Samningur um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði: samningur um mannréttindi og líflæknisfræði

Oviedo, 4. IV. 1997 - Safn Evrópusamninga/164
Þýðing þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.


Inngangsorð

Aðildarríki Evrópuráðsins, önnur ríki og Evrópubandalagið, sem hafa undirritað samning þennan,

hafa í huga almennu mannréttindayfirlýsinguna sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 10. desember 1948,

hafa í huga sáttmála um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950,

hafa í huga félagsmálasáttmála Evrópu frá 18. október 1961,

hafa í huga alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 16. desember 1966,

hafa í huga samning um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga frá 28. janúar 1981,

hafa einnig í huga samning um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989,

hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu meðal aðildarríkjanna, og að ein leiðin að þessu markmiði er að viðhalda og styrkja jafnt mannréttindi sem mannfrelsi,

gera sér grein fyrir hraðri þróun í líffræði og læknisfræði,

eru þess fullviss að nauðsynlegt sé að virða manninn bæði sem einstakling og sem hluta mannkyns, og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tryggja reisn hans,

gera sér grein fyrir að misnotkun líffræði og læknisfræði getur stefnt mannlegri reisn í hættu,

staðhæfa að framfarir í líffræði og læknisfræði ber að nýta núlifandi og komandi kynslóðum til hagsbóta,

leggja áherslu á nauðsyn alþjóðasamstarfs í þeim tilgangi að láta allt mannkyn njóta góðs af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði,

viðurkenna að mikilvægt er að stuðla að opinberum umræðum um þau álitamál sem tengjast starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði og um svör við þeim álitamálum,

vilja minna alla þjóðfélagsþegna á réttindi sín og skyldur,

hafa hliðsjón af störfum þingsins á þessu sviði, meðal annars tilmælum 1160 (1991) um gerð samnings um lífsiðfræði,

hafa einsett sér að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að vernda mannlega reisn og grundvallarréttindi og mannfrelsi einstaklinga með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði, og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


I. kafli – Almenn ákvæði

1. gr. – Tilgangur og markmið
Aðilar að þessum samningi skulu vernda reisn og einstaklingseinkenni allra manna og tryggja öllum, án mismununar, að ekki sé gengið á friðhelgi þeirra eða önnur réttindi og mannfrelsi við störf á sviði líffræði og læknisfræði.
Hver samningsaðili skal taka í landslög þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að hrinda ákvæðum samningsins í framkvæmd.

2. gr. – Maðurinn í öndvegi
Taka skal hagsmuni og velferð manna fram yfir einbera hagsmuni samfélags eða vísinda.

3. gr. – Sanngjarn aðgangur að heilbrigðisþjónustu
Samningsaðilar skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja sanngjarnan aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu í lögsögu sinni, að teknu tilliti til þarfar á heilbrigðisþjónustu og fanga sem völ er á.

4. gr. – Starfsskyldur og siðareglur
Hvers kyns inngrip á sviði heilbrigðisþjónustu, að meðtöldum rannsóknum, skulu fara fram í samræmi við viðeigandi starfsskyldur og siðareglur.


II. kafli – Samþykki

5. gr. – Almenn regla
Inngrip á sviði heilbrigðisþjónustu er óheimilt nema sá sem á í hlut hafi veitt til þess frjálst og upplýst samþykki.
Sá hinn sami skal fá viðeigandi upplýsingar fyrir fram um tilgang og eðli inngripsins svo og afleiðingar þess og þá áhættu sem því fylgir.
Hlutaðeigandi getur dregið samþykki sitt til baka hvenær sem vera skal.

6. gr. – Vernd þeirra sem geta ekki veitt samþykki
1. Með fyrirvara um 17. og 20. gr. er því aðeins heimilt að beita inngripi gagnvart þeim, sem getur ekki veitt til þess samþykki, að það sé beinlínis í þágu hans sjálfs.
2. Þegar ólögráða ungmenni getur ekki, að lögum, veitt samþykki sitt fyrir inngripi er það aðeins heimilt að fengnu leyfi frá talsmanni þess, yfirvaldi eða öðrum einstaklingi eða stofnun sem kveðið er á um í lögum.
Sjónarmið hins ólögráða skulu látin vega þeim mun þyngra sem hann hefur náð hærri aldri og meiri þroska.
3. Þegar fullorðinn maður getur ekki, að lögum, veitt samþykki fyrir inngripi vegna andlegrar örorku, sjúkdóms eða af öðrum sambærilegum ástæðum, er það aðeins heimilt að fengnu leyfi frá talsmanni hans, yfirvaldi eða öðrum einstaklingi eða stofnun sem kveðið er á um í lögum.
Hlutaðeigandi skal látinn eiga hlut í ákvörðuninni eftir því sem við verður komið.
4. Talsmaður, yfirvald, einstaklingur eða stofnun, sem getið er í 2. og 3. mgr., skal fá þær upplýsingar sem um getur í 5. gr. með sömu skilyrðum og þar eru sett.
5. Heimild þá, sem um getur í 2. og 3. mgr., má taka aftur hvenær sem vera skal með hagsmuni hlutaðeiganda að leiðarljósi.

7. gr. – Vernd þeirra sem þjást af geðtruflun
Ef maður þjáist af alvarlegri geðtruflun er því aðeins heimilt, án samþykkis hans, að beita inngripi gagnvart honum í þeim tilgangi að veita meðferð við geðtrufluninni, að hann eigi heilsutjón á hættu að öðrum kosti, með fyrirvara um verndarákvæði í lögum, meðal annars um umsjón, eftirlit og áfrýjunarleiðir.

8. gr. – Bráðatilvik
Ef ekki reynist unnt að leita viðeigandi samþykkis vegna bráðatilviks er heimilt að beita tafarlaust hverju því inngripi sem er nauðsynlegt frá læknisfræðilegu sjónarmiði með heilsu hlutaðeiganda að leiðarljósi.

9. gr. – Óskir sem komið hafa fram áður
Þegar sjúklingur er ófær um að láta vilja sinn í ljós á þeirri stundu sem inngripi er beitt skal taka tillit til óska sem hann hefur sett fram áður í þeim efnum.


III. kafli – Einkalíf og réttur til upplýsinga

10. gr. – Einkalíf og réttur til upplýsinga
1. Sérhver á rétt á því að einkalíf hans sé verndað þegar upplýsingar um heilsufar hans eru annars vegar.
2. Sérhver á rétt á að kynna sér allar upplýsingar sem safnað er um heilsufar hans. Engu að síður skal virða óskir einstaklinga um að fá ekki slíkar upplýsingar.
3. Í undantekningartilvikum er heimilt, í þágu sjúklings, að setja í lög takmarkanir á réttindum þeim sem um getur í 2. mgr.


IV. kafli – Genamengi mannsins

11. gr. – Bann við mismunun
Óheimilt er að mismuna nokkrum manni á grundvelli erfðastofns.

12. gr. – Erfðafræðiprófanir með forsagnargildi
Óheimilt er að gera prófanir sem segja fyrir um arfgenga sjúkdóma eða gera kleift annað hvort að greina að maðurinn beri í sér gen sem veldur sjúkdómi eða að hann hafi erfðabundna hneigð eða næmi fyrir sjúkdómi, nema í lækningaskyni eða vegna vísindarannsókna í lækningaskyni, og með þeim fyrirvara að leitað sé viðeigandi erfðafræðiráðgjafar.

13. gr. – Breytingar á genamengi mannsins
Inngrip, sem hafa það að markmiði að breyta genamengi mannsins, eru eingöngu heimil í því skyni að fyrirbyggja, greina eða lækna sjúkdóma, og því aðeins að tilgangurinn sé ekki sá að kalla fram breytingar á genamengi afkomendanna.

14. gr. – Bann við að velja kyn
Óheimilt skal að nota læknisfræðilegar aðferðir, sem auðvelda getnað, í þeim tilgangi að velja kyn ófædds barns, nema í því skyni að sneiða hjá alvarlegum arfgengum og kynbundnum sjúkdómi.


V. kafli – Vísindarannsóknir

15. gr. – Almenn regla
Vísindarannsóknir á sviði líffræði og læknisfræði skulu vera frjálsar, með fyrirvara um ákvæði þessa samnings og önnur lagaákvæði sem mæla fyrir um vernd mannsins.

16. gr. – Vernd þeirra sem gangast undir rannsóknir
Rannsóknir á manni eru óheimilar nema eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
i -- ekki eru til aðferðir sem skila sambærilegum árangri og rannsóknir á mönnum;
ii -- áhættan, sem manninum kann að vera búin, er ekki óhæfilega mikil í samanburði við hugsanlegan hag af rannsóknunum;
iii -- lögbær yfirvöld hafa samþykkt rannsóknaverkefnið að undangenginni sjálfstæðri athugun á vísindalegu gildi þess, meðal annars mati á því hversu mikilvægur tilgangur þess er, og þverfaglegri athugun á því hvort það sé viðunandi frá siðferðilegu sjónarmiði;
iv -- sá sem gengst undir rannsóknirnar hefur fengið upplýsingar um rétt sinn og þá vernd sem lög mæla fyrir um;
v -- samþykkið, sem kveðið er á um í 5. gr., hefur verið veitt með óyggjandi, sértækum og skriflegum hætti. Heimilt er að draga slíkt samþykki til baka hvenær sem vera skal.

17. gr. – Vernd þeirra sem geta ekki veitt samþykki sitt til rannsókna
1. Rannsóknir á manni, sem getur ekki veitt samþykki sitt til þeirra í samræmi við 5. gr., eru óheimilar nema eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
i -- skilyrðunum sem sett eru í i- til iv-lið í 16. gr. er fullnægt;
ii --vænta má að niðurstöður rannsóknanna verði til að bæta heilsu hans í raun og með beinum hætti;
iii -- þess er ekki kostur að gera rannsóknir með sambærilegum árangri á þeim sem geta veitt til þeirra samþykki sitt;
iv -- heimildin, sem kveðið er á um í 6. gr., hefur verið veitt með sértækum og skriflegum hætti; og
v -- hlutaðeigandi hreyfir ekki andmælum.
2. Í undantekningartilvikum og með þeim verndarskilyrðum, sem lög mæla fyrir um, má heimila rannsóknir þótt ekki sé við því að búast að niðurstöður þeirra verði hlutaðeiganda til beinnar heilsubótar, enda sé þeim skilyrðum fullnægt, sem mælt er fyrir um í i-, iii-, iv- og v-lið 1. mgr. hér á undan, ásamt eftirtöldum viðbótarskilyrðum:
i -- markmið rannsóknanna er að auka verulega vísindalega þekkingu á ástandi hlutaðeiganda eða þeim sjúkdómi eða kvilla sem þjáir hann, með það fyrir augum að komast að lokum að niðurstöðum sem orðið geta til hagsbóta honum sjálfum eða öðrum í sama aldurshópi eða þeim sem þjást af sama sjúkdómi eða kvilla eða hafa
sömu einkenni;
ii -- rannsóknirnar hafa aðeins lágmarksáhættu og lágmarksálag í för með sér fyrir hlutaðeiganda.

18. gr. – Rannsóknir á fósturvísum í glasi
1, Ef lög heimila rannsóknir á fósturvísum í glasi skulu þau tryggja að fósturvísirinn sé verndaður með fullnægjandi hætti.
2. Óheimilt er að búa til mannlega fósturvísa til vísindarannsókna.


VI. kafli – Taka líffæra og vefja úr lifandi gjöfum til ígræðslu

19. gr. – Almenn regla
1. Óheimilt er að taka líffæri eða vefi úr lifandi gjafa til ígræðslu nema til þess að lækna líffæraþegann og þegar hvorki er tiltækt heppilegt líffæri eða vefur úr látnum manni né önnur lækningaaðferð sem skilar sambærilegum árangri.
2. Samþykkið, sem kveðið er á um í 5. gr., skal veitt með óyggjandi og sértækum hætti og annað hvort skriflega eða hjá opinberri stofnun.

20. gr. – Vernd þeirra sem geta ekki veitt samþykki sitt fyrir líffæratöku
1. Óheimilt er að taka líffæri eða vefi úr þeim sem getur ekki veitt samþykki fyrir því í samræmi við 5. gr.
2. Í undantekningartilvikum og með þeim skilyrðum, sem lög mæla fyrir um, má heimila töku endurnýjanlegra vefja úr þeim sem getur ekki veitt samþykki fyrir því, enda sé eftirtöldum skilyrðum fullnægt:
i -- ekki er tiltækur heppilegur gjafi sem gæti veitt samþykki;
ii -- þeginn er bróðir eða systir gjafans;
iii -- gjöfin verður að stuðla að því að bjarga lífi þegans;
iv -- heimildin, sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. 6. gr., hefur verið veitt með sértækum og skriflegum hætti, í samræmi við lög og með samþykki lögbærs yfirvalds;
v -- væntanlegur þegi hreyfir ekki andmælum.


VII. kafli – Bann við fjárhagslegum ávinningi og ráðstöfun líkamshluta af mönnum

21. gr. – Bann við fjárhagslegum ávinningi
Óheimilt er að hafa fjárhagslegan ávinning af mannslíkamanum og hlutum hans sem slíkum.

22. gr. – Ráðstöfun líkamshluta sem hafa verið fjarlægðir
Þegar líkamshluti manns er fjarlægður meðan inngrip stendur yfir er óheimilt að varðveita hann og ráðstafa honum í öðrum tilgangi en þeim sem taka hans helgaðist af, nema fylgt sé viðeigandi málsmeðferð við að upplýsa þann sem á í hlut og leita samþykkis hans.


VIII. kafli – Brot gegn ákvæðum samningsins

23. gr. – Brot gegn réttindum eða meginreglum
Samningsaðilar skulu tryggja að réttarvernd sé hæfilega mikil til þess að koma í veg fyrir ólögmæt brot gegn réttindum og meginreglum sem mælt er fyrir um í þessum samningi, eða stöðva þau með skömmum fyrirvara.

24. gr. – Bætur fyrir óréttlætanlegan skaða
Sá sem hefur orðið fyrir óréttlætanlegum skaða vegna inngrips á rétt á sanngjörnum bótum með þeim skilyrðum og samkvæmt þeirri málsmeðferð sem lög mæla fyrir um.

25. gr. – Viðurlög
Samningsaðilar skulu kveða á um hæfileg viðurlög sem beita skal við brot á ákvæðum þessa samnings.


IX. kafli. – Tengsl milli þessa samnings og annarra ákvæða

26. gr. – Takmarkanir við því að neyta réttinda
1. Óheimilt er að setja aðrar takmarkanir við því að neyta réttinda og verndarákvæða þessa samnings en þær sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar í lýðræðislegu samfélagi til að tryggja öryggi almennings, fyrirbyggja glæpi, vernda almannaheilbrigði eða vernda réttindi og frelsi annarra.
2. Óheimilt er að láta takmarkanir á borð við þær, sem um getur í síðustu málsgrein, gilda um 11., 13., 14., 16., 17., 19., 20. og 21. gr.

27. gr. – Víðtækari vernd
Ekkert ákvæði í þessum samningi skal túlkað svo að það takmarki eða hafi með öðrum hætti áhrif á þann kost samningsaðila að veita víðtækari vernd, með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði, en mælt er fyrir um í samningnum.


X. kafli – Opinberar umræður

28. gr. – Opinberar umræður
Samningsaðilar skulu gæta þess að grundvallarspurningar, sem vakna vegna þróunar í líffræði og læknisfræði, séu ræddar með viðeigandi hætti á opinberum vettvangi, einkum í ljósi þeirra áhrifa sem sú þróun hefur á sviði lækninga, félagsmála, efnahagsmála, siðferðis og réttar, og að leitað sé samráðs vegna hugsanlegrar starfsemi í þessum greinum.


XI. kafli – Túlkun samningsins og eftirfylgni

29. gr. – Túlkun samningsins
Mannréttindadómstóll Evrópu getur gefið ráðgjafarálit um lögfræðileg álitamál sem varða túlkun þessa samnings, án beinnar tilvísunar til tiltekinna dómsmála sem bíða úrskurðar, að beiðni:
– ríkisstjórnar einhvers samningsaðilanna, eftir að hafa tilkynnt það öðrum samningsaðilum;
– nefndarinnar sem sett er á fót með 32. gr., og skal hún þá eingöngu skipuð fulltrúum samningsaðila, með ákvörðun sem er tekin með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða.

30. gr. – Skýrslur um beitingu samningsins
Að beiðni framkvæmdastjóra Evrópuráðsins skal hver samningsaðili skýra með hvaða hætti landslög hans tryggja árangursríka framkvæmd allra ákvæða í þessum samningi.


XII. – Bókanir

31. gr. – Bókanir
Gera má bókanir í samræmi við ákvæði 32. gr. með það fyrir augum að móta meginreglurnar, sem samningur þessi geymir, á tilteknum sviðum.
Bókanirnar skulu lagðar fram til undirritunar af hálfu þeirra ríkja sem hafa undirritað þennan samning. Þær skulu fullgiltar, viðurkenndar eða samþykktar. Ríki, sem hefur undirritað samninginn, er óheimilt að fullgilda, viðurkenna eða samþykkja bókanirnar nema það fullgildi, viðurkenni eða samþykki samninginn sjálfan áður eða samtímis.


XIII. kafli – Breytingar á samningnum

32. gr. – Breytingar á samningnum
1. Framkvæmdanefnd um lífsiðfræði (CDBI), eða hver sú nefnd önnur sem ráðherranefndin tilnefnir, skal inna af hendi verkefni þau sem falin eru "nefndinni" í þessari grein og 29. gr.
2. Með fyrirvara um sérákvæði 29. gr. er hverju aðildarríki Evrópuráðsins og hverjum samningsaðila, sem á ekki aðild að Evrópuráðinu, heimilt að skipa fulltrúa í nefndina og ráða þar einu atkvæði þegar hún sinnir þeim verkefnum sem henni eru falin með þessum samningi.
3. Hvert það ríki, sem um getur í 33. gr. eða er boðið að gerast aðili að samningnum í samræmi við ákvæði 34. gr. en á ekki aðild að samningi þessum, getur skipað áheyrnarfulltrúa í nefndina. Ef Evrópubandalagið er ekki samningsaðili getur það skipað áheyrnarfulltrúa í nefndina.
4. Til þess að samningurinn fylgi vísindalegri þróun skal nefndin taka hann til athugunar eigi síðar en fimm árum eftir að hann öðlast gildi, og eftir það jafnoft og nefndin telur rétt.
5. Allar tillögur um breytingar á þessum samningi og allar tillögur um bókun eða breytingu á bókun, sem lagðar eru fram af hálfu samningsaðila, nefndarinnar eða ráðherranefndarinnar, skulu sendar framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og skal hann framsenda þær aðildarríkjum Evrópuráðsins, Evrópubandalaginu, öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn, öllum samningsaðilum, öllum ríkjum sem boðið hefur verið að undirrita samninginn í samræmi við ákvæði 33. gr. og öllum ríkjum sem boðið hefur verið að gerast aðilar að honum í samræmi við ákvæði 34. gr.
6. Nefndin skal fjalla um tillögurnar hið fyrsta tveimur mánuðum eftir að framkvæmdastjórinn hefur framsent þær í samræmi við 5. mgr. Nefndin skal leggja texta, sem samþykktur hefur verið með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða, fyrir ráðherranefndina til samþykktar. Þegar ráðherranefndin hefur samþykkt textann skal hann sendur samningsaðilum til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis.
7. Sérhver breyting öðlast gildi gagnvart þeim samningsaðilum, sem hafa viðurkennt hana, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðinn er mánuður frá því að fimm samningsaðilar, þar af að minnsta kosti fjögur aðildarríki Evrópuráðsins, hafa tilkynnt framkvæmdastjóranum að þeir hafi viðurkennt hana.
Gagnvart hverjum þeim samningsaðila, sem staðfestir breytinguna síðar, öðlast hún gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðinn er mánuður frá því að téður samningsaðili tilkynnir framkvæmdastjóranum að hann hafi viðurkennt hana.


XIV. kafli – Lokaákvæði

33. gr. – Undirritun, fullgilding og gildistaka
1. Samningur þessi skal lagður fram til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins og ríki, sem eru ekki aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð samnings þessa, og fyrir Evrópubandalagið.
2. Samningur þessi skal lagður fram með fyrirvara um fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Skjöl til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis skulu afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.
3. Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að þrjú ríki, þar af tvö aðildarríki Evrópuráðsins að minnsta kosti, lýsa sig samþykk því að vera bundin af honum í samræmi við ákvæði undanfarandi málsgreinar.
4. Samningurinn öðlast gildi gagnvart hverju undirritunarríki, sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af honum, á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal til fullgildingar, viðurkenningar eða samþykkis þess er afhent til vörslu.

34. gr. – Ríki sem eiga ekki aðild að Evrópuráðinu
1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins, að höfðu samráði við samningsaðilana, boðið ríkum utan Evrópuráðsins að gerast aðilar að samningi þessum með ákvörðun sem tekin er með þeim meirihluta sem kveðið er á um í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða samþykki fulltrúa samningsríkjanna sem eiga rétt til setu í nefndinni.
2. Samningurinn öðlast gildi gagnvart sérhverju ríki, sem gerist aðili, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal til aðildar er afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

35. gr. – Landsvæði sem samningurinn tekur til
1. Hvert undirritunarríki getur við undirritun, eða þegar skjal þess til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar er afhent til vörslu, tilgreint það eða þau landsvæði sem samningur þessi skal taka til. Sérhvert annað ríki getur lagt fram sömu yfirlýsingu við afhendingu aðildarskjals.
2. Hvert ríki getur hvenær sem er síðar, með yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, látið samning þennan taka til sérhvers annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni, enda fari ríkið með utanríkismál þess og hafi heimild til að stofna til skuldbindinga fyrir þess hönd. Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær yfirlýsinguna.
3. Afturkalla má hverja yfirlýsingu samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum, að því er varðar sérhvert landsvæði sem tilgreint er í slíkri yfirlýsingu, með tilkynningu til framkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

36. gr. – Fyrirvarar
1. Hvert ríki og Evrópubandalagið geta við undirritun samnings þessa, eða þegar skjal til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar er afhent til vörslu, gert fyrirvara við hvert einstakt ákvæði samningsins að svo miklu leyti sem gildandi lög á landsvæði þess eru ekki í samræmi við það ákvæði. Fyrirvarar almenns eðlis skulu óheimilir samkvæmt þessari grein.
2. Sérhverjum fyrirvara samkvæmt þessari grein skal fylgja stutt greinargerð um þau lög sem um er að ræða.
3. Hver samningsaðili, sem lætur samning þennan taka til landsvæðis, sem greint er frá í yfirlýsingunni sem um getur í 2. mgr. 35. gr., getur gert fyrirvara, að því er varðar viðkomandi landsvæði, í samræmi við ákvæði undanfarandi málsgreina.
4. Hver samningsaðili, sem hefur gert þann fyrirvara sem greint er frá í þessari grein, getur afturkallað hann með yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðinn er einn mánuður frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

37. gr. – Uppsögn
1. Hver samningsaðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2. Uppsögnin öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að framkvæmdastjórinn fær tilkynninguna.

38. gr. – Tilkynningar
Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum ráðsins, Evrópubandalaginu, hverju undirritunarríki, hverjum samningsaðila og ríkjum, sem hefur verið boðið að gerast aðilar að samningi þessum, um:
a - hverja undirritun,
b - afhendingu hvers skjals til fullgildingar, viðurkenningar, samþykkis eða aðildar,
c - hvern gildistökudag samnings þessa í samræmi við 33. eða 34. gr.,
d - hverja breytingu eða bókun sem samþykkt er í samræmi við 32. gr. og gildistökudag slíkrar breytingar eða bókunar,
e - hverja yfirlýsingu sem gefin er samkvæmt ákvæðum 35. gr.,
f - hvern fyrirvara og hverja afturköllun fyrirvara samkvæmt ákvæðum 36. gr.,
g - hverja aðra gerð, tilkynningu eða orðsendingu varðandi samning þennan.


Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Oviedo (Asturias) 4. apríl 1997 í einu eintaki á ensku og frönsku sem verður afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textarnir jafngildir. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal láta hverju aðildarríki Evrópuráðsins, Evrópubandalaginu, ríkjum sem eru ekki aðildarríki en hafa tekið þátt í gerð samnings þessa og ríkjum, sem boðið er að gerast aðilar að samningi þessum, í té staðfest endurrit.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16