PROGRESS áætlunin - verkefni 2010

Styrkt verkefni MRSÍ árið 2010 voru fjölbreytt, til dæmis útgáfa bóka og bæklinga, úvarpsauglýsingaherferð, ráðstefnur og rannsóknir.

 

Bann-vid-mismunun-kapa-001Handbókin Bann við mismunun:

Mannréttindaskrifstofan gaf út handbókina Bann við mismunun, en tilgangur ritsins er að kynna tilskipanir ESB um jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú- og lífsskoðunum, aldri, fötlun og kynhneigð, og þá hugmyndafræði sem þar liggur að baki. Höfundur handbókarinnar er Guðrún Dögg Guðmundsdóttir og bókina má nálgast á skrifstofu MRSÍ og á pdf-formi hér.

 

Ráðstefna um jafnrétti og bann við mismunun

Í lok október var haldin alþjóðleg ráðstefna um jafnrétti og bann við mismunun undir heitinu Equality into Reality: Action for Diversity and Non-discrimination in Iceland. Ráðstefnan var haldin dagana 26. og 27. október á Þjóðminjasafni Íslands við góðar undirtektir þátttakenda, en meðal þeirra voru fulltrúar ýmissa hagsmunahópa, til dæmis Öryrkjabandalags Íslands og innflytjenda. Með ráðstefnunni var bundinn endahnútur á rannsóknarverkefni á vegum lagadeildar Háskóla Íslands en ráðstefnan var skipulögð í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þá vernd sem íslensk löggjöf veitir tilteknum hópum fólks sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir mismunun af ýmsu tagi. Til samanburðar var litið til reglna Evrópusambandsins um jafnrétti og bann við mismunun, sérstaklega kynþáttajafnréttistilskipunar nr. 2000/43/EB og rammatilskipunar um jafnrétti á vinnumarkaði nr. 2000/78/EB. Íslensku rannsakendurnir kynntu niðurstöður rannsóknarinnar ásamt því að erlendir sérfræðingar á sviði jafnréttislöggjafar Evrópusambandsins vörpuðu ljósi á helstu álitaefni sem uppi eru á því sviði.

Markmið ráðstefnunnar var að draga upp heildarmynd af vernd gegn mismunun í íslenskum rétti og stöðu jafnréttislöggjafar innan Evrópusambandsins.

Dagskráin var þétt báða dagana og í lok dags fóru einnig fram umræður um viðfangsefni dagsins. Fundarstjóri fyrri daginn var María Thejll en framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu sá um fundarstjórn seinni daginn og samantekt í lok ráðstefnunnar.


Réttur þinn – mikilvægar upplýsingar fyrir erlendar konur á Íslyour-rights-photoandi:

Jafnréttisstofa í samstarfi við MRSÍ, Stígamót og fleiri stofnanir og félagasamtök gaf út bækling með mikilvægum upplýsingum fyrir erlendar konur á Íslandi. Bæklingurinn ber nafnið Réttur þinn og er gefinn út á íslensku, ensku, pólsku, spænsku, taílensku, rússnesku og arabísku. 

Í honum má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi íslenskt samfélag og réttarkerfi. Upplýsingar um jafnrétti kynjanna, dvalarleyfi, hjónabönd, skilnað, forsjármál, umgengnismál, fjármál, ofbeldi í nánum samböndum og hótanir. Þar má einnig finna vísanir í frekari upplýsingar um aðstoð, svo sem símanúmer, heimilisföng og heimasíður ýmissa stofnanna og félagasamtaka.

Bæklinginn má nálgast á skrifstofu MRSÍ, Janfréttisstofu, heilsugæslustöðvum og þjónustumiðstöðum víðsvegar um land sem á rafrænu formi á vefsíðu Jafnréttisstofu hér.

 

Rammatilskipun Evrópusambandsins um jafnrétti á vinnumarkaði og tilskipun um kynþáttajafnrétti

Mannréttindaskrifstofa Íslands, í samstarfi við  Lögmannafélag Íslands, hélt námskeið ætlað lögfræðingum og dómurum um efnislegt inntak tilskipana Evrópusambandsins nr. 2000/78/EB og nr. 2000/43/EB. Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur lagt til að þessar tilskipanir verði innleiddar í íslenskan rétt.

Einnig var fjallað um réttarstöðuna og samhengi beggja tilskipananna að íslenskum rétti, og enn fremur um tillögu að tilskipun sem ætlað er að kveða á um jafnrétti á grundvelli trúarbragða, fötlunar, aldurs og kynhneigðar utan vinnumarkaðar.

Kennarar á námskeiðinu voru Dr. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, og Lynn Roseberry, deildarforseti lagadeildar við Lagastofnun Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn.

 

Auglýsingaherferð gegn mismunun

Í árslok lagði Mannréttindaskrifstofan í auglýsingaherferð gegn mismunun í samvinnu við Fíton auglýsingastofu. Gerðar voru sjö mismunandi útvarpsauglýsingar sem voru spilaðar á öllum helstu útvarpsstöðvum landsins frá 25. nóvember til 5. desember.

Auglýsingarnar líktust dæmigerðum lesnum auglýsingum á útvarpsmiðlum sem þjóðin treystir. Þulurinn las sakleysislegan texta sem kom á óvart í lokin og ögraði hlustendum, en innan marka þó. Þeim var ætlað að benda á fáránleika mismununar og sem dæmi um texta úr einni auglýsingunni má nefna þá sem fjallaði um mismunun á grundvelli kynferðis: Háseta vantar á bát. Háseta vantar á bát. Ertu hörkuduglegur. Ertu nokkuð kelling? Sæktu um á fjorufelag.is. Fjörufélagið – Sjávarútvegur í þína þágu.

Önnur auglýsing tók fyrir mismunun á grundvelli uppruna: Vegna sterkrar verkefnastöðu viljum bæta við okkur hæfu starfsfólki. Ef þú ert harðduglegur, tilbúinn í mikla vinnu og ekki hörundsdökkur eða neitt svoleiðis, þá hvetjum við þig til að sækja um. Stál og steypa.

Öllum auglýsingunum lauk á orðunum: Mismunun er staðreynd. Berjumst gegn henni og fögnum fjölbreytninni. Mannréttindaskrifstofa Íslands og Progress áætlunin.

 

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

21. mars er alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti og í tengslum við þá Gummybeardagsetningu er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í álfunni. Árið 2010 tóku 47 þjóðir í Evrópu þátt í átakinu gegn kynþáttamisrétti en samtök að nafni UNITED halda utan um Evrópuvikuna. Markmiðið með Evrópuvikunni hér á landi er að vinna gegn misrétti og fordómum í garð fólks af erlendum uppruna á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan heldur utan um verkefnið  hérlendis og undanfarin ár hafa skrifstofan og ýmis ungmennasamtök unnið saman að skipulagningu vikunnar. Áhersla er lögð á fræðslu fyrir ungmenni innan samtakanna og  vitundarvakningu í formi viðburða á opinberum stöðum, fyrir almenning í landinu.

Samstarfsaðilar Mannréttindaskrifstofu að þessu sinni voru Þjóðkirkjan, deildir Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæðinu, Soka Gakkai Íslandi og SEEDS sjálfboðasamtök.

Fyrir viðburðinn hélt Mannréttindaskrifstofan hönnunarsamkeppni um mynd/merki Evrópuvikunnar með áherslu á þema ársins, sem ákvarðað er af UNITED samtökunum og var Njótið fjölbreytninnar. Margar tillögur bárust en hlutskarpastur varð Pétur Guð2010_2mundsson, grafískur hönnuður. Útbúnir voru bolir fyrir unglingana og einnig bæklingar, kort og barmmerki til dreifingar, en sjálfboðaliðar frá SEEDS eiga þakkir skyldar fyrir óeigingjarnt starf við að setja merkin saman.

Fimmtudaginn 18. mars stóðu ofangreind samtök að viðburðum gegn kynþáttamisrétti á þremur stöðum á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu var viðburður haldinn í Smáralind og hófst hann á fjölbreyttri skemmtidagskrá.

Sirkus Íslandi var á staðnum og skemmti ungum jafnt sem öldnum með alls kyns kúnstum, Leifur Eiríksson breikari sýndi og kenndi breikdans við frábærar undirtektir ásamt tveimur breskum dönsurum, og nokkrar stúlkur á ve2010_1gum Kópavogsdeildar Rauða krossins sungu eigin útsetningu á hinu fræga lagi Johns Lennon, Imagine. Í Smáralind var líka boðið upp á fjölmenningar-„twister‟ og málverkagjörning. Unglingarnir gengu einnig um ganga verslunarklasans, buðu upp á fjölmenningarspjall og gáfu þeim sem þau hittu sælgæti og barmmerki.  

Á Akureyri mættust krakkar á Glerártorgi og kynntu fræðsluefni gegn mismunun fyrir vegfarendum á torginu ásamt því að sýna dans- og tónlistaratriði. Á Ísafirði komu unglingarnir saman í verslunarmiðstöðinni Neista og spjölluðu við vegfarendur um fordóma og mismunun.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16