Umsögn MRSÍ um tillögu til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi

Efni: Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um tillögu til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi, þskj. 257, 239. mál.

Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) styður ofangreinda tillögu til þingsályktunar þess efnis að  heilbrigðisráðherra verði falið að tryggja það að einstaklingar, sem ekki mega gangast undir þungunarrof í sínu heimalandi vegna hindrana og ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Jafnframt áskilur tillagan að þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfylli skilyrði í lögum um þungunarrof, nr. 43/2019. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.

Um allan heim eiga réttindi kvenna undir högg að sækja, einnig í Evrópu. Í mörgum ríkja heims er réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama ýmist fyrir borð borinn eða verulega skertur. Þó staðan sé önnur á Íslandi er ljóst að réttindi kvenna um allan heim eru samofin, aðför að réttindum kvenna í einu landi hefur áhrif út á við og grefur undan réttindum kvenna alls staðar.

Ísland hefur um árabil verið metið það land þar sem staða kvenna og jafnrétti kynjanna í heiminum er hvað mest. Mega Íslendingar vera stoltir af þeim árangri og má jafnvel líta á Ísland sem leiðandi ríki á sviði kvenréttinda og kvenfrelsis. Verði ofangreind tillaga til þingsályktunar samþykkt hefur Ísland tekið mikilvægt skref í þá átt að bæta stöðu kvenna og hafa áhrif sem skila sér til alþjóðasamfélagins.

Umsögnina í heild má finna hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16