Bann við mismunun

Réttur til jafnræðis og bann við mismunun er eitt af grundvallarhugtökum í alþjóðlegum mannréttindalögum. Hægt er að skilgreina mismunun sem hverskonar aðgreiningu, útilokun eða forgangsrétt sem byggður er t.d. á kynþætti, litarhafti, kynferði, trú, heilsufari, aldri, fötlun, stjórnmálaskoðunum, þjóðaruppruna eða félagslegri stöðu.

Rétturinn til jafnrar meðferðar krefst þess að allir einstaklingar, án tillits til ofangreindra þátta, séu jafnir fyrir lögum, án alls misréttis. Bann við mismunun á að tryggja að ólíkir einstaklingar í sömu aðstæðum standi jafnir frammi fyrir lögum og komið sé fram við þá á sama hátt, án tillits til sérkenna.

Rétt er þó að taka það fram að ólík framkoma við einstaklinga og ólík meðferð flokkast ekki alltaf sem mismunun.

Inntak hugtaksins mismunun felst í eftirfarandi viðmiðum:

  1. Kannað er hvort mismunandi meðferð sé beitt á sambærileg tilvik og hvort sambærileg meðferð sé beitt á mjög ólík tilvik.
  2. Metið er hvort meðferð tilvikanna verði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum. Við mat á því hvort hlutlægar og málefnalegar ástæður séu að baki er litið til þess hvort sú meðferð sem kvartað er undan stefni að lögmætu markmiði og hvort gætt sé meðalhófs þannig að ekki sé gengið lengra en þörf krefur í því skyni að ná því markmiði sem stefnt er að.
  3. Við mat á því hvort hlutlægar og málefnalegar ástæður séu fyrir hendi njóta ríki ákveðins svigrúms til mats sem er breytilegt eftir aðstæðum máls.

Þessi atriði hafa sérstaklega verið sett fram af alþjóðlegum mannréttindaeftirlitsstofnunum. Má þar nefna Mannréttindadómstól Evrópu, Mannréttindadómstól Ameríku og Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Bann við mismunum og rétturinn til jafnréttis krefst þess oft að ríki þurfa að beita sértækum aðgerðum til að uppræta hverskonar aðstæður sem leitt geta til misréttis.

Bann við mismunun og íslenskur réttur

Þegar mannréttindaákvæði Stjórnarskrárinnar voru endurskoðuð árið 1995, var lögfest almenn jafnréttisregla ásamt sérreglu um jafnrétti á grundvelli kynferðis. Hljómar 65. grein Stjórnarskrárinnar á eftirfarandi hátt;

Allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Í almennum lögum má víða finna ákvæði sem stefna að því að vernda jafnrétti. Helst eru það jafnréttislögin nr. 10/2008 og jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt má víða finna einstök lagaákvæði sem leggja bann við mismunun eða leitast við að tryggja ákveðin réttindi.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16