Fréttaskýring: Breyti trúfélagslögum í átt til jafnréttis

Yfirlýst markmið þeirra breytinga á lögum um trúfélög sem lagðar eru til í frumvarpi innanríkisráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi er að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga og að tryggja jafnrétti foreldra barns þegar kemur að því að ákveða hvort og þá til hvaða félags það eigi að tilheyra.

Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru börn skráð sjálfkrafa í trúfélag móður við fæðingu og hefur það sætt nokkurri gagnrýni í gegnum tíðina. Jafnréttisstofa komst að þeirri niðurstöðu árið 2008 að sú tilhögun að trúfélagsstaða barns færi alfarið eftir móðerni væri tæpast í samræmi við jafnréttislög. Út frá jafnrétti og mannréttindum væri eðlilegra að foreldrar kæmu sér saman um hvaða félagi barnið ætti að tilheyra og skráðu það sjálf.

Ekki er þó gengið svo langt í frumvarpinu að færa ábyrgð á trúfélagsskráningu barna alfarið á hendur foreldra. Í raun er það óbreytt nema þegar um er að ræða foreldra í hjúskap eða skráðri sambúð sem tilheyra ekki sama félaginu. Þau þurfa þá að komast að samkomulagi um skráningu barnsins.

Flókið fyrirkomulag

Alls hafa 15 umsagnir borist við frumvarpið frá trú- og lífsskoðunarfélögum, stofnunum og einstaklingum. Umsögn Karls Sigurbjörnssonar, fráfarandi biskups, er nokkuð harðorð en hann segir breytinguna á skráningum íþyngjandi fyrir trúfélög og ganga gegn hagsmunum barnsins. Hætta sé á að fyrirkomulagið verði flókið í framkvæmd því engin ákvæði séu um hvað gerist ef foreldrar komi sér ekki saman um skráninguna. Leggur hann til að ef ákvörðun liggi ekki fyrir þegar nafn barns sé skráð verði það skráð í trúfélag móður.

Í umsögn Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu er gagnrýnt að staða barns sé ótilgreind þar til foreldrar sem ekki tilheyra sama félagi komi sér saman um það. Þetta geti leitt til þess að ef annað foreldrið sé utan trúfélaga geti það á óbeinan hátt þröngvað afstöðu sinni á barnið í óþökk hins foreldrisins.

Umboðsmaður barna gerir litlar athugasemdir við frumvarpið í umsögn sinni en veltir upp þeirri spurningu hvort í ljósi þess að flest börn fermist á 14. aldursári sé ekki eðlilegra að börn gætu tekið ákvörðun um inngöngu eða úrsögn úr trúfélagi þá í staðinn fyrir þegar þau eru orðin 16 ára eins og nú er. Þannig réðu þau sjálf hvort eða hvar þau fermast.

Torveldar ekki starfsskilyrði

Mannréttindaskrifstofa Íslands lýsir yfir ánægju með frumvarpið en leggur til að staða barna sé ótilgreind þar til foreldrar þess sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð taki sameiginlega ákvörðun um skráningu þess í trú- eða lífsskoðunarfélag.

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands segir tillögurnar skýrar og gangi ekki á rétt eða geri starfsskilyrði skráðra trúfélaga erfiðari. Stofnunin gerir hins vegar athugasemd við skilgreininguna á lífsskoðunarfélögum. Skilyrði frumvarpsins sé að þau byggist á siðferði og lífsskoðunum óháð trúarsetningum og tengja megi við þekkt hugmyndakerfi í heimspeki og siðfræði. Bendir stofnunin á að þó ekki sé ómögulegt að úrskurða um slík tengsl sé það undarlegt að setja slík skilyrði í lög eins og það liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum slíkur úrskurður ætti að byggjast.

 

Fréttin á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/03/breyti_trufelagslogum_i_att_til_jafnrettis/


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16