Kynferðisofbeldi er kynbundið ofbeldi

Kynferðisofbeldi er kynbundið ofbeldi
Anna Bentína Hermansen, Kynjafræðingur og ráðgjafi

Kynferðisofbeldi er kynbundið ofbeldi.

Í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er kynbundið ofbeldi skilgreint sem ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Þann 25 nóvember s.l. hófst 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi þar sem sjónum er beint sérstaklega að ofbeldi gegn konum. Það er döpur staðreynd að konur verði fyrir ofbeldi í krafti kyn síns og alvarlegasta birtingamynd þess er kynferðislegt ofbeldi.
Það eru oftast karlar sem nauðga konum, börnum og öðrum körlum. Erlend tölfræði sýnir að kynferðislegt ofbeldi er algengt og að konur eru mun oftar þolendur þess en karlmenn. Þannig sýna bandarískar rannsóknir að um 18% kvenna verða fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar á lífsleiðinni á móti 3% karla. Einnig er talað um að 6 hver drengur verði fyrir kynferðisofbeldi og 3 hver stúlka.
Rannsóknir sýna líka að oftast verður brotaþoli fyrir kynferðisofbeldinu á heimili sínu af einhverjum sem hann þekkir. Af þeim sem leituðu til Stígamóta 2015 voru aðeins 17,1 % ofbeldismannanna ókunnugir. 

Styttum svartnættið

Stigamót hafa safnað tölfræðilegum upplýsingum í 26 ár til að lýsa þeim hliðum íslensk samfélags sem birtist í starfsemi þeirra. Á þeim 26 árum sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa um 7.600 einstaklingar leitað til samtakanna vegna kynferðisofbeldis, mikill meirihluti þess eru konur. Gerendur ofbeldis eru yfir 10 þúsund, mestmegnis karlar.  Við teljum að hér birtist aðeins toppurinn á ísjakanum. Margir brotaþolar leita sér aldrei aðstoðar.

Mikilvægt er að horfast í augu við að þrátt fyrir að karlar verði líka fyrir ofbeldi og að gerendur geta líka verið konur, þá er kynferðisofbeldi kynbundið. Kynblinda í umræðunni er varasöm og gerir lítið úr þessum veruleika. Við vitum að skuggatölur um tíðni ofbeldis eru miklar en það á við um bæði kynin þegar kynferðisofbeldi er annars vegar.  Markmið okkar ætti að stytta svartnætti brotaþola kynferðisofbeldis af hvaða kyni sem er og leita allra leiða til þess, án þess að missa sjónar af kynjabreytunni sem einkennir þessi mál.

Stigamót stóðu fyrir herferð gegn kynferðisofbeldi dagana 8-18 nóvember. Herferðin bar yfirskriftina styttum svartnættið sem vísar til þess að stytta þann tíma sem líður frá ofbeldinu þar til brotaþoli leitar sér hjálpar. Í herferðinni steig fjöldi Stígamótafólks fram og sagði frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi. Stígamótafólkið í herferðinni sýndi tölur frá 2-42 en hver tala stóð fyrir þeim árafjölda sem leið frá því að ofbeldið átti sér stað þar til þau fengu hjálp.
Meginástæða þess að fólk á erfitt með að leita eftir hjálp er skömm. Þau óttuðust viðbrögð samfélagsins eða hvort þeim yrði trúað.
Flestir eru sammála um að kynferðislegt ofbeldi sé eitt grófasta form mannréttindabrota sem ekkert siðmenntað samfélag á að líða, enda er alvarleiki ofbeldisins flestum ljós. Flestir brotaþolar lýsa hinsvegar mikilli togstreitu frá umhverfinu þegar þeir stíga fram með reynslu sína. Oft er þeim mætt með þögn eða jafnvel vantrú.

Sextán daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi er liður í að hvetja til opinnar og hispurslausrar umræðu jafnframt því að vera leið til vitundarvakningar meðal almennings og frekari aðgerða í kjölfarið. Herferðin Styttum svartnættið sem Stígamót stóð fyrir var af sama toga.

Kynferðisofbeldi er samfélagsvandamál sem varða alla. Það er ekki einkamál þeirra sem verða fyrir því. Það er okkar ábyrgð sem samfélags og skapa vettvang fyrir ábyrga og opna umræðu og stytta svartnætti þeirra fjölmörgu brotaþola sem hafa enn ekki leitað sér hjálpar.
Draumamarkmið Stígamóta er að geta lokað starfseminni, að okkar verði ekki þörf og að kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi verði ekki lengur til.  Þangað til þurfum við öll sem eitt að gera allt til að uppræta það samfélagsmein sem kynbundið ofbeldi er.

 

 

 



Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16