16 daga átak: Grein eftir nemendur í lífsleikni við VMA

8. greinin í 16 daga átakinu í ár er skrifuð af nemendum við VMA.

Greinina má lesa hér fyrir neðan, og á visir.is.

Allar greinar sem og aðrar upplýsingar sem birtar eru í tengslum við 16 dag átakið birtast líka á Facebook-síðu 16 daga átaksins, og á Facebook-síðu Mannréttindaskrifstofunnar; hægt er að fylgjast auðveldlega með átakinu með því að "líka við" síðurnar.

Er það þess virði að hafa klám sem fyrirmynd?

 

Agnar Geirsson, Ari Þórðarson, Breki Þór Jónsson, Dagrún Líf Valgeirsdóttir, Davíð Gísli Davíðsson, Ewelina Paulina Mozejko, Haukur Örn Halldórsson, Hákon Þór Tímasson, Kristófer Orri Atlason, Pathara Puttharat, Sigurður Andrés Sverrisson, Snorri Guðröðarson, Thelma Björk Sævarsdóttir og Þorri Guðmundsson

 

Inngangur: Valgerður Dögg Jónsdóttir lífsleiknikennari


Í Verkmenntaskólanum eru allir nýnemar í áfanga sem kallast Lífsleikni. Þar kynnast nemendur t.d. innviðum skólans og starfsháttum, starfsfólki og félagslífi. Lífsleiknihóparnir eru margir og hver þeirra á sinn umsjónarkennara. Nemendur fá einnig tækifæri til að búa sig undir þátttöku í samfélaginu með því að efla enn fremur félagslega færni og siðferðiskennd. Við ræðum m.a. um sjálfsmynd og það sem hefur áhrif á hana og ábyrgð hvers og eins á eigin hugsunum, skoðunum og gjörðum. 

 
Í lífsleiknitímum gefst gott tækifæri til að taka fyrir málefni sem eru í deiglu samfélagsins hverju sinni og því fjölluðum við um 16 daga átakið gegn kynbundnu ofbeldi, sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember ár hvert um allan heim. Í þeirri kennslustund ákváðu nemendur að taka þátt í kyndlagöngu á vegum átaksins 25. nóvember og svo beindust umræðurnar að klámi í nútímasamfélagi og hvort og þá hvaða áhrif það getur haft á sambönd ungs fólks. 
 
Það er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að viðra skoðanir sínar og taka þátt í umræðum um öll þau málefni sem samfélagið stendur frammi fyrir hverju sinni. Með umræðum sem þessum verða nemendur okkar virkir þátttakendur. Átak sem þetta kallar eftir skoðunum þeirra og hvetur til beinnar þátttöku í samfélaginu og því fá nemendur tækifæri til að láta raddir sínar heyrast og með þeim hætti að hafa hugsanlega áhrif á umræðuna sjálfa og mótun samfélagsins.
 

Nemendurnir höfðu ólíkar hugmyndir og því fóru af stað miklar rökræður sem leiddu svo til ákveðinnar niðurstöðu sem allir gátu verið sáttir við. Hér kemur þeirra niðurstaða:


Klám gefur ekki rétta mynd af kynlífi eða ástarsambandi. Pizzasendillinn hefur ekki leyfi til að koma inn og stunda kynlíf með þér þegar þú pantar pizzu. Maður er heldur ekki að fara að stunda kynlíf með sömu konu eða sama karli og 500 aðrir hafa verið með rétt á undan. Maður hefur ekki leyfi til að neyða einhvern til að gera eitthvað sem hann ekki vill. Allt klám er sviðsett, þetta eru fantasíur sem ekki gerast í alvöru.

Þegar persónur eru í góðu sambandi, þarf að ríkja traust á milli þeirra, þær þurfa að vera hreinskilnar hvor við aðra, tala saman, finna fyrir ástríðu, og ekki skammast sín. Þetta sést ekki í klámi.

Þegar maður byrjar í sambandi og veit að hinn aðilinn hefur horft mikið á klám hefur maður áhyggjur af því að maður standist ekki þær kröfur sem gerðar eru í þessum myndum og jafnvel tónlistarmyndböndum. Að maður hafi ekki nógu stór brjóst eða nógu stórt typpi, ekki nógu mjó/r eða vöðvastælt/ur eða kunna ekki allar stellingar sem sýndar eru í þeim. Bæði strákar og stelpur geta haft þessar áhyggjur.

Við segjum að hver og einn þurfi að hafa sjálfstraust til að gera það sem hann telur rétt en ekki að herma eftir einhverju öðru sem hann hefur séð, þá getur maður verið í heilbrigðu sambandi. Að tala saman og komast að því hvað báðir aðilar vilja gera saman, það er gott samband.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16