Mannréttindaskrifstofa vill rannsókn á fangaflugi

Mannréttindaskrifstofa Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af fréttum um að flugvélar sem notaðar eru til leynilegra fangaflutninga hafi farið um íslenska lofthelgi og haft Ísland sem viðkomustað á leið sinni til landa þar sem pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Hið algera bann við pyndingum og illri meðferð í þjóðarétti felur einnig í sér algert bann við að flytja fanga til ríkis þar sem hætta er á að hann verði pyndaður eða látinn sæta grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð.

Mannréttindaskrifstofa fer fram á að tafarlaust verði hafin opinber rannsókn á þeim alvarlegu atburðum sem staðhæft er að orðið hafi í íslenskri lögsögu og niðurstöður hennar verði gerðar opinberar. Mannréttindaskrifstofa Íslands skorar á stjórnvöld að uppfylla skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamþykktum og girða fyrir að erlendir aðilar geti flutt fanga um íslenskt forráðasvæði til staða þar sem hætt er við að mannréttindi verði á þeim brotin. Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetur ennfremur stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að mannréttindi séu ekki fyrir borð borin í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Aðalfundur Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar á Alþingi að tryggja skrifstofunni rekstrarfé á fjárlögum næsta árs. Fundurinn vill ítreka mikilvægi þess að hér á landi starfi öflug og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum á heildstæðan hátt. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin tíu ár og það væri mikill skaði fyrir framgang mannréttindastarfs ef sú yrði raunin að skrifstofan þyrfti að hætta starfsemi sinni vegna fjárskorts. Aðalfundur Mannréttindaskrifstofa Íslands skorar einnig á hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að framlag til Mannréttindaskrifstofunnar verði fast á fjárlögum.

 

Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/mannrettindaskrifstofa-vill-rannsokn-a-fangaflugi/article/200551118055


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16