Fréttabréf MRSÍ október 2015 - október 2016

Finna má fréttabréfið í PDF-formi hér.

Liðnir atburðir


Nefndarstörf

Sæti í nefndum

Framkvæmdastjóri MRSÍ situr í ýmsum nefndum og vinnuhópum er starfa á vegum ríkisins. Má þar nefna velferðarvaktina og vinnuhóp hennar um sárafátækt, samráðshóp um aðgerðir gegn mansali á vegum innanríkisráðuneytis, samráðs- og samhæfingarteymi um mansal á vegum velferðarráðuneytis, Fagráð MARK-Miðstöðvar margbreytileika og kynjarannsókna, nefnd um málefni hinsegin fólks, nefnd um málefni geðsjúkra fanga, starfshóp vegna hatursglæpa og samstarfshóp um Bjarkarhlíð- miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, samráðshóp til að auka framgang og framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Framkvæmdastjóri MRSÍ er og tengiliður Íslands í Norrænu verkefni um fræðslu og aðgerðir gegn hatursræðu og kynjahyggju á netinu. 

Framkvæmdastjóri situr einnig í teymi um málefni innflytjenda, vinnuhópi um endurskoðun búsetuskerðinga og tengslaneti umboðsmanns barna. 


Samstarfsverkefni

Samstarfsamningur við Utanríkisráðuneytið til þriggja ára

Í janúar 2015 var undirritaður samstarfssamningur við utanríkisráðuneytið til þriggja ára. Í samningnum, sem Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Bjarni Jónsson, þáverandi formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofunnar, undirrituðu, er gert ráð fyrir að skrifstofan haldi áfram að sinna starfi tengiliðar við frjáls félagasamtök sem starfa að mannréttindum og lýðræði í styrkþegaríkjum  Uppbyggingarsjóðs EES og aðstoði við undirbúning funda um mannréttindamál hjá alþjóðastofnunum og standi að einum til tveimur fundum árlega með utanríkisráðuneytinu til að auka umræðu og meðvitund innanlands um alþjóðleg mannréttindi.

Áframhaldandi lögfræðiráðgjöf til innflytjenda

Í maí 2016 undirritaði framkvæmdastjóri endurnýjun samnings við Velferðarráðuneytið um lögfræðiráðgjöf til innflytjenda, þeim að kostnaðarlausu. Mannréttindaskrifstofan hefur sinnt slíkri þjónustu síðastliðin fjögur ár og hefur viðtölum fjölgað talsvert ár frá ári.

Meira um ráðgjöfina má lesa hér.

Heimsóknir frá félagasamtökum, víðs vegar að

Skrifstofan hefur fengið margar heimsóknir frá erlendum félagasamtökum sem vilja fræðast um starf hennar.

Í nóvember 2015 hélt Framkvæmdastjóri MRSÍ kynningu fyrir frjáls félagasamtök frá Rúmeníu um starf skrifstofunnar.

Í apríl  2016 komu Rúmensk félagasamtök í heimsókn í þeim tilgangi að fá kynningu á starfsemi stofunnar.

Í júní 2016 heimsóttu búlgörsk og litháísk samtök skrifstofuna og fengu fræðslu um starfsemi hennar. Heimsókn þeirra var, sem hinar fyrrnefndu, styrkt af Uppbyggingarsjóði EES.

Í ágúst 2016 heimsóttu konur frá slóvakískum félagasamtökum skrifstofuna í þeim tilgangi að taka þátt í dagskrá til kynningar á íslenskum félagasamtökum og til að fræðast um hvernig unnið sé að réttindum barna á Íslandi. Heimsókn þessi var, sem hinar, í tengslum við Uppbyggingarsjóð EES.

Í október 2016 komu  síðan hópar frá Grikklandi og Rúmeníu og fengu þeir fræðslu um starfsemi skrifstofunnar og deildu reynslu sinni með skrifstofunni.

Tillögur um eftirlit með störfum lögreglu

Framkvæmdastjóri MRSÍ sat í nefnd sem skilaði af sér tillögum um eftirlit með störfum lögreglu haustið 2015.

Íslenska skuggaskýrslan fyrir Kvennasáttmálann 2016

Í mars var Ísland tekið fyrir af nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, en hún starfar á grundvelli Kvennasamnings Sþ. Í kjölfarið sendi nefndin tilmæli til íslenskra stjórnvalda um hvað betur megi fara í jafnréttismálum hér á landi. Lagði nefndin sérstaka áherslu á ofbeldi gegn konum og nauðsyn þess að fjölga konum í lögreglunni og Hæstarétti. Tilmælin tóku mið af ýmsum  athugasemdum sem MRSÍ og Kvenréttindafélag Íslands tilgreindu í skuggaskýrslu sinni til nefndarinnar,  en þar var  bent á brotalamir í lagasetningu og áætlunum stjórnvalda og hvað betur megi fara í starfi opinberra aðila til að vinna gegn mismunum gagnvart konum. Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum, eða Kvennasáttmálann eins og hann er betur þekktur, árið 1985.

Meira um skuggaskýrsluna má lesa hér. 


Fundir og mannfagnaðir

Jafnréttisþing

Þann 25. nóvember 2015 boðuðu félags- og húsnæðismálaráðherra og jafnréttisráð, í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjölmiðlanefnd, til jafnréttisþings á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskrift þingsins var Kynlegar myndir – jafnrétti á opinberum vettvangi og var dagsskráin afar fjölbreytt. Farið var yfir skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013-2015 ásamt fleiri áhugaverðum erindum. Þá var boðið upp á þrjár áhugaverðar málstofur, þ.e: Kyn og fjölmiðlar, Kyn og kvikmyndir og Kyn og hatursorðræða. Framkvæmdastjóri MRSÍ flutti erindi á málstofunni Kyn og hatursorðræða og fjallaði um hvað mætti gera til að vinna gegn hatursorðræðu og lagði fram ábendingar til framtíðar. Heppnaðist Jafnréttisþingið afar vel og lauk því með afhendingu fjölmiðaviðurkenningar Jafnréttisráðs.

Meira um dagskrá þingsins má finna hér.

Málstofa um rannsóknir nemenda í HÍ á málefnum sem falla undir kynbundið ofbeldi

Í tengslum við hið árlega alþjóðlega 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hélt MRSÍ málstofu þann 2. desember 2015 sem tileinkuð var rannsóknum nemenda úr Háskóla Íslands á málefnum sem falla undir kynbundið ofbeldi. Þrír fyrirlesarar , hver úr sinni fræðigrein, kynntu rannsóknir sínar sem sýnir okkur hversu víða má finna snertifleti við kynbundið ofbeldi. Fyrirlesarar voru þær Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir og Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir. Guðrún Katrín er meistaranemi í félagsfræði, Karen Dögg skilaði meistararitgerð sinni í kennslufræði sl. sumar og Hrafnhildur er doktorsnemi í fötlunarfræði. Fyrirlestrarnir voru afar áhugaverðir og fróðlegir.

Fundarstjórn var í höndum framkvæmdastjóra MRSÍ og var vel mætt.

Meira um málstofuna og fyrirlestrana má finna hér.

Saman gegn ofbeldi

Í mars var framkvæmdastjóri MRSÍ fenginn á fund verkefnastjórnar Saman gegn ofbeldi. Hennar framlag í umræðuna laut að kynbundnu ofbeldi enda er meginmarkið átaksins að útrýma heimilisofbeldi.

Hér má lesa meira um átakið Saman gegn ofbeldi.

Málþing um Istanbúlsamninginn

Þann 8. apríl hélt MRSÍ, í samstarfi við Jafnréttisstofu, málþing um Istanbúlsamninginn og innleiðingu hans. Yfirskrift þingsins var Istanbúlsamningurinn: Hinn gullni mælikvarði á meðferð kynferðisbrotamála. Fyrirlestrarnir voru mjög áhugaverðir, m.a. fjallaði Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, um hver þessi Istanbúlsamningur væri og hversvegna hann skipti máli á Íslandi. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri MRSÍ, hélt einnig erindi sem fjallaði um hverju þyrfti að breyta í íslenskri löggjöf til að innleiða Istanbúlsamninginn hér á landi.

Fleiri áhugaverð erindi voru flutt og má lesa meira um það hér.

Fundur fólksins

Í september hélt MRSÍ, í samstarfi við Fjölmiðlanefnd, málþing um hatursorðræðu sem hafði yfirskriftina „Hættum að hata”. Fundurinn var haldinn í Norræna húsinu og var framkvæmdastjóri MRSÍ einn fyrirlesara.

Bridge Builders

Á árinu hélt framkvæmdastjóri MRSÍ bæði til Parísar og London vegna Erasmus verkefnis sem nefnist Bridge builders. Samstarfsaðilar skrifstofunnar í Bretlandi eru Law for Life og AVIJED í París. Verkefnið miðar að því að búa til fræðsluefni og upplýsingar fyrir lykilfólk innan innflytjendasamfélaga svo það geti síðan miðlað upplýsingunum áfram. Þannig þekki innflytjendur réttindi sín í nýja landinu betur og geti gætt þeirra.

Ráðstefna í Búdapest

Í október 2016 var framkvæmdastjóra MRSÍ boðin þátttaka í ráðstefnu um hatursorðræðu sem haldin var í Búdapest. Þar flutti hún erindi um aðgerðir MRSÍ gegn hatursorðræðu.


Sérverkefni

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti var haldin dagana 14. – 21. mars 2016, með viðburðum um gjörvalla Evrópu. Yfirskrift vikunnar þetta árið var "Hönd í hönd" og er hönnuður vörumerkisins Arna Rún Gústafsdóttir. Líkt og fyrri ár hélt MRSÍ utan um skipulagningu vikunnar í samstarfi við ýmis félagasamtök víðsvegar um landið. Meðal annars tóku Rauði Kross Íslands, Bandalag íslenskra skáta og Ungliðahreyfing Rauða Krossins þátt í Evrópuvikunni.

Markmið verkefnisins var sem endranær að fræða ungmenni um kynþáttamisrétti og einnig að fræða þau um hvernig þau geti upplýst aðra um hinar ýmsu hliðar kynþáttamisréttis, hvernig sporna megi við því, osfrv.

Auk þess að fræðast um kynþáttmisrétti tókust nemendur og starfsfólk í yfir 20 leik- og grunnskólum um land allt, hönd í hönd í kringum skólabyggingar sínar til að sýna samstöðu með margbreytileikanum. Það er verkefni sem hóf göngu sína 2015 í tengslum við átakið og ætlunin er að halda því gangandi um ókomin ár.  

Jafnframt skrifuðu yfir 1000 ungmenni persónuleg póstkort sem send voru til handahófsvalinna Íslendinga líkt og verið hefur síðustu ár. Skilaboðin voru skrifuð sem hvatning til samstöðu gegn kynþáttafordómum og var viðtakendum boðið að taka þátt í þeirri samstöðu með því að taka mynd af sér með skilaboðunum undir millumerkinu #hondihond.

Frekari upplýsingar um Evrópuvikuna er að finna hér og á facebook síðu hennar hér.

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

MRSÍ hélt, líkt og undanfarin ár, utan um átakið og tók þátt í skipulagningu og framkvæmd þess. Þema ársins var það sama og undanfarin ár eða frá heimilisfriði til heimsfriðar - menntun fyrir alla. Eftir mikla hugmyndavinnu kom slagorðið Fræðsla til friðar, framtíðar og feminisma upp og var notað.

Greinar birtust í net- og prentmiðlum á hverjum degi á meðan á átakinu stóð og  og voru þær afar vel unnar og innihéldu fjölbreytt og markvert efni. Viðburðir voru með ýmsu móti og má finna frekari útlistun á dagskrá og greinarnar á Facebook síðu átaksins.

Allar almennar upplýsingar um 16 daga átakið 2015 og 2016 sem og upplýsingar um átak síðustu ára má finna á  heimasíðu okkar: http://www.humanrights.is/is/servefir/althjodlegt-16-daga-atak-gegn-kynbundnu-ofbeldi og á Facebook síðu átaksins: https://www.facebook.com/16dagar/?fref=ts. 


Önnur verkefni

Aðalfundur MRSÍ og kosning nýrrar stjórnar

Aðalfundur MRSÍ var haldinn í maí þar sem kosið var til nýrrar stjórnar.

Nýja stjórn skipa:

Kitty Anderson, formaður

Hugrún R. Hjaltadóttir, varaformaður

Ragnheiður Sverrisdóttur, gjaldkeri

Óskum við nýrri stjórn til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi sínu og þökkum fráfarandi formanni vel unnin störf.  

Fræðsla um CEDAW
Framkvæmdastjóri MRSÍ hélt fræðslu um CEDAW fyrir Jafnréttisfulltrúa stjórnarráðsins.  CEDAW stendur fyrir “The Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women” og er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Markmið hans er að berjast gegn hvers kyns mismunun gegn konum. Ísland fullgilti sáttmálann árið 1985 og MRSÍ, ásamt Kvenréttindafélagi Íslands, skilaði skuggaskýrslu til CEDAW nefndarinnar vegna fyriröku Íslands, líkt og fyrr greinir í fréttablaði þessu.

Fundur með framkvæmdastjóra lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE
Í júní fór framkvæmdastjóri MRSÍ á fund með framkvæmdastjóra lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE,  þar sem m.a. var rætt var um starf skrifstofunnar gegn hatursorðræðu og kynjahyggju á netinu.

Fundur með Mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins
Þann 8. og 9. júní sat framkvæmdastjóri MRSÍ fundi með mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og skipulagði fundi hans með frjálsum félagasamtökum. Í heimsókn sinni lagði fulltrúinn einkum áherslu á fullgildingu samnings Sþ um réttindi fatlaðs fólks og stofnun innlendrar mannréttindastofununar.

Fundur með ECRI nefnd
Framkvæmdastjóri MRSÍ fundaði í apríl með ECRI nefndinni til að fylgja eftir og gefa viðbótarupplýsingar við skuggaskýrslu skrifstofunnar til nefndarinnar á árinu 2015. ECRI nefndin er nefnd á vegum Evrópuráðsins og fjallar hún um aðgerðir gegn kynþáttafordómum.

Upplýsingagjöf til ýmissa alþjóðlegra aðila
Líkt og undanfarin ár hefur skrifstofan komið að upplýsingagjöf til hinna ýmsu alþjóðlegra aðila og má þar nefna Ráðherraráð Norðurlandaráðs, Sendinefnd ESB og sendiráð.

Fundur með GRETA nefndinni
Framkvæmdastjóri MRSÍ fór á fund sérfræðihóps GRETA en það er sérfræðihópur á sviði aðgerða gegn mansali og hefur hópurinn eftirlit með því að aðildarríki framfylgi og innleiði Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali. Skrifstofan sendi hópnum upplýsingar um mansal við undirbúning skýrslu um Ísland.


Framundan

Málþing

Í byrjun apríl nk. hyggjast UNICEF, Tabú og MRSÍ halda málþing um mannréttindi og sýn samnings Sþ um réttindi fatlaðs fólks á fötlun.

Þann 24. febrúar verður haldið málþing um lagalegt læsi og verkefnið Bridge Builders. Þar munu fulltrúar Law for Life og MRSÍ í verkefninu flytja erindi.

MRSÍ, Amnesty International og Rauði Kross Íslands fyrirhuga að halda málþing í vor, um stöðu flóttamanna á Íslandi.

Í mars verður einnig haldið málþing um hatursræðu og kynjahyggju á netinu. Tengist það verkefni sem styrkt er af ráðherraráði Norðurlandaráðs og samstarfsaðilar eru danska Mannréttindastofnunin og umboðsmaður jafnréttismála í Noregi. 


 

Uppbyggingarsjóður EES

Mannréttindaskrifstofan verður áfram tengiliður við frjáls félagasamtök í styrkþegaríkjum úr Uppbyggingarsjóði EES (áður þróunarsjóði EFTA).


Frekari fréttir af verkefnum Mannréttindaskrifstofunnar verður nú sem endranær hægt finna á heimasíðu okkar, www.humanrights.is

Fréttabréfið er einnig á heimasíðu MRSÍ:

http://www.humanrights.is/static/files/Frettabref/frettabref_mrsi_okt2015-okt2016.pdf 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16