháð stað og tíma og því giltu um þau sérstök algild náttúrulögmál.

Í upphafi leituðu menn uppruna mannréttinda í náttúruréttinum en á mismunandi forsendum. Sumir töldu þau stafa af guðlegu eðli og helgi manneskjunnar, eiginleikum, sem „Guð” hefði gætt „sköpunarverk sín” - aðrir slepptu guðlega þættinum og töldu þeirra að leita í því eðli mannanna að vera skynverur, gæddar tilfinningum, sameiginlegum þörfum og eiginleikum, hvar svo sem þeir væru niður komnir á jarðkringlunni. Samskipti manna lytu tilteknum lögmálum, sem ættu við alls staðar og við allar kringumstæður. Þar af leiddi að menn ættu allir tiltekin, sameiginleg réttindi, sem aldrei mætti af þeim taka.

Síðar var farið að halda því fram, að mannréttindi væru ekkert annað og meira en samkomulag manna um brýnustu reglur eða lögmál, sem hlytu að gilda í samfélagi þeirra til þess að þeir gætu lifað í sæmilegum friði og sátt hver við annan.

Vegna þess hve erfitt reyndist að sýna fram á algildi hugmynda náttúruréttarins, óx þeirri stefnu fylgi á 19. öld að hann fengi ekki staðist og ekki væri um önnur mannréttindi að ræða en þau sem ríkisvaldið ákvæði – þetta var hinn svokallaði „pósitivísmi” sem lagði alla áherslu á vald ríkis/þjóðhöfðingja/ríkisstjórna til lagasetningar og að einungis væri hægt að viðurkenna þau mannréttindi, sem löggjafi hvers ríkis hefði ákveðið að hægt væri að framfylgja fyrir dómstólum.

Hin siðlausa meðferð nasista og fasista á eigin landsmönnum í heimsstyrjöldinni síðari sýndi fram á að þessi skoðun fengi ekki staðist, að ekki væri hægt að treysta ríkisvaldinu til að vernda frelsi og réttindi þegna sinna. Það yrði að finna leiðir til að vernda þá gegn eigin ríkisvaldi.

Því var á ný farið að hallast að hugmyndum svipuðum þeim sem spruttu úr náttúruréttinum og niðurstaðan varð sú að viðurkenna meðfædda göfgi mannsins og að hver maður væri jafnborinn til virðingar og réttinda, sem eigi yrðu af honum tekin og að allir ættu rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Þessar hugmyndir koma einmitt fram í formálum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem og í samningunum tveimur sem gerðir voru á grundvelli hennar.

Þróun mannréttindaverndarinnar hefur síðan grundvallast á báðum þessum kenningum og reyndar ýmsum öðrum líka, sem einnig eiga sér djúpar rætur, svo sem hugmyndum um tiltekin sameiginleg megingildi í lífi allra manna og þarfir sem einstaklingar hafa hvarvetna og þar með rétt á að þær séu uppfylltar að einhverju marki, svo sem þörfina fyrir fæði, klæði og aðhlynningu, fræðslu, heilsu, hæfni, kærleika og réttsýni, velferð, virðingu og vald.

Þannig hafa menn lengi velt fyrir sér uppruna og eðli mannréttinda, svo og hvort þau séu einungis til þess að vernda einstaklinginn gegn afskiptum og valdbeitingu ríkisvaldsins eða hvort þeim fylgi önnur réttindi og siðferðisleg gildi eða sjónarmið, sem tengist gagnkvæmum skyldum einstaklinganna og breytni þeirra í mannlegu samfélagi.

Á þessum tveimur síðast töldu grundvallarsjónarmiðum byggist flokkun mannréttindanna í borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. 

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16