Samningur um réttindi fatlaðra samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

í dag samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna nýjan alþjóðasamning um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er fyrsti mannréttindasáttmálinn sem saminn er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á 21. öldinni og markar hann tímamót í réttindabaráttu þeirra 650 milljóna manna sem búa við fötlun í heiminum.

Tilgangur samnings er að efla mannréttindi og persónufrelsi fatlaðs fólks og stuðla að virðingu fyrir manngildi þeirra. Þótt réttindi fatlaðra séu víða tryggð formlega er reyndin sú að fötluðu fólki er oft ýtt út á jaðar samfélagsins og því mismunað á flestum sviðum mannlífsins. Fatlað fólk hefur takamarkaðan aðgang að atvinnulífinu, menntakerfinu og heilbrigðisþjónustu og á erfitt um vik að sækja rétt sinn.

Hinum nýja samningi er ætlað að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks í reynd. Samningurinn var unninn í nánu samstarfi við fatlaða og hagsmunasamtök þeirra og grundvallast á virðingu fyrir persónufrelsi einstaklingsins, banni við mismunun, þátttöku, aðgengi, virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins og jafnrétti kynjanna. Samningurinn kveður, í 50 greinum, á um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengi og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, rétt til menntunar og heilbrigðisþjónustu, atvinnuréttindi, félagslega þjónustu o.fl. en jafnframt er viðurkennt að viðhorfsbreyting sé nauðsynleg til þess að fatlaðir njóti sömu réttinda og aðrir. Samkvæmt samningnum mun sérfræðinganefnd hafa eftirlit með því hvernig ríki uppfylla skyldur sínar. Valfrjáls bókun kveður á um kæruleið fyrir einstaklinga.

Ríki sem gerast aðilar að samningnum undirgangast að bæta lífskjör fatlaðs fólks með viðeigandi ráðstöfunum þ. á m. með lagasetningu og fræðslu gegn staðalmyndum og fordómum ásamt fræðslu um getu fatlaðra og mikilvægt framlag þeirra til samfélagsins. Fátækum ríkjum er ekki skylt að grípa til  kostnaðarsamra aðgerða heldur ber að vinna í áföngum að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að samgöngum, menntun, atvinnulífi og tómstundastarfi.

Á Íslandi er sérstaklega fjallað um réttindi fatlaðra í lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Formlega er lagaleg staða fatlaðs fólks nokkuð góð en í reynd fer því fjarri að réttindi fatlaðra séu virt sem skyldi. Skýrslur Stefáns Ólafssonar og Tryggva Þórs Herbertssonar, ásamt Málefnaskrá Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Landssambands eldri borgara frá í apríl eru áfellisdómur yfir íslensku samfélagi. Íslendingar, sem eru meðal efnuðustu þjóða heims, láta það viðgangast að fatlað fólk búi við fátæktarmörk og mismunun; við sem ættum öðrum þjóðum fremur að geta tryggt fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna.

Ljóst er að gera þarf gangskör að því að efla mannréttindi fatlaðra hér á landi og þar verður hinn nýi samningur Sameinuðu þjóðanna þarft leiðarhnoða. Íslendingar ættu að gerast aðilar að samningnum hið fyrsta og vinna markvisst að endurbótum á velferðarþjónustu og almannatryggingakerfinu til að raungera réttindin sem í honum eru tryggð, í samráði við fatlaða, aðstandendur þeirra og samtök.  Þá væri sómi að því ef íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir framgangi samningsins á alþjóðlegum vettvangi svo hann öðlist sem fyrst gildi og fatlað fólk um allan heim geti beitt honum til að krefjast bættra lífskjara.   


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16