Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti: vel heppnuð vitundarvakning


Á dögunum birtu félagasamtökin UNITED á heimasíðu sinni yfirlit yfir verkefni sem þeim þótti sérlega vel heppnuð í tengslum við Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti í mars sl. Mannréttindaskrifstofa Íslands tilkynnir með mikilli ánægju að samstarfsverkefni okkar er þeirra á meðal. Þau félög/stofnanir sem komu að skipulagningu og framkvæmd Evrópuvikunnar í ár ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands eru: Evrópustofa - Upplýsingamiðstöð ESB, Rauði krossinn, Landsamband Æskulýðsfélaga, AFS á Íslandi, URKÍ, Skátarnir og Reykjavíkurborg, og kunnum við þeim þakkir fyrir samstarfið.

Þema ársins í ár var Hönd í hönd og tóku yfir 20 grunnskólar þátt. Framkvæmdin var þannig að nemendur og starfsfólk tókust hönd í hönd í hringum skólabyggingar sínar til að sýna samstöðu með margbreytileika. Einnig skrifuðu ýmsir hópar ungs fólks 1000 póstkort sem send voru til handahófsvalinna viðtakenda með skilaboðum og hvatningu til samstöðu gegn kynþáttafordómum.

Á heimasíðu UNITED er vitnað í Fríðu Rós Valdimarsdóttur, verkefnastýru Evrópuvikunnar í ár, en hún bendir m.a. á að verkefni af þessu tagi krefjast tiltölulega lítils fjármagns og eru frekar auðveld í framkvæmd. Verkefnið fékk þó nokkra umfjöllun í blöðum og sjónvarpi, sem og á netinu, og í grein UNITED eru hlekkir á umræðuna á Íslandi. Við vonumst til að endurtaka leikinn að ári, þá með þátttöku enn fleiri skóla og leikskóla.

Hér má lesa grein UNITED.

Um Evrópuvikuna

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars, og miðar að því að uppræta þröngsýni, fordóma og þjóðernishyggju í Evrópu. Í tengslum við 21. mars er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í álfunni. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag víðsýni og samkenndar þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.

Mannréttindaskrifstofa Íslands heldur utan um Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti hér á landi, en samtökin UNITED for Intercultural Action, sem eiga bækistöðvar í Hollandi, ákveða þema hvers árs, og útvega (ef áhugi er fyrir hendi) þátttakandi löndum hugmyndir um útfærslu, plagöt, kort osfrv.

Hér má sjá frekari upplýsingar um Evrópuvikuna, á Facebook og á heimasíðu Mannréttindskrifstofunnar.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16