Umdeildur trúarleiðtogi í Reykjavík

Múslimaklerkurinn Ahmad Seddeq hjá menningarsetri múslima segir að samkynhneigð ýti undir rán á börnum. Framkvæmdastjóri mannréttindaskrifstofu Íslands segir ummælin geta varðað við hegningarlög.

Á Íslandi eru tvö skráð múslimsk trúfélög, Félag múslima á Íslandi sem fengið hefur lóð undir mosku í Sogamýri og Menningarsetur múslima á Íslandi sem er með aðsetur í Ýmishúsinu.

Félag múslima á Íslandi er talið frjálslyndara en hitt. Skráðir félagar í Menningarsetri múslima, eru 305. Ahmad Seddeq Ímman eða trúarleiðtogi félagsins, segist iðka það sem hann kallar sanna íslamstrú og taka orð Kóransins alvarlega. 

Ummæli Ahmads í Speglinum, fréttaskýringaþætti Rúv, hafa vakið athygli. Spurður um samkynhneigð segir Ahmad að samkynhneigð ýti undir rán á börnum og mansal. 

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstou Íslands, segir þessi ummæli vekja athygli: „Þetta er góð spurning. Ég vil til dæmis benda á það að í hegningarlögunum er ákvæði sem gerir það refsivert að ráðast opinberlega með háði eða rógi eða smánun á einstaklinga eða tiltekinn hóp einstaklinga á grunvelli til dæmis kynhneigðar þeirra. Þannig að slík ummæli gætu varðað við hegningarlög.“

Margrét segir Íslendinga hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar og erfitt sé að eiga við samtök þar sem mismunum gegn samkynhneigðum sé í raun predikuð: „Við höfum auðvitað undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar og líka bara samkvæmt íslenskum lögum þá má ekki mismuna fólki til dæmis á grundvelli kynhneigðar. Reyndar líka trúarbragða, kynferðis og svo framvegis. Við erum með ákvæði til dæmis í stjórnarskránni.“

Í 63. grein stjórnarskrár er trúfrelsisákvæði þar sem segir að  allir eigi rétt að stofna trúfélög og iðka trú sína. Þó má ekki kenna neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.Á hinn bóginn segir skýrum orðum í  65. grein stjórnarskrárinnar að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis og trúarbragða. Þá segir í sömu grein að konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Í viðtalinu talar Ahmad um að konur eigi að hylja hár sitt því annað geti leitt til framhjáhalds. Af sömu ástæðum vildi hann ekki taka í hönd fréttakonu Spegilsins. Þá kemur fram að stærsti styrktaraðili Menningarseturs múslima sé Al-Risalah en þessi samtök eru með aðsetur í Sádí-Arabíu.

Margrét segir það vera spurningu hvort þetta sé hatursáróður: „Það er auðvitað góð spurning. Hatursáróður er til dæmis bannaður samkvæmt fjölmiðlalögum, og eins og ég vitnaði í áðan, í ákvæði í  hegningarlögunum. Það ætti tvímælalaust að skoða það.“

Fréttina má lesa á ruv.is hér; http://www.ruv.is/frett/umdeildur-truarleidtogi-i-reykjavik


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16