Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 60 ára

Hér má finna nýja hreyfimynd um mannréttindayfirlýsinguna, við lagið "stundarkorn" frumsamið lag eftir hljómsveitina Hjaltalín sem hún samdi við myndina.

 

Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.

1. grein.

Árið 1948, í kjölfar voðaverka heimsstyrjaldarinnar síðari, samþykkti alþjóðasamfélagið skjal sem ætlað var að leggja hornsteininn að nýrri heimsskipan. Í heimi sem skipt var upp af nýlenduherrum og markaðist af kynþáttaaðskilnaði var mannréttindayfirlýsingin ótrúlegt þrekvirki því í henni felst fyrsta alþjóðlega viðurkenning þess að mannréttindi og frelsi sé réttur allra manna, alls staðar og með því markar hún þáttaskil í heimssögunni. Með yfirlýsingunni var lagður grundvöllur að uppbyggingu hins alþjóðlega mannréttindakerfis og hún hefur með árunum orðið leiðarljós þeirra sem vinna að eflingu og virðingu mannréttinda.

UDHR60English

Mannréttindayfirlýsingin áréttar göfgi og gildi mannsins og byggir á því að allir hafi sömu óafsalanlegu mannréttindi; réttindi sem eru okkur nauðsynleg vegna þess að við erum manneskjur. Við krefjumst öll jafnra tækifæra og mannsæmandi lífskjara, og höfum þörf fyrir fæði, klæði og húsaskjól. Við viljum geta haft áhrif á samfélagið sem við búum í og fá tækifæri til að njóta gæða þess. Í mannréttindum felst einnig vernd gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er og þau grundvallast á virðingu fyrir einstaklingnum. Mannréttindi vinna gegn vanþekkingu og hatri og eiga að gera okkur kleift að byggja samfélag sátta og samlyndis.

Mannréttindayfirlýsingin hefur ómælda þýðingu fyrir heimsbyggðina alla en áhrifa hennar gætir í lögum og stjórnarskrám um víða veröld. Lögin nægja þó ekki ein og sér; til þess að sækja rétt sinn og virða rétt annarra verður fólk að vita hvað felst í mannréttindum. Útbreiðsla yfirlýsingarinnar og þekking á ákvæðum hennar er þannig mikilvæg forsenda mannvæns samfélags þar sem fólk nýtur mannhelgi, jafnréttis, borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda og óttaleysis um líf og afkomu.

Nú þegar syrtir í álinn þurfum við að gæta þess að ekki sé slegið af kröfum um mannréttindavernd. Brýnt er að aðgerðir til að bregðast við efnhagskrepunni ógni ekki réttaröryggi borgaranna og vegi ekki að því sem áunnist hefur á síðust 60 árum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna byggir á hugsjón um samfélag mannhelgi, réttlætis og jafnra tækifæra fyrir alla. Látum þessa hugsjón varða leiðina til bætts samfélags í hinu nýja Íslandi.


Mannréttindaskrifstofan fagnaði 60 ára afmælinu á margvíslegan hátt m.a. með útgáfu nýrrar þýðingar yfirlýsingarinnar, með útgáfu myndabókar með skreytingum ungra hönnuða, með gerð hreyfimyndar og með hátíðarfundi sem haldinn var með utanríkisráðuneyti á mannréttindadaginn, 10.desember.

 

Myndabókina má finna hér.

Mannréttindayfirlýsinguna í nýrri þýðingu má finna hér.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16