Áskorun stjórnar Barnaheilla - Save the Children á Íslandi - til Alþingis

Stjórn Barnaheilla skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006 er skrifstofunni ekki ætlaður neinn stuðningur. Mannréttindaskrifstofan var stofnuð af frjálsum félagasamtökum 17. júní 1994. Hún hefur undanfarin 11 ár verið vettvangur þar sem mannréttindamál eru rædd í heild sinni og unnið mikilvægt starf að eflingu mannréttinda jafnt innanlands sem á alþjóðlegum vettvangi fyrir Íslands hönd. 

Stjórn Barnaheilla harmar þá ákvörðun fjárlaganefndar að fella niður allt opinbert fjárframlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands í fyrra en þessi skerðing hefur haft alvarleg áhrif á starfsemi skrifstofunnar.

Gert er ráð fyrir að Mannréttindaskrifstofa Íslands geti í dag sótt um fé til dómsmálaráðuneytis til ákveðinna verkefna. Með þessari ráðstöfun hefur skrifstofan ekkert fast rekstrarfé og vegur það að sjálfstæði hennar, starfsemi og fjárhagslegum grundvelli þar sem alls óljóst er um hver framlög til hennar verða. Styrkveitingar til einstakra verkefna eru alls ekki sambærilegar við óbundinn stuðning beint frá Alþingi. 

Ísland á aðild að alþjóðasamtökum og stofnunum þar sem ætlast er til að í landinu starfi sjálfstæð, óháð stofnun sem vinni að mannréttindum á heildstæðan hátt. Mannréttindafulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna fjármögnunar Mannréttindaskrifstofu Íslands en einnig eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna. Í nágrannalöndum okkar öllum starfa ríkisstyrktar en sjálfstæðar mannréttindaskrifstofur og eðlilegt er að svo sé einnig hér á landi.

Stjórn Barnaheilla hvetur því Alþingi til að styrkja Mannréttindaskrifstofu Íslands með fjárframlögum og jafnvel lagasetningu til þess að hún geti óháð gegnt sínu hlutverki sem er að vinna að framgangi og verndun mannréttinda hér heima sem og erlendis.

 

Undirritað af formanni og framkvæmdastjóra Barnaheilla 1. desember 2005.

 

 

__________________________                    _______________________________

Guðbjörg Björnsdóttir, formaður                       Kristín Jónasdóttir, framkvæmdastjóri


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16