Mannréttindi hafa fengið meira vægi

Ástand mannréttindamála á Íslandi er sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndunum. Víða er þó pottur brotinn og ýmsar athugasemdir voru gerðar við stöðu mála í skýrslu sem kynnt var á þriðjudag.

Skýrslan er hluti af verkefni Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem kallast Universal Periodic Review. Um er að ræða fjögurra ára verkefni þar sem mannréttindamál eru skoðuð í aðildarríkjum SÞ. Að fjórum árum liðnum er gerð önnur könnun og það metið hvað úr hefur ræst.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir skýrsluna um margt jákvæða og er ánægð með vinnuna við hana. Leitað hafi verið til fjölmargra aðila um umsagnir og enn sé tími til að koma athugasemdum á framfæri.

Mannréttindaskrifstofan gerði ýmsar athugasemdir og Margrét segir að þrátt fyrir að staða mála sé um margt góð hér á landi, megi alltaf bæta ástandið. Til að mynda megi nefna að Ísland sé ekki aðili að, eða ekki búið að fullgilda, ýmsa samninga SÞ.

Þar megi nefna viðauka um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem kveða á um rétt einstaklinga til að kæra brot til eftirlitsnefndar samningsins. Þá sé reglum um vernd réttinda farandverkamanna og fjölskyldna þeirra í ýmsu ábótavant.

„Meðal þess sem við höfum einnig gagnrýnt er að það er skylda stjórnvalda að tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Við höfum bent á að framfærslu öryrkja og lífeyrisþega verði að skoða með þetta í huga," segir Margrét. Hún bendir einnig á að hér á landi njóti lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt ekki sömu réttinda og trúfélög. Þau síðarnefndu fá framlög frá ríkinu í hlutfalli við félagafjölda en ekki þau fyrrnefndu.

„Þá höfum við einnig vakið athygli á stöðunni varðandi kynbundið ofbeldi, ekki síst hjá erlendum konum, en erlendar konur eru hlutfallslega fleiri þeirra sem koma til dvalar í Kvennaathvarfinu en þeirra íslensku," segir Margrét. Hún segir hins vegar að mannréttindi hafi almennt fengið meira vægi í samfélaginu og staða þeirra batnað undanfarin ár.

Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/mannrettindi-hafa-fengid-meira-vaegi/article/2011706039953


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16