Fyrirgefning

Fyrirgefning
Ívar Karl

Fyrirgefning

Fegurð fyrirgefningarinnar er víðtekin hugmynd í samfélagi okkar. Siðferðislegan grundvöll hennar má finna innan trúarbragða sem utan og hefur fyrirgefningin víða öðlast nánast sjálfgefið siðferðisgildi í menningu okkar. Þar sem fyrirgefningin er ekki aðeins álitin siðferðislega rétt heldur jafnframt talin skilvirkasta leiðin til bata eftir að brotið hafi verið á manni. Þess háttar ógagnrýnin áhersla á fyrirgefningu getur þó allt eins virkað til þess að staðfesta ríkjandi valdahlutföll og undirskipa brotaþola enn á ný valdi þeirra sem brotið hafa á þeim.

Fólki sem beitt hefur verið kynbundnu ofbeldi, kynferðislegu, líkamlegu og/eða andlegu er ósjaldan ráðlagt að fyrirgefa gerendum ofbeldisins. Er það iðulega gert á þeim forsendum að hún feli í sér græðandi afl og greiðustu leið brotaþola til þess að vinna úr reynslu sinni og láta að baki. Svo mikil áhersla á fyrirgefningu getur hins vegar sett þolendur í verulega erfiða stöðu, sér í lagi þegar ekki er tekið mið af líðan þeirra, eða yfir höfuð hvort þeir telji sig tilbúna til þess að fyrirgefa. Jafnvel þótt þess háttar þrýstingur sé oft gerður af góðum hug þá getur hann orðið öfugverkandi. Þegar knúið er á um fyrirgefningu kemur það fram í frekari valdbeitingu og þvingunum sem þolandi getur upplifað á þann hátt að brotið sé á sér öðru sinni.

Þar á ofan virðist þess háttar fyrirgefning oft skilyrðislaus. Að afsökunarbeiðni kalli á fyrirgefningu, og raunar að þar sem að fyrirgefningin sé fyrir þolandann en ekki gerendur, þá þurfi afsökunarbeiðni ekki einu sinni til og viðbrögð gerenda, ábyrgð og iðrun skipti þar engu máli. En sé fyrirgefningin ætluð til þess að veita gerendum syndaaflausn án þess að þeir þurfi að taka ábyrgð á gjörðum sínum né sýna yfirbót þá leiðir hún síður fram sátt hjá þolendum. Þess í stað getur það haft þveröfug áhrif á þann veg að þolendur upplifi það sem enn frekara ofbeldi. Hér er því nauðsynlegt að borin sé virðing fyrir afstöðu þolanda og það, hvort hann sé tilbúinn að skoða þess háttar leiðir, sé látið ráða för. Á móti séu ótímabærar afsökunarbeiðnir og sáttarfundir að frumkvæði gerenda fremur til þess að óvirða þolendur og valdi þeim jafnvel frekari skaða, þegar þolandi er enn einu sinni beðinn um að setja vilja gerandans ofar sínum eigin.

Án þess að gera lítið úr fegurð hugmyndarinnar um fyrirgefningu, dygðinni sem í henni býr eða veigamiklum þætti hennar í upplifunum margra og merkt skref þeirra við að vinna úr reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi, þá ber að vera meðvitaður um að: afsökunarbeiðni ber ekki með sér syndaaflausn, fyrirgefning þarf ekki að fylgja afsökunarbeiðni, engin á heimtingu á fyrirgefningu, svo þeim, sem beittir hafa verið ofbeldi, sé ekki gert að sæta frekari þvingunum og valdbeitingu. Siðferðisgildi séu þannig látin standa með brotaþolum en ekki gegn þeim.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16