Grein í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi - Konum blæðir

Grein í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi - Konum blæðir
Inga Dóra, framkvæmdastýra UN Women

Konum blæðir

„Undir stjórn ISIS mátti aðeins sjást í augun á okkur. Einn daginn þvoði ég þvott uppi á þaki með óhulið andlitið. Vígamaður íslamska ríkisins kom auga á mig. Þeir óðu inn á heimilið og skipuðu okkur að koma út. Þeir hirtu skilríki eiginmanns míns. Mér var skipað að stíga ofan á höfuð eiginmanns míns meðan hann var hýddur. Svo var honum skipað að greiða 50 dollara sekt. Vinkonur mínar hafa verið herteknar og gert að verða eiginkonur vígamannanna og enn fleirum hefur verið nauðgað. Mig dreymir um að geta snúið aftur til Mosul og lifa þar í friði,“ segir 19 ára gömul stúlka í flóttamannabúðum í Írak.

Borgin Mosul í Írak hefur verið höfuðvígi vígamanna ISIS undanfarin tvö ár. Í október var talið að vígamennirnir héldu að minnta kosti 3.500 kynlífsþrælum. Sameinuðu þjóðirnar telja að í Mosul hafi verið framinn glæpur gegn mannkyninu en ekki aðeins hafi konur verið beittar gegndarlausu ofbeldi heldur hefur öllum íbúum verið haldið í heljargreipum. Konum í Mosul hefur verið haldið í algjörri einangrun. Síma- og netnotkun varðarvið dauðasök, ferðafrelsi kvenna ekkert og raddir kvenna stranglega bannaðar opinberlega.

Nú freista öryggissveitir Íraka að frelsa borgina undan ISIS og þar geysa hörð átök. Um 62 þúsund manns hafa flúið borgina síðastliðinn mánuð í leit að öryggi og frelsi. Hætta er á að ástandið í Mosul muni ekki batna á næstunni og hræðast margir að íbúum bíði sömu örlög og íbúum Aleppo.

UN Women er á svæðinu, í Mosul og kring og dreifir sæmdarsettum til kvenna á flótta úr borginni. Sæmdarsettin innihalda nauðsynjavörur sem auka öryggi kvenna og gera þeim kleift að halda reisn og sæmd sinni þrátt fyrir skelfilegar aðstæður. Konum blæðir en þú getur hjálpað. Með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.490 kr) veitir þú konu sæmdarsett sem inniheldur vasaljós, sápu og dömubindi.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16