Hafa mannréttindi áhrif á skilvirkni, gagnsæi starfshátta og ábyrgðarskyldu stjórnvalda?

Hugtakið stjórnvald felur í sér hina fjölmörgu starfsferla, stofnanir og framkvæmdir ríkisvaldsins. Hugmyndirnar um skilvirk stjórnvöld komust á kreik undir lok níunda áratugarins þegar almenningur byrjaði að efast um ágæti stjórnvalda og tilfinnanlegur skortur á virðingu mannréttinda hafði rutt sér til rúms.

Hugmyndirnar um skilvirkt ríkisvald og mannréttindi styrkja hvor aðra því báðar eru hugmyndirnar byggðar á grundvallaratriðum eins og þátttöku, ábyrgðarskyldu, gagnsæi og ríkisábyrgð.

Mannréttindi krefjast umhverfis sem einkennist af skipulagningu, stjórnun og framkvæmdamöguleikum. Það er sérstaklega mikilvægt að til staðar séu viðeigandi reglugerðir, stofnanir og starfshættir sem leggja ramma utan um starfsemi ríkisins. Mannréttindi setja ákveðinn mælikvarða á framkvæmdir og starfshætti ríkja og annarra stofnana og gera þau ábyrg fyrir hegðun sinni. Á sama tíma á stefnumótun skilvirks ríkisvalds að gera einstaklingum kleyft að njóta frelsis og mannlegrar reisnar.

Þrátt fyrir að mannréttindi færi einstaklingum og hópum kraft til þess að standa fyrir þeim réttindum sem alþjóðlegir mannréttindasamningar kveða á um þá geta mannréttindi aldrei verið virt eða vernduð að nægjanlegu marki ef skilvirkni, gagnsæi og ábyrgðarskylda stjórnvalda er ekki til staðar.

Auk viðeigandi laga þá þurfa stjórnmála-, stjórnunar- og stjórnsýsluferlar ásamt stofnunum að vera í stakk búin til þess að bregðast við þörfum og réttindum þeirra einstaklinga sem í samfélaginu búa. Ekki er hægt að fella skilvirk stjórnvöld inn í ákveðið, fastmótað form því stjórnsýslustofnanir og starfshættir þróast eftir því sem árin líða og samfélög þróast.

Mannréttindi styrkja skilvirkni, gagnsæi og ábyrgðarskyldu stjórnvalda. Mannréttindi krefjast þess að mannréttindasamningar nái fram að ganga inn í löggjöf ríkja, stefnumótun stjórnvalda og framkvæmd. Þau krefjast þess einnig að réttaröryggis sé gætt og að stjórnvöld geri sér grein fyrir því að trúverðugleiki lýðræðis byggist á  viðbrögðum þess við efnahagslegum, stjórnmálalegum og félagslegum kröfum almennings. Auk þess þurfa stjórnvöld að gera sér grein fyrir því að þau hafa áhrif á nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar, sérstaklega þær sem tengjast jafnrétti kynjanna og jafnrétti kynþátta, og þau þurfa að efna til þátttöku almennings í stjórnmálum og efla almenna þekkingu samfélagsmála. Ef trúverðugleiki lýðræðis á að viðhaldast er einnig mikilvægt að stjórnvöld vinni staðfastlega gegn spillingu og ofbeldisfullum átökum.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16