Dæmi um börn sem standa utan kerfisins

Að minnsta kosti þrjú dæmi hafa komið upp á Íslandi síðustu misseri þar sem börn hafa ekki verið skráð inn í kerfið og hafa ekki kennitölu. Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, segir í raun hendingu að þessi börn hafi fundist, t.d. þegar einhver fór að spyrjast fyrir um hvers vegna þau væru ekki í skóla.

„Við erum með víðtækt kerfi til að vernda börn, til að mennta börn og tryggja heilbrigði þeirra, en ef þú ert ekki hluti af kerfinu þá nýturðu engrar þeirra verndar sem kerfið felur í sér," segir Stefán. UNICEF, Barnaheill á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa sent nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins skýrslu um stöðu barna á Íslandi með tilliti til ákvæða Barnasáttmála SÞ.

Mat samtakanna er að sárlega skorti heildarstefnu í málefnum barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Stefán segir vanda óskráðu barnanna m.a. mega rekja til þessa. „Það er eitthvað af krökkum sem ekki eru skráðir í kerfið og það þarf að huga sérstaklega að þeim. Er gerð kerfisbundinn leit að þeim? Erum við að athuga þetta?" Til dæmis geti verið um að ræða börn innflytjenda sem sjálfir séu ekki skráðir inn í kerfið eða þá að börnin hafi verið ættleidd inna fjölskyldu, jafnvel gefin af foreldrum til ættingja, án þess að lögformlega hafi verið gengið frá málinu.

Staða þessara barna geti verið mjög misjöfn, en hættan sé m.a. sú að á meðan ekki sé stoppað í þetta gat í kerfinu geti t.d. mansal barna átt sér stað. „Það hefur verið gerð aðgerðaráætlun um ofbeldi og mansal, en það þyrfti að horfa sérstaklega til barna og ungmenna undir 18 ára með tilliti til mansal,“ segir Stefán. Hvorki ættleiðingalög né mansalslög taki til slíkra atvika.

UNICEF bendir einnig á að forvarnir gegn kynferðislegri misnotkun barna séu takmarkaðar hér á landi og gagnrýnivert að þær séu nær eingöngu í höndum frjálsra félagasamtaka, oft án styrkja frá ríkinu, ólíkt forvörnum gegn t.d. áfengi og reykingum. 

Ein helsta niðurstaða í skuggaskýrslu samtakanna þriggja er því að þótt stjórnvöld hafi gert aðgerðaráætlanir, bæði um barnavernd og um aðgerðir til að bæta stöðu barna, þá hefur aðeins lítill hluti þessara áætlana komist til framkvæmdar. „Þar eru ýmis atriði og aðgerðir sem átti að fara í sem hefðu verið mjög til bóta, en hinsvegar hefur þeim ekki verið hrint í framkvæmd og við hvetjum stjórnvöld til að gera það,“ segir Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

 

Fréttin á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/04/05/daemi_um_born_sem_standa_utan_kerfisins/


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16