Skorað á íslensk stjórnvöld á alþjóðadegi flóttamanna

Alþjóðadagur flóttamanna er í dag, 20. júní og af því tilefni skorar Mannréttindaskrifstofa Íslands á íslensk stjórnvöld að gerast aðili að samningum Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangslausa, samningi um að draga úr ríkisfangsleysi og samningi um réttarstöðu fólks án ríkisfangs. Bæði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannastofnunin hafa hvatt ríki til að gerast aðilar að samningunum en flest Vestur-Evrópulönd hafa átt aðild að þeim um áratuga skeið.

„Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um á um rétt manna til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum," segir í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. „Mannréttindayfirlýsingin kveður einnig á um rétt allra manna til ríkisfangs en í því er fólginn lagalegur réttur til að njóta gæða samfélagsins og taka þátt í skipan þess. Þessi réttindi eru nátengd því fólk sem ekki nýtur verndar stjórnvalda í heimalandi sínu er oft án ríkisfangs; það að öllum sé tryggt ríkisfang er einn grunnþátta í vernd minnihlutahópa og annarra hópa sem eiga undir högg að sækja. Með því að vinna gegn ríkisfangsleysi og aðstoða fólk sem er án ríkisfangs er stuðlað að stöðugleika á viðkomandi svæði og þannig jafnvel unnt að koma í veg fyrir ástand sem leiðir til þess að fólk neyðist til að leggja á flótta."

Ísland er aðili að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem gefur fólki sem ekki nýtur verndar gegn ofsóknum í eigin landi kost á því að leita skjóls hjá öðrum þjóðum. Ísland á einnig aðild að Evrópusamningi um ríkisfang sem kveður á um réttindi og skyldur varðandi ríkisfang. Ísland er hins vegar eina Norðurlandið sem hvorki hefur gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi né samningi um réttarstöðu fólks án ríkisfangs, að því er segir í tilkynningunni frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Greinina má skoða á vísir.is hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16